135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það hvernig ég skilgreini lýðræðið. Ég hallast svolítið að skilgreiningu Johns Stuarts Mills eins og hann setur hana fram í sínu afbragðsriti Frelsinu sem er grundvallarrit frjálslyndu stefnunnar og klassískt hvað varðar skilgreiningar á lýðræði, ekki bara hlutverki og valdi meiri hluta heldur einnig framkomu gagnvart minni hluta í þjóðfélaginu almennt og á þingum eins og okkar. Ég vildi gjarnan taka ágæta umræðu og ítarlega um þetta mál, þetta er grundvallaratriði og skiptir að sönnu miklu máli.

Hvers vegna vísað er í frumvarp hæstv. forseta Alþingis. Það geri ég einfaldlega vegna þess að hann er verkstjórinn í þessu máli. Það var hann sem lagði þetta frumvarp fram. Það var hann sem orðaði hlutina þannig, þegar spurt var hvort menn væru reiðubúnir til samkomulags t.d. um að sleppa takmörkunum í 2. umr. um þingmál, að þetta væri úrslitakostur af sinni hálfu. Þannig var málið sett fram. Ég er einfaldlega að horfa á veruleikann eins og hann blasti við mér og hefur blasað við okkur. Síðan er það alveg rétt að aðrir þingflokkar en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafa fallist á þessar tillögur hæstv. forseta Alþingis og ég efast ekki um að þeir eigi drjúgan þátt í því líka að móta þessar tillögur og hafi sett fram hugmyndir að sjálfsögðu líka. Ég hef verið að gera grein fyrir áherslum sem við höfum haft. Þær hafa líka komið frá Samfylkingu, Framsóknarflokki og Frjálslyndum, að sjálfsögðu, en ég er að vísa til þess að það er síðan á forræði forseta þingsins að móta úr þessum hugmyndum sem fram hafa komið. (Forseti hringir.) Það sem við höfum verið að gagnrýna er endahnúturinn af hans hálfu, þegar sýnt er að hann hefur ekki náð því ætlunarverki að sætta alla þingflokka við þær hugmyndir sem hann leggur fram þá gefst hann upp.