135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:20]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti þeirri skoðun minni síðasta fimmtudag að ég teldi frumvarpið á margan hátt mjög jákvætt. Það er rétt viðleitni að færa Alþingi til nútímalegs horfs, gera það skilvirkari og um leið fjölskylduvænni vinnustað en verið hefur. Ég tel hins vegar að ganga megi mun lengra í þessum efnum. Þetta er fyrsta skrefið í rétta átt en við þurfum að gera enn betur.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að í málfrelsinu fælist fyrst og fremst það að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri og að það gætu menn gert án hindrana. Ég tek undir orð hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar um að ég er ekki fullviss um að rétt sé að stytta ræðutímann niður í 15 mínútur. Ég tel það of langt gengið og brýni þingmenn til að ná samstöðu um það mikilvæga mál. Málfrelsið er mjög mikilvægt. Við þurfum að fjalla um það á mjög yfirvegaðan og rólegan hátt og leita allra leiða til að ná samstöðu.

Hv. þingmaður talaði annars vegar um rökræðuna og hins vegar um einræðuna, og er þá líklega að vísa í hið svokallaða málþóf. Ég vil benda á þriðju aðferðina sem er hin svokallaða kappræða. (Forseti hringir.) Ég tel að við séum því miður að færa umræðuform á Alþingi (Forseti hringir.) úr rökræðustíl í kappræðustíl.