135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:31]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum algjörlega sammála um að við viljum tryggja það að illa ígrunduð lög fari ekki hér í gegn. Um það erum við algjörlega sammála og við vitum það líka báðir, hv. þingmenn, að nefndastarfið er lykilatriði ef tryggja á vandaða meðferð. Þar fer hin raunverulega vinna fram. Það er þar sem menn uppgötva hnökrana á frumvörpum alla jafna. Þannig að við hv. þingmenn erum samstíga um þetta. Ég tel að þingskapalögin tryggi og bæti þessa vinnu.

Í annan stað nefnir hv. þingmaður að það sé erfitt að gera áætlanir því menn viti ekki hvort umræðu ljúki fyrir sólarupprás eða ekki. Hér er verið að stíga það skref að ekki verði kvöldfundir nema á þriðjudögum, þ.e. að það sé eini dagurinn sem sé tekinn frá, að öðru leyti ljúki þingfundum ekki síðar en klukkan átta. Þetta er að sjálfsögðu skref í þá átt sem hv. þingmaður nefnir hér.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að eftir að hafa hlýtt á hv. þingmann tala, eftir að hafa tekið þátt í umræðunni og andsvörum þá virðist mér hv. þingmaður ekki endilega vera að gagnrýna það frumvarp sem hér liggur fyrir, heldur fyrst og fremst að gagnrýna það sem ekki stendur í frumvarpinu, t.d. að taka hefði mátt stærri skref til að styrkja stjórnarandstöðuna. Hv. þingmaður nefndi forseta þingsins, formenn í nefndum o.s.frv. Þar kannski liggur hin raunverulega efnislega gagnrýni en hún liggur ekki endilega í gagnrýni á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mér þykir ágætt að þetta hafi komið fram við þessa umræðu. (Gripið fram í: Ég er að gagnrýna aðstandendur og ákvæði.)