135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir ræðu sem var að mörgu leyti ágæt. Hún var ágæt vegna þess að hún var málefnaleg, hún tefldi fram röksemdum og ræðumaður lýsti skoðunum sínum. Ég er ekki sammála skoðunum hans að öllu leyti en er tilbúinn að íhuga röksemdirnar. Ég vil taka fram að þótt hann hafi fundið þess dæmi frá öndverðri 20. öld að ekki hafi verið samstaða um breytingar á þingsköpum og einnig dæmi frá síðasta vori, þá er hefðin sú í seinni tíð að leitað hefur verið eftir samstöðu um breytingar á þingskapalögum. Ég minni á þær breytingar sem voru gerðar í byrjun 10. áratugar síðustu aldar og á síðustu árum og ég vísa í umræðuna um það efni sem hefur byggst á virðingu fyrir þessari hefð.

Hv. þingmaður sagði að samkvæmt frumvarpinu gæfist þingheimi tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og er þá að vísa í 2. og 3. umr. þar sem menn geta talað í 15 mínútur í fyrstu ræðu og síðan heilar 5 mínútur. Það er alveg rétt. Menn geta komið skoðun sinni á framfæri á 5 mínútum en þegar kemur að því að rökræða í þaula flókin þingmál þurfa menn hugsanlega á lengri tíma að halda. Ég gæti vísað í þingmál sem hafa verið hér til meðferðar og hafa hreinlega þurft á því að halda að kafað væri í hlutina.

Hvort stjórnarandstaðan telji að sér vegið? Já, hún telur svo vera. Á hún þá ekki að hlíta vilja meiri hlutans í þinginu? Það fer eftir því hvernig menn vilja standa að breytingum af þessu tagi. Stjórnarmeirihlutinn og (Forseti hringir.) meiri hlutinn í þinginu vill hafa vit fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Það er kölluð forræðishyggja og það (Forseti hringir.) er henni sem við viljum hafna í þessari umræðu.