135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir réttilega á að það sé slæmt að vita ekki hve lengi umræður komi til með að standa einfaldlega vegna þess að ræðutími sé ótakmarkaður og þingmaður geti talað í fáeinar mínútur eða í nokkra klukkutíma, og að þetta sé slæmt. Ég er sammála honum um það á sama hátt og það er slæmt líka að þingheimur viti ekki hve lengi þingfundur standi, hvort það er til 5, 7, 8, 12 á miðnætti eða til morguns daginn eftir. Þá er spurningin: Hvernig getum við sem erum óánægð með þetta fyrirkomulag náð saman? Hvernig gerum við það? Jú, við finnum einhvern milliveg þarna á milli þar sem við stillum saman ræðutímann og lengd vinnudags og lengd þinghaldsins á ári hverju, við komumst að samkomulagi um þetta. Þarna voru menn byrjaðir að tala saman um að finna þessa fínstillingu. Við vorum búin að fallast á verulegar breytingar á ræðutímanum. Við settum að vísu fram róttækari breytingar en forsetinn vill hvað varðar forræði á þinginu. Við vildum að verkstjórnin væri á hendi stjórnarandstöðunnar sem héldi þá uppi merki þingsins en ekki ríkisstjórnarinnar hverju sinni eins og því miður hefur verið allt of oft, að forseti þingsins hefur þurft að lúta meirihlutavaldi og stjórnarstefnunni hverju sinni. Við höfum verið með tillögur um að finna þetta nýja samhengi hlutanna og vorum á leið með að gera það, við hefðum þurft að gefa okkur einhverja mánuði til þess. (Gripið fram í.) Hversu marga, spyr hv. þingmaður? Kannski hefði okkur (Forseti hringir.) ekki tekist það, ég veit það ekki, en við ættum að reyna það vegna þess að það á að vinna að þessum málum og þessum breytingum í breiðri samstöðu og samkomulagi við alla.