135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[22:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Guðni Ágústsson flutti athyglisverða ræðu og notaði til þess rúmar 35 mínútur, þ.e. honum hefði ekki dugað tvöfaldur sá ræðutími sem samkvæmt hinu nýja frumvarpi á að leyfa við umræður um hin stærstu mál. Ég tel að litlu hafi verið ofaukið í þessari ræðu hv. þingmanns og hann nýtt tíma sinn ágætlega og þótt hann hafi klárað hann.

Ég kom inn á þing á vordögum 1983. Ég var þá enn við nám í Háskóla Íslands og ég held að ég verði að segja að mér fannst vinnustaðurinn býsna fornfálegur. Ég veit ekki úr hvaða heimi þeir koma sem tala eins og að hér hafi ekkert breyst og Alþingi ekki áttað sig á því að það séu nýir tímar. (Gripið fram í.) Þeir þekkja lítið til sögunnar og muna ekki það Alþingi sem ég kynntist fyrst. Þá var margt með öðrum brag en er í dag. Ætli meðalaldur starfsmanna, einkum þingmanna, hafi ekki verið 65–70 ár hið minnsta, þ.e. starfsmanna, helst þingvarða. Hér gengu um virðulegir jakkafataklæddir eldri karlar ráðnir af þingmönnum sem þeir höfðu þekkt. Alþingi starfaði í tveimur deildum. Tölvur voru að sjálfsögðu óþekkt fyrirbæri. Tveir til þrír þingmenn deildu skrifstofum ef skrifstofur skyldi kalla, kompum undir súð í Þórshamri, og þannig mætti áfram telja.

En það fór ýmislegt að gerast á 9. áratugnum. Starfshættir og vinnubrögð á Alþingi voru tekin til rækilegrar skoðunar, m.a. var settur á fót starfshópur fulltrúa allra þingflokka sem fékk erlenda ráðgjafa sér til liðs til að gera úttekt á Alþingi og vinnubrögðum þess og koma með tillögur til úrbóta. Sömu aðilar höfðu reyndar unnið að sambærilegum athugunum á þjóðþingum annars staðar. Ráðgjafarfyrirtækið Haberstad var þarna á ferð og upp úr þessum hugmyndum og þessari vinnu spruttu að hluta til breytingarnar á þingsköpum 1991 sem voru langróttækustu breytingar sem gerðar voru á þinginu, nánast frá endurreisn þess, þegar það var sameinað í eina málstofu, nefndasvið stofnað og aðstaða þingmanna stórbætt. Miklir svardagar voru uppi hafðir um það að þetta skyldi ekki gert á kostnað þess að vinnubrögð yrðu óvandaðri og mistök jafnvel líklegri við lagasetningu heldur þvert á móti, m.a. með því að vanda alveg sérstaklega umfjöllun um mál eftir að þau væru komin í eina málstofu, öll frumvörp nema fjárlagafrumvarp sem áður hafði verið í sameinuðu þingi, tryggja ítarlega rannsókn þeirra í þingdeildum og búa betur að því starfi öllu saman. Það mál var afgreitt í góðri sátt. Fyrst í stað held ég að menn hafi virkilega lagt sig fram um að standa við hin stóru fyrirheit um vönduð og sanngjörn vinnubrögð. Liður í þessu var breytt valdajafnvægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Menn vildu styrkja þingið í sínum eigin rétti og draga úr þeirri miklu aðgreiningu í meiri hluta og minni hluta sem oft hafði verið hér landlæg. Liður í því var að stjórnarandstaðan tók við forustu í þingnefndum nokkurn veginn í hlutfalli við þingstyrk sinn og staða stjórnarandstöðu var styrkt á ýmsan hátt í stjórnkerfi þingsins.

Því miður entist þetta stutt. Ég verð að segja að frá miðjum síðasta áratug eða svo hefur þetta meira og minna allt saman gengið til baka. Hin skarpa aðgreining í meiri hluta og minni hluta og sú hugsun að Alþingi sé fyrst og fremst afgreiðslustaður fyrir málefni, frumvörp og mál framkvæmdarvaldsins hefur gerst æ ágengari. Ráðherrar hafa tekið með miklu meiri léttúð á þeim skyldum sínum að sækja þingfundi og vera til svara og það gerist iðulega að þeir mæta ekki til umræðna þótt eftir því sé leitað.

Þannig hef ég því miður upplifað þetta á síðustu árum og það er enginn vafi í mínum huga á því að Alþingi Íslendinga er mun veikara en þjóðþingin í nágrannalöndunum og kemur þar margt til. Það hefur veikst gagnvart framkvæmdarvaldinu miklu frekar en styrkst. Á þessu má náttúrlega leita skýringa ef menn vilja en ég held að m.a. sé þær augljóslega að finna í því að hér hafa setið mjög sterkar meirihlutaríkisstjórnir. Alþingi þekkir nánast ekki minnihlutastjórnarhefð en það er alkunna að þjóðþingin styrkjast gjarnan við þær aðstæður að ríkisstjórn þarf að semja um framgang mála sinna á þingi. Menn geta svo sagt að það geti gengið út í öfgar og það má vel til sanns vegar færa, en ekki held ég að menn kvarti þó almennt undan því eins og í Noregi þar sem menn bjuggu í meira en 20 ár samfellt við minnihlutastjórnir sem hafði augljóslega þau áhrif að staða þingsins styrktist jafnt og þétt. Hér hafa líka verið við völd ráðamenn sem hafa ástundað mikil valdboðsstjórnmál, viljað knýja sín mál í gegn og hafa ekki haft mikla samúð með Alþingi sem eitthvað hefur verið að þvælast fyrir þeim.

Þriðja ástæðan sem má nefna er sú að það er ekki mikil hefð í íslenskum stjórnmálum fyrir svokölluðum samstöðustjórnmálum eða konsensusstjórnmálum. Það er einhvern veginn ekki andinn sem hér hefur svifið yfir vötnum að mönnum beri að leggja mikið á sig til að reyna að ná samstöðu um mál ef þess er nokkur kostur, óháð því hvort þeir þurfa endilega á því að halda til að koma málum sínum fram, þurfa endilega á að halda þeim atkvæðum sem það snýst um Ég get ekki annað en endurtekið vonbrigði mín og eiginlega undrun á þeim vinnubrögðum sem forseti Alþingis hafði forustu um þegar þetta mál var í fæðingu. Þegar forseti boðaði það í ræðum sínum í vor að hann hefði hug á að gera breytingar held ég að flestir hafi tekið því vel, en þær væntingar sem við það voru bundnar fóru heldur illa í frostkuldunum þegar í ljós kom að hæstv. forseti ætlaði að standa þannig að þessu að hann héldi utan um undirbúning málsins einn og legði fram í trúnaði í þröngum hópum, fyrst forsætisnefnd og síðan við formenn þingflokka, frumvörp sem höfðu verið samin á hans vegum og voru að hans sögn í raun ekki til umræðu þar sérstaklega, heldur kynningar af því að að hluta til væru þeir kostir sem þar voru uppdregnir óumbreytanlegir, ultimatum, úrslitakostir.

Forseta var gert það ljóst strax í haust að a.m.k. nokkur atriði í frumvarpsdrögum hans væru óaðgengileg fyrir okkur. Forseti reyndist ekki til umræðu um að koma til móts við þau sjónarmið okkar en stillti málinu þvert á móti þannig upp að ekki bara væru þær tillögur sem hann hefði látið setja á blað um ræðutíma og annað í þeim dúr óumbreytanlegar heldur væru þær algerlega fastbundnar þeim hugmyndum um úrbætur á starfsaðstæðum þingmanna og efndir gamalla loforða eins og frá kjördæmabreytingu fyrir níu árum sem héngu á spýtunni. Þessari framsetningu mótmæltum við strax og vöruðum við henni. En það kom fyrir ekki, svona kaus forseti að stilla dæminu upp.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi hér að það væri spurning hvort einn þingflokkur eða einstakir þingmenn, hópur þingmanna, ættu að hafa neitunarvald í máli af þessu tagi. Er nú ekki dálítið djúpt í árinni tekið að kalla það að menn vilji taka sér neitunarvald ef þeir láta ekki bjóða sér hvað sem að þeim er rétt í þessum efnum og þegar það er lagt á borðið sem úrslitakostir strax í byrjun? Við höfum ekki farið fram á neitt neitunarvald í þessum efnum, en við höfum neitað að láta kúga okkur undir hluti sem við erum á móti. Hvað gefur forseti þessu máli langan tíma í raun og veru í efnislegri umræðu og skoðun eftir að trúnaði er aflétt af málinu? Í 2–3 vikur stóð málið opið. Það er allt og sumt. Og þetta er í byrjun kjörtímabils þegar nógur tími er til stefnu við að vinna hlutina áfram, ræða málin og átta sig á því hvort ekki er hægt að halda þeirri hefð að reyna að gera breytingar af þessu tagi í samkomulagi og hafa frið og samstöðu um undirstöðuvinnureglurnar í þessari stofnun. Það er stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar sem forseti trakterar með þessum hætti. Leggur það enga ábyrgð á herðar forseta þegar þær aðstæður koma upp að það var ekki einu sinni hægt að skoða það í klukkutíma, hvað þá daga, og fékk þó forseti eins og hér kom reyndar fram áskoranir um það víðar að en frá okkur þegar formenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna gengu á hans fund.

Því er hampað mjög að í þessu felist miklar úrbætur. Það má til sanns vegar færa að ýmislegt í þessu frumvarpi og málum sem því tengjast er skref í rétta átt. Það þýðir samt ekki að menn geti ekki haft hlutina með öðrum hætti og gengið frá þeim í einstökum atriðum öðruvísi en hér á að leggja upp. Hvert eru menn komnir ef ekki má ræða með rökum hluti af því tagi sem við leggjum fyrst og fremst höfuðáherslu á, að þessar breytingar megi undir engum kringumstæðum verða til þess að veikja enn stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu? Staða Alþingis í þeim skilningi er fyrst og fremst mæld út frá réttindum minni hluta og stjórnarandstöðu hvers tíma. Þannig er það í þingræðinu. Lýðræðið snýst einkum og sér í lagi um að búa um og tryggja réttindi mismunandi hópa og minni hluta. Af meiri hlutanum sem með völdin fer þarf að sjálfsögðu ekki að hafa áhyggjur í þeim efnum.

Það er ekki að ástæðulausu sem þingsköpin geyma fjölmörg úrræði, fjölmargar reglur og takmarkanir sem eru ætlaðar til að tryggja vandaða og rækilega málsmeðferð og koma í veg fyrir að menn rúlli málum í gegn hraðfari, fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Það á alltaf að gefast góður tími til að gaumgæfa og rannsaka mál, ræða þau, koma öllum sjónarmiðum á framfæri og leyfa þeirri umræðu að bergmála út í þjóðfélagið af fundum sem hér eru haldnir samkvæmt ákvæðum í lögum og stjórnarskrá í heyranda hljóði. Reglur um ræðutíma og málfrelsi verða ekki aðskildar frá öðrum ákvæðum þingskapanna að þessu leyti. Það er hluti af einni heild sem eru þeir frestir sem eru innbyggðir í þingsköpin og þær varnir og þau réttindi sem einstakir þingmenn, minni hluti og þingið allt, eiga að hafa lögvarin í starfsreglum sínum.

Þess vegna eru þingsköp Alþingis landslög. Það er þetta heildarsamhengi sem við erum að tala um. Það verður ekki fram hjá því horft að réttindi til málflutnings hér eru hluti af því sem hefur áhrif á jafnvægið ef jafnvægi skyldi kalla hérna inni. Það er ósköp einfaldlega ekki á dagskrá af hálfu okkar sem stærsta flokksins í stjórnarandstöðunni nú að standa að breytingum ef við óttumst að þær verði frekar en hitt til að veikja frekar Alþingi sem er fyrir allt of veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er okkar megináhersla. Það er okkar meginpunktur og því er ekki að mínu mati þannig varið í hinum nýju hugmyndum um fundartíma og ræðutíma að þar sé ásættanlegu landi náð. Það er allt of langt gengið.

Fyrsta umræða er takmörkuð umtalsvert frá því sem nú er. Reglur gildandi þingskapa eru þannig að í umræðum um frumvörp hafa menn 20 mínútna og síðan 10 mínútna ræðutíma og það er sjálfstæður óskilyrtur réttur hvers einasta þingflokks eins oft og er óskað eftir að tvöfalda þann tíma í 40 og 20 mínútur. Strax við 1. umr. eru reglur þessa frumvarps mun takmarkaðri en þær eru að gildandi lögum, þ.e. 15 og 5 mínútur. Síðan er eins og áður hefur komið fram og allir vita ótakmarkaður tími við 2. og 3. umr. Minna má nú gagn gera en að sauma þetta niður eins og nú á að gera samkvæmt þessu frumvarpi, líka við 2. umr., meginefnisumræðu um öll stærstu mál. Ekki einu sinni fjárlagafrumvarpið er undanskilið þessum þröngu tímamörkum.

Þá munu menn sjálfsagt segja að forseti hafi heimildir í 12. gr. frumvarpsins til að rýmka ræðutíma — en forsetinn hefur þær heimildir og hann hefur einn vald á þeim. Hvernig er þetta með fundartímann sem okkur er sagt að eigi að koma á móti þessum miklu takmörkunum á ræðutíma? Það stendur að vísu í 1. gr. að almennt skuli fundir ekki standa lengur en til kl. 8 síðdegis. Svo bætist við að frá því megi þó víkja ef þingflokkar ná samkomulagi þar um. Gott og vel, ef allir þingflokkar ná samkomulagi um á þetta sjálfsagt að lesast — en svo segir: … eða ef þingið samþykkir, sbr. 67. gr. Í hvað er vísað þar? Það er verið að vísa í ákvæði þingskapanna um að einfaldur meiri hluti ráði. Það er ekki vísað í 79. gr. um afbrigði þar sem 2/3 þurfa að samþykkja. Og hvað segir svo? „Tillögu um lengri fundartíma getur forseti borið upp án nokkurs fyrirvara.“ Fimm mínútum fyrir átta á hverjum einasta fundi getur forsetinn, ef honum svo býður, borið fyrirvaralaust upp tillögu um að lengja fundinn og einfaldur meiri hluti ræður niðurstöðunni. Það er ekki þannig að stjórnarandstaðan hafi, ef í harðbakkann slær, mikið hald í þessu. Það skyldi þó ekki þurfa að athuga þessa hluti svolítið betur? Er alveg víst að allir þingmenn sem hafa tekið trú á þetta hafi skoðað þetta ofan í kjölinn? Ég er ekki viss um það. Ég hef heyrt menn hér á göngum tala um að nú verði þetta allt annað líf því að það verði aldrei fundir nema til átta nema einu sinni í viku, þá megi þeir vera til 12. Það er bara ekki þannig.

Í öðru lagi er það svoleiðis hvað þetta snertir að ekki stendur til samkvæmt þessu frumvarpi að hrófla við þröskuldinum til að veita afbrigði frá þingsköpunum almennt í hverju sem er. Það geta menn gert á hverjum tíma, stundum með einföldum meiri hluta varðandi fresti til framlagningar mála og annað í þeim dúr en síðan með 2/3 ef um bein afbrigði frá fundarsköpum að öðru leyti er að ræða. Hver er staðan á Alþingi Íslendinga núna? Hún er sú að ríkisstjórnin hefur meira en þessa 2/3 sem hún þarf til að veita sjálfri sér afbrigði í krafti meiri hluta síns. Stendur til að hækka þennan þröskuld í ljósi þessarar stöðu? Nei. Það er þriðja meginmálið sem við höfum lagt mikla áherslu á í þessum efnum. Þingsköpin eru einfaldlega nú í allt öðru samhengi en þau hafa eiginlega og sennilega nokkurn tímann verið áður, nema þá í einhvern mjög stuttan tíma, af því að nú er svo óvenjulega stór meiri hluti hér að hann getur veitt sjálfum sér afbrigði. Hvað þýðir það? Það þýðir að ákvæðinu um að ekki skuli líða minna en tveir sólarhringar frá því að mál kemur fram og þangað til það getur komið til umræðu er hægt að kippa burtu. Það þýðir að það er hægt að kippa burtu kröfunni um að það líði sólarhringur milli 1. og 2. umr., og 2. og 3. umr. Það er hægt að falla frá því að þingsköp skuli koma fram daginn áður en umræða fer fram um mál o.s.frv.

Sett í þetta samhengi sést að þetta þingskapalagafrumvarp býður upp á allt aðra hraðferð fyrir sterkan meiri hluta með mál sín í gegnum þingið en nokkurn tímann hefur áður verið hægt í sögu þingræðis á Íslandi. Það er himinn og haf á milli þeirra vinnubragða sem óvandaður meiri hluti gæti ástundað í skjóli svona þingskapalaga og sterks meiri hluta og þess sem var t.d. hér meðan Alþingi starfaði í tveimur málstofum. Þá þurfti hvert einasta frumvarp að fara í gegnum sex umræður í tveimur deildum og aftur til fyrri deildar ef því var breytt í hinni síðari. Það gat lent í því og endað í 7–8 umræðum og að lokum í sameinuðu þingi ef deildirnar urðu ekki samstiga. (GÁ: Þetta man enginn nema við.) Þá var minni hætta á að menn gerðu mistök eða færu illa með vald sitt hér í skjóli myrkurs. (Gripið fram í.) Ó, já, ætli það sé ekki almennt viðurkennt að mjög oft hafi mál haft gott af því að fara til seinni deildar og fá þar skoðun. Menn vita að menn höfðu ekkert ógaman af því í seinni deildinni að finna einhver mistök frá hinni fyrri og benda henni á þau. Mál gengu mjög oft aftur til fyrri nefndar með smálagfæringum frá síðari þingdeild.

Því er oft haldið fram að Alþingi Íslendinga sé að þessu leyti algerlega einstakt og ræðutími allt annar og takmarkaðri í öðrum þingum. Þá er rétt að menn hafi í huga hvernig aðstæður eru þar. Þar erum við t.d. að tala um þjóðþing annars staðar á Norðurlöndunum sem eru frá því að vera um 165 og 180 þingmenn á norska og danska þinginu og upp í 350 á því sænska. Þegar af þessum ástæðum þarf að fara varlega í svona samanburð.

Í öðru lagi er verkferli og undirbúningur mála með allt öðrum hætti yfirleitt í hinum þjóðþingunum.

Í þriðja lagi eru þingnefndir mun stærri og hafa upp að vissu marki sambærilegu hlutverki að gegna í umræðum um mál og pólitískan málflutning og salurinn hefur hér, þ.e. nefndir þar sem er kannski upp undir helmingur af fjölda þeirra sem hér sitja á þingi sem fundar fyrir opnum tjöldum með áheyrendur. Þar fer stór hluti hins pólitíska málflutnings og vinnunnar fram. Þar er stór hluti af málfrelsi þingmanna tryggður, málfrelsi þeirra sem sinna viðkomandi málaflokki fyrir sína flokka. Svona mætti halda lengi áfram ef menn hafa raunverulega áhuga á því að bera saman stöðu Alþingis Íslendinga og annarra þinga. Ég þykist vera alveg þokkalega fær um þann samanburð, ég hef setið í Norðurlandaráði í yfir 10 ár og þekki nokkuð vel til pólitískra starfa og þingstarfa annars staðar á Norðurlöndunum.

Þá skulum við ekki gleyma því að annars staðar á Norðurlöndunum koma forustumenn í þingstörfunum iðulega jöfnum höndum úr stjórnarandstöðu og meiri hluta. Núna sjáum við t.d. að danska þingið er að velja sér forustumenn í nefndir og alþjóðanefndir. Hver er formaður dönsku sendinefndarinnar til Norðurlandaráðs? Það er stjórnarandstæðingur, og þannig mætti lengi áfram telja. Forsetar þjóðþinganna annars staðar á Norðurlöndunum koma iðulega úr röðum stjórnarandstöðu, sérstaklega þegar minnihlutastjórnir sitja og það þarf að semja í þinginu um skiptingu trúnaðarstarfa þar. Það var á köflum þannig að það var frekar regla en hitt að forsetar kæmu frá stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Þá er ólíku saman að jafna þeirri aðstöðu sem menn hafa til að stjórna verklagi og reyna að ná samstöðu um hlutina.

Hvernig er staðan á Alþingi Íslendinga, herra forseti? Hverju kynntumst við núna í vor sem leið af viðhorfum hins nýja meiri hluta? Jú, það er þannig að í fyrsta skipti held ég bara nokkru sinni er engin einasta trúnaðarstaða af neinu tagi í höndum stjórnarandstöðunnar. Fyrsti forseti þingsins og 1. varaforseti koma úr stjórnarliðinu. Allir formenn þingnefnda og allir varaformenn þingnefnda koma úr þessum lýðræðiselskandi meiri hluta. Allir formenn og varaformenn alþjóðadeilda koma frá meiri hlutanum. Það var þó eitt undantekningartilvik ef ég man rétt á síðasta kjörtímabili, hv. þm. Össur Skarphéðinsson naut þess einstaka trúnaðar þáverandi ríkisstjórnar að vera formaður sendinefndar Íslands hjá NATO — og verði honum að góðu. En það var þá ein undantekning sem sannaði regluna en hún er ekki til í dag, engin. Ekki í einu einasta tilviki sá meiri hlutinn ástæðu til að dreifa völdum, hvað þá auðvitað sem maður er náttúrlega alveg hættur að ætlast til að líta eitthvað til reynslu manna eða þess hvað þeir gætu kannski lagt af mörkum í þágu þingsins og þjóðarinnar, hvort sem væri í störfum innan lands eða utan. Nei, það skiptir engu máli þó að menn hafi fengist eitthvað við slíka hluti, hafi á þeim þekkingu og hafi reynslu fram að færa. Ef þeir tilheyra ekki meiri hlutanum skulu þeir hvergi vera á blaði. Eru menn eitthvað hissa á því þó að við kaupum það með dálitlum fyrirvörum að hugarfarið sé svona dásamlegt á bak við þetta mál og lýðræðisástin eins mikil og menn láta í veðri vaka? Nei, það er ekki þannig.

Mér finnst mikil afturför að ekki skuli reynt með einhverjum hætti að dreifa öðruvísi forustustörfum í þinginu. Það er dapurlegt að ekki vottar fyrir breytingu þó að Samfylkingin hafi nú tekið sæti í ríkisstjórn, flokkur sem stundum hefur talið sig umfram aðra flokka eiga eignarrétt á hugtakinu lýðræði og viljað ástunda samræðustjórnmál og guð má nú vita hvað. Þess sér alltént ekki stað enn þá. Við höfum núna dæmi um það að þessi ríkisstjórn og meiri hluti hennar hikar ekki við að beita hér afli sínu eins og var sýnt strax í vor þegar menn tóku umdeild frumvörp um breytingar á Stjórnarráðinu, þingsköpum og fleiru á dagskrá með afbrigðum sem þeir veittu sér sjálfir í krafti hins aukna þingmeirihluta. Þar er komið að öðrum mjög afgerandi skurðpunkti þessa máls. Ef menn væru í ljósi aðstæðna tilbúnir til að hækka þröskuldinn fyrir afbrigðum eru menn að slá skjaldborg um þær varnir sem eru innbyggðar í þingsköpin að öðru leyti, ekki bara ræðutíma heldur líka fresti milli umræðna og annað í þeim dúr.

Veruleikinn er sá að völdum er dreift með þeim hætti sem raun ber vitni og það er ekki verið að bjóða upp á breytingu á því. Við spurðum: Eru menn þá tilbúnir til að festa í sessi ákvæði sem tryggja öðruvísi valdajafnvægi í þinginu í tengslum við breytingarnar? Ekki í einu einasta tilviki hefur verið opnað á eitt eða neitt í þeim efnum. Það kom á daginn að það var ræðutíminn sem leiðangurinn var allan tímann gerður út eftir, það er nefnilega mergurinn málsins, að skerða stöðu stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst að því leyti að hún legði frá sér, eða öllu heldur kannski seldi frá sér í eitt skipti fyrir öll, það vopn sem er auðvitað bara eitt í forðabúri hennar en skiptir miklu máli og hefur margoft í þingsögunni sannað sig í þeim efnum.

Ég er ekki uppnæmur fyrir því þó að menn komi hér og ætli að slá sér upp á því að tala um að einhverjir flytji langar og leiðinlegar ræður, eins og hv. þm. Guðna Ágústssyni frá Brúnastöðum virðist alveg sérstaklega hugleikið. Svo talar hann sjálfur að vísu í hartnær 40 mínútur. Það er að sjálfsögðu ekki markmið og hefur aldrei verið að flytja langar ræðu lengdar þeirra vegna, en stundum hefur það skipt miklu máli að þessu vopni væri hægt að beita þannig að ríkisstjórn kæmist ekki upp með að troða hér hlutunum í gegn á örfáum sólarhringum. Það má spyrja hvort það hefði verið til góðs að þessi nýju þingsköp hefðu gilt þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom hér inn með fjölmiðlafrumvörpin sín. Ætli þjóðin upplifi það beinlínis þannig að það hefði verið í þágu lýðræðis og þingræðis við þær aðstæður?

Ætli ekki hafi verið allt í lagi að menn höfðu rétt til að ræða dálítið um byggingu Kárahnjúkavirkjunar eða öryrkjadóminn þegar hann féll á sínum tíma? Var það til tjóns fyrir lýðræðið í landinu? Nei. Var ekki bara í góðu lagi að sameinuð stjórnarandstaðan gat á síðasta kjörtímabili stöðvað einkavæðingu á vatni, komið gildistöku þess frumvarps aftur fyrir kosningar sem nú hefur leitt til þess að málið er komið í heildarendurskoðun?

Gleymum þá ekki því að staða stjórnarandstöðunnar hér og möguleikar hennar til að láta til sín taka og þvinga menn til að hlusta á sjónarmið hennar skipta oft sköpum í því að fá málum breytt og fá hluti lagfærða sem umdeildir eru. Það er misskilningur að þetta snúist um einhverjar málþófsorrustur sem annaðhvort vinnist eða tapist í þeim skilningi að málin falli dauð eða fari í gegn. Það er ekki þannig, þetta snýst um að hér séu einhver sanngjörn hlutföll og aðstæður séu þannig að það sé hægt að færa fram málflutning og sjónarmið og tala fyrir þeim málstað sem menn hafa tekið að sér að verja á þingi.

Það er ekki tjáningarfrelsi, málfrelsi, þingmannanna í raun sem er verið að takmarka heldur þeirra sem kusu þá. Við erum ekki bara hér sjálfra okkar vegna til að halda hér ræður eða reyna að hafa áhrif, við erum fulltrúar þeirra sem sendu okkur hingað. Þar er uppspretta valdsins, hjá þeim þúsundum og tugum þúsunda kjósenda sem standa t.d. að baki þeim þingflokki sem hér andæfir sem þetta mál beinist að miklu meira en okkur.

Við hefðum getað hugsað okkur og höfðum gert það alveg ljóst að við gætum að sjálfsögðu sætt okkur við og vildum m.a. gjarnan gera breytingar á ræðutíma hér, setja um hann skýrari ramma í þágu þess að fundarhald gæti orðið skipulegra, reglubundnara, fyrirsjáanlegra og vinnustaðurinn faglegri og fjölskylduvænni að þessu leyti. Við buðum upp á það að við 3. umr. giltu sambærilegar takmarkanir og gilda við 1. umr. eða þess vegna þær sem töflurnar hér fela í sér. En við sögðum: Gagnvart 2. umr., meginefnisumræðu um frumvörp, er gengið allt of langt. Þar verður að vera almennt rýmri tími til að ræða hlutina, a.m.k. þegar stórmál eiga í hlut, og það verða að vera einhver úrræði til þess að fá ótímabundna umræðu um allra stærstu átakamál eða flóknustu og viðamestu mál hvers tíma.

Við segjum líka: Fjárlagafrumvarp, breytingar á stjórnarskrá, jafnvel nokkur önnur stærstu mál hvers tíma eins og meginskýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál eiga að hafa mun meira svigrúm. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi, að því leyti er það að mínu mati alveg ótrúlega einfeldningslega fram sett vegna þess að ég hygg að þegar menn hugsa málin sjái þeir að það er engin ástæða til þess, það er beinlínis ljótur svipur á því að þingmenn almennt geti ekki talað nema í 15 mínútur einu sinni og síðan vesælar 5 mínútur um jafnvel stærstu mál hvers þings — eins og fjárlagafrumvarpið.

Væri þetta svona úr garði gert og aðbúnaður og starfsaðstæður þingmanna efldar jafnframt og þá þannig að það sannarlega væri í þágu stjórnarandstöðunnar en ekki einhverra fljótandi mannaráðninga inn á nefndasvið sem ekki einu sinni eru sérstaklega eyrnamerktar stjórnarandstöðunni eða henni ætlaðar, væri þingið t.d. styrkt með rannsóknardeildum, hagdeild sem styddi við fjárlaganefnd, mannréttindadeild, öflugra starfi á bak við utanríkismálanefnd, væri það vissulega mikið framfaraskref. En það er nú ekki verið að gera stóra hluti í þeim efnum, það er aldeilis ekki verið að því.

Hvað er það tvennt sem er verið að gera fyrir utan að reyna að standa loksins við gamla loforðið frá kjördæmabreytingunni 1999 um aðstoðarmenn fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna? Jú, það er ráðning þriggja manna á nefndasvið og aðstoðarmenn fyrir formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Það er allt og sumt sem þarna er í hendi. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst algerlega fráleitt að reyna að hengja á þessa þingskapalagabreytingu hlut eins og þann að ætla nú loksins að reyna að standa við svikin loforð um að þingmenn hinna stóru landsbyggðarkjördæma fái aðstoð, sem forsætisráðherra þess tíma ábyrgðist að staðið yrði við. Það á ekki að vera á kostnað núverandi stjórnarandstöðu, að hún þurfi að sæta afarkostum að öðru leyti ef hún metur það svo, eins og við gerum hér í sambandi við ræðutímann, að kaupa efndir slíkra hluta.

Ef völdum yrði dreift hér, ef það væri í þessu frumvarpi að leitast skyldi við að ná fram samstöðu um hlutdeild minni hlutans á hverjum tíma varðandi forustu þingnefnda og alþjóðanefnda — og helst auðvitað sjálfan forsetann en látum nú vera þótt það fengist ekki — væri auðvitað ólíku saman að jafna. Þó að það væri ekki nema það að meiri hlutinn t.d. sýndi þann lit að horfa ekki í styrkleikahlutföllin þegar kosið er í forsætisnefnd og leyfa minni hlutanum að eiga 1. varaforseta. En það var til of mikils mælst, það var ekki hugsun á því, nei, það var vissara að meiri hlutinn ætti bæði fyrsta og annan forseta. Ef þröskuldurinn yrði hækkaður í, segjum, 3/4 þannig að menn einfaldlega gripu strax inn í þegar þeir stæðu frammi fyrir því að þær afbrigðilegu aðstæður hefðu komið upp að 2/3 þröskuldurinn væri of lágur, næði ekki því markmiði sínu og meiri hluti hvers tíma þyrfti samkomulag við stjórnarandstöðuna til að veita afbrigði frá þingsköpum — auðvitað er það hugsunin. Það er engin meining fyrir auknum meiri hluta nema sú að menn vilja að breiðari samstöðu þátttakendanna þurfi hér um afbrigðin. Það þýðir á mannamáli að stjórnarandstaðan eða minni hlutinn sé því sammála, felli sig við það.

Við munum standa vörð, eftir því sem við framast getum, um það sem við teljum mikilvægt, málfrelsi og rétt þingmanna sem hluta af sterkri stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, það mikilvæga hlutverk Alþingis að það sé opinn vettvangur til skoðanaskipta í heyranda hljóði um þjóðmál, jafnt stór sem smá. Við munum reyna allt sem við getum til að ekki verði gengið þannig frá málum að ríkisstjórn og meiri hluti hennar geti rúllað hér í gegn á örfáum klukkutímum, ef svo ber undir, með stór og umdeild mál. Það er því miður það sem er verið að opna fyrir með hinum stífu takmörkunum um ræðutíma, með því að meiri hlutinn getur hvenær sem er skammtað sér með einföldum meiri hluta aukinn og lengri fundartíma þannig að viðmiðanirnar hér um fundi til átta á kvöldin eru að sjálfsögðu eingöngu viðmiðanir.

Hvernig vill það fara þegar ríkisstjórn er komin með puttana í málið rétt fyrir þinglok, fyrir jól og aftur á vorin, og leggur ofuráherslu á að fá málin sín í gegn? Hvað verður þá um vinnureglur og hefðir ef þær eru ekki lögbundnar og lögvarðar? Hvernig fer þá með réttinn til að senda mál út til umsagnar? Jú, því verður sleppt. Höfum við ekki upplifað að þá segi meiri hlutinn: Nei það er ekki tími til þess, þetta verður að fá afgreiðslu fyrir jól? Hvað verður umfjöllunin í þingnefndinni löng? Jú, kannski nokkrir klukkutímar. Það hefur endurtekið gerst og mun gerast áfram ef ég veit rétt og reynist sannspár að menn munu segja: Ja, nú er bara staðan svona, nauðsyn brýtur lög — ég segi nú ekki lög en alla vega hefðir og venjur — og við höfum ekki tíma til að láta málin fá skoðun. Við beitum afbrigðum til að rúlla þeim hérna í gegn. Ætli menn hafi ekki lent í því einhvern tíma að hugarfarið hafi verið nákvæmlega þannig?

Þess vegna er mikið alvörumál að búa hluti ekki út þannig. Þó að þeim sé pakkað inn í fallegar umbúðir og þetta eigi allt að vera voðalega fínt og gott skulum við huga vel að því áður en við opnum hér upp leiðir fyrir enn frekari hraðafgreiðslu mála gegnum þingið en þó hefur verið hægt samkvæmt gildandi þingsköpum. Þar held ég að menn ættu að gæta sín afar vel og mikið.

Það er sannfæring mín, virðulegur forseti, að hverjar sem lyktir þessa máls verða muni sannast að það er bara til ein leið til að tryggja farsæla verkstjórn á þessum stað og til þess að hlutir gangi skikkanlega fyrir sig, það er leið sæmilegrar samstöðu um vinnubrögðin hér, leið friðar og viðleitni til að sýna sanngirni í samskiptum. Og því spái ég hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni að honum muni lærast þetta, þ.e. ef honum endist aldur á embættisstóli sem forseti. Það er ekki hægt að stjórna Alþingi með farsælum hætti í grenjandi stríði og ágreiningi við hluta þingmanna. Það verður að leita sæmilegrar samstöðu og sýna sanngirni í þeim samskiptum. Hæstv. forseti byrjar illa í þeim efnum, það verð ég að segja. Það er mér engin gleði að segja þessi orð en þau eru sannfæring mín og ég vona því að hæstv. forseti hugsi sinn gang og bjóði upp á það — og þá meina ég í alvöru — að taka þetta mál upp til efnislegrar skoðunar og breytinga á því svo að maður tali nú ekki um að hverfa frá þeim vinnubrögðum sem leiddu til þess að málið kom fram með þeim hætti sem raun bar vitni.

Ég held að virðingu Alþingis verði best borgið og hver og einn þingmaður leggi best sitt af mörkum í þeim efnum með því að vinna vel, með því að mæta hérna, með því að gera skyldu sína í þeim efnum. Það hef ég a.m.k. reynt að gera í gegnum tíðina, ég vona að enginn reyni að halda öðru fram. Ég tel mig hafa alveg bærilega reynslu af því hvernig þessir hlutir ganga vel fyrir sig, ég hef upplifað hér bæði erfiða tíma og leiðinlega þegar mikill ágreiningur og áflog voru og ég hef líka upplifað aðra og skemmtilegri tíma þegar hlutirnir voru unnir í meiri samstöðu og það var meiri gagnkvæmur vilji og marghliða vilji allra helstu aðila að láta hlutina ganga sæmilega liðugt fyrir sig. Þá vinnst þinginu vel og þá er mun skemmtilegra að starfa hér en á þeim tímum þegar allt nötrar stafnanna á milli í ágreiningi.

Veruleikinn er sá að Alþingi hefur þrátt fyrir allt og óháð breytingum á þingsköpum þróast heilmikið í vinnubrögðum á ýmsa lund á síðustu árum þó að þar hafi vissulega því miður orðið bakslag að sumu leyti. Það er t.d. staðreynd sem ekki verður á móti mælt að vinnutími hefur tekið miklum breytingum. Það var löngu tímabært að lengja starfstíma Alþingis og lotuskipta honum, það er skref í rétta átt en mætti ganga lengra í því að okkar mati og funda lengra inn á sumarið ef svo bæri undir. Veruleikinn er líka sá að hinar löngu ræður, kvöld- og næturfundir, sem menn virðast óttast svona óskaplega heyra að mestu leyti sögunni til nú þegar. Það er svipur hjá sjón, gerist örsjaldan (StB: Og er það ekki til bóta?) borið saman við það sem áður var. Já, það er til bóta en það gerist með þróun án nokkurrar þvingunar og án þess að tekinn sé af mönnum réttur sem er þrátt fyrir allt mikilvægur og miðlægur. Íslenska stjórnarskráin ætti auðvitað að vernda hann rétt eins og finnska stjórnarskráin verndar rétt hvers einasta þingmanns, 200 talsins, á finnska þinginu til að tjá skoðun sína og taka þátt í umræðum um mál á öllum stigum umfjöllunar og afgreiðslu um þau. Þannig er frá málum gengið í því ágæta lýðræðisríki og lýðveldi Finnlandi sem við getum nú gjarnan borið okkur saman við því að við erum, eitt Norðurlandanna fyrir utan Finnland, lýðveldi með þannig stjórnskipun. Margt er gott í hinni nýju finnsku stjórnarskrá sem við gætum tekið mið af.

Virðulegi forseti. Fyrir hönd Alþingis og vegna þess vona ég að menn komist út úr ógöngum sínum og ófærum í þessu máli og nái farsælli lendingu. Við erum, eins og hér hefur komið fram, tilbúin til að leggja okkar af mörkum í þeim efnum og höfum allan tímann verið sé það í boði að ræða við okkur á þeim forsendum sem eru aðgengilegar, þ.e. að okkur sé ekki stillt upp frammi fyrir óaðgengilegum úrslitakostum fyrir fram. Eigi að halda því áfram er það tilgangslaust en verði boðið upp á eiginlegar umræður um málið erum við sannarlega (Forseti hringir.) tilbúin til þeirra.