135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:44]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er ekki í hópi ákafamanna um framgang þessa frumvarps. Hins vegar er staðan einfaldlega þannig að ef stjórnarandstaðan væri ekki svona sundurklofin væri hugsanlega önnur staða uppi í þessu máli. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram hér að þeir menn sem hafa talað harðast og farið háðuglegum orðum hver um annan í umræðum um þetta mál eru hv. þingmenn Framsóknarflokksins og hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Eins og ég sagði áðan hef ég töluverða reynslu af því að snúa bökum saman með hv. þm. Ögmundi Jónassyni í stjórnarandstöðu. Ég man ekki eftir neinu máli þar sem málþóf hefur beinlínis leitt til þess að því hafi verið hrundið út af borðinu. Við höfum náð frestun oft og tíðum og stundum notað þessar aðferðir til þess að ná þrýstingi á önnur mál, það þekkjum við báðir. En ég segi það aftur að ég er ósammála hv. þingmanni um að hér séu einhvers konar hrossakaup uppi. (Forseti hringir.) Ég tel eðlilegt að þetta tækifæri sé notað til þess að stórbæta stöðu stjórnarandstöðunnar í þinginu.