135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:27]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að fagna tóninum í ræðu hv. þingmanns, það eflir trú mína á að þegar við á endanum afgreiðum málið verði allir í takt.

Hv. þingmaður sagði að stjórnarandstöðunni fyndist að sér vegið. En það er nú einu sinni þannig að minni hluta stjórnarandstöðunnar þykir að sér vegið, 9 af 20 þingmönnum stjórnarandstöðunnar telja að sér vegið en 11 telja að frumvarpið sé ekki til þess fallið að veikja stjórnarandstöðuna. Ég virði fyllilega þau sjónarmið sem komið hafa fram þó að mér þyki þau ekki sannfærandi, eins og ég hef áður sagt. En ég er líka viss um að þingskapamálið á hugsanlega eftir að taka breytingum í meðförum þingsins. Markmiðið hlýtur á endanum að vera að efla Alþingi sem stofnun, efla eftirlitshlutverk þess með framkvæmdarvaldinu og efla það sem umræðuvettvang. Það er markmiðið og ég er sannfærður um að við erum á réttri leið.