135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að aðrir staðir séu heppilegri fyrir viðskipti með hross en Alþingi en þarna gerðist hv. þingmaður og hæstv. ráðherra svolítið seinheppinn eins og ýmsir hafa gerst núna síðustu dægrin þegar hann segir að ítarlegar viðræður sem hann kallar málþóf hafi ekki skilað árangri í þingsal. Ég minni á ríkisútvarpsfrumvarpið sem kom fram í þrígang og að mati allra batnaði heldur í hvert skipti sem það kom fram. En ég ætla að minna hann á annað og það eru vatnalögin. (Gripið fram í: Þau voru samþykkt …) Þar var frumvarpinu frestað eða samþykkt þess og við höfum yfirlýsingar formanns Samfylkingarinnar um að það muni ekki fara fram óbreytt, að á því verði gerðar grundvallarbreytingar. Undir það hefur formaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, tekið og undir það (Forseti hringir.) hefur hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson tekið líka. Þarna tókst stjórnarandstöðunni að taka stórhættulegt mál út úr þinginu (Forseti hringir.) og beina því inn í farveg þar sem gerðar verða á því grundvallarbreytingar, þ.e. ef menn standa við sitt.

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmenn eru beðnir að virða tímamörk.)