135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:58]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einn flutningsmanna að því frumvarpi sem hér er til umræðu ásamt hv. þingflokksformönnum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins auk hæstv. forseta Alþingis.

Ég verð að játa að ég hef verið dálítið hugsi yfir þeirri umræðu sem fram hefur farið frá því að þetta þingskapamál leit dagsins ljós. Mér hefur þótt málflutningur hv. þingmanna Vinstri grænna vera þess eðlis að ég er nokkuð viss um að seinna og síðar meir muni þeir sjá eftir þeim stóryrðum sem fallið hafa í umræðunni. Ég er sannfærður um að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru til þess fallnar að styrkja þingið, styrkja Alþingi sem stofnun, styrkja eftirlitshlutverk Alþingis, styrkja Alþingi sem löggjafarsamkundu og styrkja Alþingi sem umræðuvettvang samfélagsins. Ég er sannfærður um að við erum á réttri leið hvað það varðar með þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir.

Ég hef lagt mig í framkróka við að reyna að átta mig á hverjar röksemdir hv. þingmanna Vinstri grænna eru. Ég hef frá því í sumar tekið þátt í að vinna að þessu máli, leita eftir hugmyndum og sjónarmiðum sem hafa verið til þess fallin að styrkja málið og það vita þeir sem til þekkja og hafa fylgst með málinu frá því í sumar að það hefur tekið verulegum breytingum frá upprunalegum hugmyndum. Það frumvarp sem nú liggur fyrir hefur því þroskast mikið og þróast í meðförum og að þeirri umræðu hafa allir þingflokkar komið og einnig þingflokkur Vinstri grænna þó að á endanum hafi ekki allir náð saman um það. En það breytir ekki hinu þegar við stöndum frammi fyrir því að þingflokkar hafa náð saman um breytingar, stjórnarflokkar og meiri hluti stjórnarandstöðu, að þá hlýtur að vakna sú spurning hvort rétt sé að láta staðar numið og að einstaka þingflokkar hafi neitunarvald um að málið sé lagt fram eða hvort ganga eigi fram með málið. Í þessu tilviki var tekin ákvörðun um að fara fram með málið.

Mér hefur líka þótt athyglisvert í þessari umræðu að hv. þingmenn hafa gengið mjög hart fram í því að halda fram að hefðin sé sú að þingskapamál hafi aldrei verið lögð fram nema í sátt. Það er ekki alveg rétt því að árið 1936, þegar gerðar voru verulegar breytingar á þingsköpum, á grundvallaratriðum sem gilda jafnvel enn þann dag í dag eins og til að mynda í atkvæðagreiðslu, þ.e. að þeir sem ekki greiða atkvæði teljast til þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu, var frumvarp til þingskapa samþykkt í neðri deild með 17 atkvæðum gegn 9. Sama frumvarp var samþykkt í efri deild með 9 atkvæðum gegn 5. Þessi þingsköp giltu að stofni til til ársins 1985. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að undantekningarlaust hafi verið alger samstaða í flutningi þingskapamála eins og haldið hefur verið fram í umræðunni hér. Þá er einnig ástæða til að rifja upp og nefna að síðastliðið sumar var gerð breyting á nefndaskipan. (Gripið fram í: Í nokkurn veginn hálfa öld.) Það hafa ekki verið gerðar miklar breytingar á þingsköpum, það eru ekki mörg önnur fordæmi til að horfa til þannig að það er vert að hafa það í huga. Síðastliðið sumar voru gerðar breytingar á þingsköpum, breytingar á nefndum sem ekki var heldur samstaða um. Mér finnst mikilvægt að þetta sé í heiðri haft í umræðunni og horft til þess þegar menn láta þau stóryrði falla að það þekkist ekki að þingsköp hafi verið lögð fram nema alger samstaða sé um málið. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Spurningin sem við stóðum frammi fyrir var einfaldlega þessi: Á einn þingflokkur að hafa neitunarvald þegar stjórnarflokkarnir hafa náð saman um mál og meiri hluti stjórnarandstöðunnar er tilbúinn að taka þátt? Þessari spurningu er að sjálfsögðu svarað með því að leggja frumvarpið fram en það breytir ekki hinu að ég hefði gjarnan viljað sjá alla þingflokka taka þátt í að leggja málið fram. Eins og kom fram í máli forseta mun þingið taka sér þann tíma sem þarf til að ljúka málinu og að sjálfsögðu er ekki útséð um það þegar málið verður afgreitt á endanum hvort hv. þingmenn gangi í takt og við eigum eftir að sjá hvort við náum slíkri lendingu en það væri mikill akkur í því.

Ég vil líka nefna sérstaklega við þessa umræðu vegna þess að mér hefur þótt heldur að hæstv. forseta Alþingis vegið að að minni hyggju hefur hann leitast við að draga fram sjónarmið allra í umræðu um málið. Hann hefur lagt sig fram um að reyna að ná samstöðu. Ef ég man sögu málsins rétt þá lagði hæstv. forseti það fyrst fram á fundi forsætisnefndar í júlí eða ágúst sl. og síðan hefur það verið til umræðu og á forræði þingflokksformanna og menn hafa leitast við að ná sameiginlegri lendingu sem því miður ekki tókst.

Erindi mitt í ræðustól er kannski fyrst og fremst að reyna að mæta þeim röksemdum sem gagnrýnendur frumvarpsins hafa komið fram með. Í fyrsta lagi hefur það verið gagnrýnt að málfrelsið sé skert. Þá hljótum við að spyrja okkur: Hver er kjarninn í málfrelsinu? Kjarninn í málfrelsi og tjáningarfrelsi hlýtur að vera sá að menn geti komið á framfæri sjónarmiðum sínum og skoðunum. Það hlýtur að vera lykilatriðið, og að menn geti gert það þannig að engar hindranir séu í veginum. Þegar við horfum til þess að þetta frumvarp fer í gegnum þrjár umræður, verði það að lögum, og að hv. þingmenn geta talað eins oft og þeim sýnist, þá er ekki hægt að halda því fram með rökum eða af sanngirni að verið sé að skerða málfrelsið. Það er ekki sanngjarnt. Að mörgu leyti má líka halda því fram að það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til sé miklu líklegra til að leiða til rökræðu en ekki einræðu og það skiptir mjög miklu máli. Ég hef trú á því að sú breyting verði, miðað við það sem hér hefur ríkt í langan tíma, að þingmenn stjórnarliðsins muni taka miklu meiri þátt í umræðunni og að niðurstaðan verði meiri rökræða en einræða eins og hér hefur verið á köflum og sá sem hér stendur hefur einnig tekið þátt í því og ég ætla ekki að draga minn þátt út í þeim efnum.

Af því að hér hefur verið vísað til umræðna um fjárlög, sem kveðið er á um í stjórnarskrá, þá held ég að það sé atriði sem við hljótum að skoða mjög vandlega hvort ástæða sé til að rýmka þá umræðu sérstaklega og að sjálfsögðu á eftir að skoða það vel í nefnd. Við erum nýfarin í gegnum umræðu um fjárlög sem tók 11–12 klukkustundir í það heila og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi talað í tæpa 7 tíma af þessum 12, ég verð þá leiðréttur ef ég fer ekki rétt með. Þessar 7 tíma ræður kölluðu ekki fram rökræður, þær kölluðu ekki fram breytingar á fjárlagafrumvarpinu og þær höfðu kannski efnislega ekki nein áhrif á frumvarpið. Ég er ekki að segja að þessi breyting endilega þýddi það en við horfum hins vegar fram á að sú umræða gaf okkur ekki fyllri eða betri mynd eða breytti á nokkurn hátt því sem hér var afgreitt í dag og það hlýtur að vera umhugsunarefni.

Röksemdafærsla sem hér hefur einnig verið beitt er að hitamál samtímans hafi tekið breytingum vegna mikillar og langrar umræðu. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að menn höfðu vondan málstað og vegna þess að menn voru á rangri leið. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að hv. þingmenn hafi komið fram með athugasemdir sem full ástæða var til að horfa til og taka mark á sem hafi breytt þeirri umræðu en ekki bara langar ræður. Ég held að það sé lykilatriði og ekki sé hægt og ekki sé sanngjarnt að leggja það þannig upp að málþóf eitt út af fyrir sig hafi tryggt einhverjar breytingar. Ég held að það sé miklu frekar að hlutaðeigandi ríkisstjórn hafi verið á rangri leið og menn hafi uppgötvað það og þar af leiðandi hafi tekist að draga fram einhverjar breytingar. Þegar þetta er dregið saman þá er það ósanngjarnt og stóryrði sem ekki standast að hér sé verið að svipta menn málfrelsi, það heldur ekki, vegna þess að kjarninn í málfrelsinu er að menn fái undanbragðalaust að koma sínum sjónarmiðum að og þar séu ekki hindranir og það er ekkert í þessu frumvarpi sem skerðir málfrelsið.

Í annan stað er spurningin, eins og m.a. hv. þm. Ögmundur Jónasson vísaði til í ræðu sinni, hverjir möguleikar stjórnarandstöðunnar eru til að veita ríkisstjórninni aðhald. Það hlýtur eðlilega að vera einn mælikvarðinn sem lagður er á þetta þingskapamál vegna þess að eitt meginhlutverk stjórnarandstöðunnar er að veita aðhald. Í þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir er alveg ljóst að staða stjórnarandstöðunnar er bætt. Mál fara til nefndar eftir 1. umr. og eftir 2. umr. ef þeim er breytt þannig að þau fara a.m.k. tvisvar til nefnda. Dregið er úr því að hægt sé að keyra mál í gegn, m.a. með því að mál sem koma fram síðar en í nóvember koma ekki á dagskrá fyrr en eftir áramót. Þetta er stórvægileg breyting frá því sem verið hefur og mun án efa hafa áhrif í þessa veru. Þá er lagt til að í stað þess að hæstv. ráðherrar komi og svari vegna gjörða sinna tvisvar í mánuði í svokölluðum óundirbúnum fyrirspurnum er ætlunin að hafa slíkar fyrirspurnir átta sinnum í mánuði þar sem hægt verður að spyrja ráðherra út úr, á hvaða ferðalagi þeir séu. Hér er verið að rýmka þetta enn frekar. Einnig er lagt til að þinginu sem umræðuvettvangi samfélagsins verði á hverjum degi ætlaðar a.m.k. 30 mínútur, sem er a.m.k. 10 mínútna framlenging frá því sem nú, til að hægt sé að taka upp mál dagsins þannig að möguleikar til að veita ríkisstjórn og meiri hluta á hverjum tíma aðhald í þingstörfunum eru án efa auknir. Því er ekki hægt að halda þeim sjónarmiðum fram að mínu viti að hér sé verið að skerða tækifæri stjórnarandstöðunnar til að veita aðhald. Mér finnst þau sjónarmið eiga mjög undir högg að sækja í þessari umræðu og ég finn þeim ekki stað. Ég lít svo á að hér sé verið að auka enn frekar möguleika stjórnarandstöðunnar. Það er staðreynd að það hefur fyrst og fremst verið hlutverk stjórnarandstöðunnar að veita ríkisstjórninni aðhald, og það er kannski mál sem vert er að ræða sérstaklega, hugsanlega mætti þingið skoða hvort fleiri ættu ekki að koma að þeirri umræðu, hefðin hefur verið sú og þess vegna þurfum við að horfa á það þegar við breytum þingsköpum að tryggja að stjórnarandstaðan hafi þennan möguleika.

Enda þótt spyrt hafi verið saman í þessari umræðu annars vegar framlögum til að styrkja þingið og hins vegar frumvarpi til þingskapalaga sérstaklega virðist mér eins og málin hafi verið að þróast þannig að fjárlögin verði afgreidd og líklega án þess að frumvarp til þingskapalaga hafi verið afgreitt þannig að þá hefur sá aðskilnaður væntanlega átt sér stað sem hér hefur verið talsvert gagnrýndur. Í grundvallaratriðum er alveg ljóst að stjórnarandstaðan og þingið verður ekki styrkt nema einhver fjárframlög komi til. Það er algert lykilatriði í þessari umræðu. Ég fæ því ekki séð að hægt sé að gagnrýna það á þennan hátt og þess vegna þykir mér miður, af því að sá er hér stendur hefur tekið þátt í því með mörgum þeirra sem nú eru í stjórnarandstöðu að veita ríkisstjórn aðhald, að nú þegar að minni hyggju er verið að styrkja þingið, bæta það og efla, skuli hv. þingmenn Vinstri grænna ekki koma með okkur í það ferðalag. Þetta hefur valdið mér miklum vonbrigðum og er full ástæða til að það komi fram í þessari umræðu.

Í þriðja lagi hlýtur að sjálfsögðu löggjafarstarfið sjálft að vera sá mælikvarði sem lagður er á þetta frumvarp. Erum við að reyna að bæta löggjafarstarfið? Erum við að reyna að vanda vinnuna? Erum við að reyna að tryggja að þau mistök sem átt hafa sér stað í fortíðinni endurtaki sig ekki? Að sjálfsögðu getum við ekki tryggt það til fulls en það er ljóst að það frumvarp og þær hugmyndir sem hér liggja fyrir stefna að því.

Ég hef sagt í þessari umræðu að ég líti svo á að þetta frumvarp til þingskapalaga sé skref í rétta átt. Þetta er enginn fullnaðarsigur og þetta er engin endanleg endurbót en með þessum hugmyndum hefur tekist að ná fram samstöðu fjögurra flokka af fimm á hinu háa Alþingi. Það er ákveðinn áfangi þó að ég telji, eins og ég sagði áðan, að það sé ekki útilokað þegar við lokum þessu máli á endanum að allir gangi í takt. En þá er spurningin kannski þessi: Hvað er það raunverulega sem verið er að skerða? Því sem haldið hefur verið fram og menn hafa verið að rugla saman er annars vegar málfrelsið og hins vegar rétturinn til málþófs. Það má kannski segja sem svo að þarna hafi hv. þingmanni orðið fótaskortur á tungunni ef svo má að orði komast, en ef menn vilja tala um réttinn til málþófs, (Gripið fram í.) nei, hv. þingmaður sem hér tjáir sig um þetta, það er spurningin um réttinn til málþófs. Þegar þetta frumvarp er skoðað þá er alveg ljóst, ef menn vilja horfa til þess, að þetta fyrirkomulag býður a.m.k. upp á mjög góða möguleika á að hafa umræður langar og miklar. Má bara taka sem dæmi að 5 mínútna ræða með fullum andsvörum gefur u.þ.b. 23 mínútur ef þau eru nýtt í botn, það er hægt að fylgja 5 mínútna ræðu eftir með 18 mínútna andsvörum. Það er því alveg ljóst að ef markmiðið er bara að hafa langan tíma, þ.e. að umræður taki langan tíma, þá er ekkert í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að hægt sé að halda umræðu um mál lengi áfram. Það er ekkert hér sem stöðvar það.

Í þessum hugmyndum er einnig gengið út frá því að hver þingflokkur geti óskað eftir að tvöfalda ræðutíma sinn a.m.k. tvisvar á vetri sem gefst þá þeim þingflokki stjórnarandstöðunnar sem hér er kannski fyrst og fremst verið að ræða um. Umræðuefnið hlýtur að vera það hvort verið sé að vega að stjórnarandstöðunni eða ekki. Niðurstaða mín er sú að verið sé að styrkja stjórnarandstöðuna. Ég virði það að aðrir hafi uppi annað sjónarmið en ég hef reynt að rýna í þau og hlýða á þau sjónarmið en mér finnst þau ekki sannfærandi. Ég verð að segja það alveg eins og er. Einnig getur hæstv. forseti tekið ákvarðanir um að framlengja umræðuna. Einnig er hægt að óska eftir því við forseta að umræðan verði lengri, þannig að það er ekki sanngjarnt að halda því fram að það sé útilokað að hafa langar umræður. Mér þykja röksemdirnar sem fram hafa komið til andstöðu við þetta mál á engan hátt sannfærandi og mér finnst þurfa betri sjónarmið ef sannfæra á einhvern, ég skal kannski ekki segja um það, en a.m.k. þingflokksformenn 54 hv. þingmanna á þinginu hafa lagt til að þessi leið verði farin og ef hv. þingmenn Vinstri grænna ætla að sveigja þá þingmenn yfir á sitt band þurfa þeir að mínu viti að koma með betri og vandaðri sjónarmið en komið hafa fram af þeirra hálfu.

Ég hef ekki heyrt að á öðrum Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu, þar sem ræðutími er sennilega mun takmarkaðri en hér er lagt til, sé því haldið fram að tjáningarfrelsi eða málfrelsi sé skert eða að þingmenn hafi verið sviptir því. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að hlutverk þingsins sé í fyrsta lagi að setja lög og löggjafarstarfsemin er styrkt. Í annan stað er hlutverk þingsins að veita ríkisstjórninni aðhald og eins og hefðin hefur verið hér að tryggja stjórnarandstöðunni möguleika á að veita ríkisstjórninni aðhald, ég held að það sé betur tryggt nú en áður. Í þriðja lagi að þingið verði öflugur umræðuvettvangur samfélagsins og það er verið að styrkja það einnig. Að minni hyggju er fyrst og fremst verið að styrkja og bæta þingið, efla það sem stofnun, og að hér sé verið að stíga lítil skref í rétta átt. Sá sem hér stendur er svo sem ekkert saklaus að því að geta vel hugsað sér að taka stærri skref í þessa átt en í þessari umferð náðist sátt um þær breytingar a.m.k. hjá fjórum þingflokkum af fimm að taka þetta skref. Ég held, virðulegi forseti, að við eigum að taka þetta skref, við eigum að nota þann tíma sem við þurfum núna til að bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir í meðförum þingsins og ég er nokkuð viss um að hv. þingmenn Vinstri grænna munu taka þátt í þeirri umræðu og hver veit nema við munum öll ganga í takt við þegar málið verður á endanum afgreitt.