135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[22:48]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Farið hafa fram hinar ágætustu umræður enda var samið um umræðuna á fundi okkar þingflokksformanna í kvöld. Við sjáum því fram á að við munum ljúka umræðu um þetta ágæta frumvarp samkvæmt samningum sem gerðir voru á milli þingflokksformanna. (Gripið fram í: Og forseta.) Og forseta að sjálfsögðu, undir góðri verkstjórn og leiðsögn forseta.

Það er staðföst skoðun mín að frumvarpið sem við fjöllum nú um, um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sé mikið framfaraskref og góður áfangi á þeirri leið að styrkja stöðu Alþingis. Eins og menn sjá, fylgir frumvarpinu góð greinargerð þar sem farið er yfir markmiðin sem við flutningsmenn settum okkur með samningu frumvarpsins. Einnig er gerð grein fyrir þeim ráðstöfunum sem áform er um að grípa til í þeim tilgangi að styrkja stöðu Alþingis enn frekar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er eitt af þeim góðu markmiðum sem fylgja frumvarpinu.

Auðvitað eru það mikil vonbrigði að hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, skyldi ekki vera flutningsmaður með okkur á frumvarpinu. Ég vil hér með hvetja hv. þingmenn vinstri grænna til að endurskoða afstöðu sína við vinnslu málsins í þingnefndinni því að ég held að til mikils sé að vinna að ná samstöðu um niðurstöðuna sem við náum um frumvarpið.

Frumvarpið er afrakstur vinnu undir forustu hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson tók framan af góðan þátt í þeirri vinnu. Hins vegar er ljóst að enn þá hafa þingmenn VG ekki fallist á rök okkar hinna um nauðsyn lýðræðislegra umræðna um þingmál og þar með betra skipulagi á ræðutíma. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmenn VG fallist á sjónarmið okkar þegar þeir hafa skoðað rökin betur.

Helsta markmið frumvarpsins er að bæta lagasetningu og það eigum við alltaf að hafa í huga. Það á einnig að gera umræður markvissari, auka skoðanaskipti í þingsalnum og efla eftirlitshlutverk þingsins. Eins er markmið með frumvarpinu að stuðla að því að gera vinnustaðinn Alþingi skipulagðari og fjölskylduvænni. Allt er það gert til að styrkja Alþingi í því hlutverki sínu að vera sá lýðræðislegi vettvangur sem allt þjóðskipulag okkar byggist á. Það skulum við hafa í huga. Það er skylda okkar að standa vörð um Alþingi sem vettvang þar sem lýðræðisleg skoðanaskipti geta farið fram. Í þingsalnum er því mikil nauðsyn á hægt sé að skipuleggja umræður með þeim hætti að sem flestir þingmenn hafi möguleika á að koma að umræðum.

Í þessu skyni eru gerðar allmiklar breytingar á ræðutíma þingmanna og ráðherra samkvæmt þeim tillögum sem eru í frumvarpinu og er það meginmarkmið þeirra að gera umræðuna markvissari og ef til vill fjörugri en nú er. Markmiðið er alls ekki að setja takmarkanir á málfrelsi þingmanna né hindra að hver og einn þingmaður geti með eðlilegum hætti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum við meðferð þingmála, heldur þvert á móti. Meginreglan við 2. umr. um lagafrumvörp verður sú, ef breytingarnar verða að veruleika, að þingmenn og ráðherrar mega tala eins oft og þurfa þykir í stað þess eins og nú er að menn tali eins lengi og þeim þyki hæfa en þá eingöngu tvisvar sinnum.

Hæstv. forseti. Eins og málum hefur verið háttað í þingsölum við umræður um meiri háttar mál hefur komið fyrir að stjórnarþingmenn, sérstaklega, hafa ekki fengið að taka þátt í umræðum um þingmál. (Gripið fram í.) Það er staðreynd. (Gripið fram í.) Ástæðan er sú að við þær aðstæður þegar koma hefur þurft málum áfram, eins og við orðum það gjarnan, oft umdeildum málum, hefur stjórnarandstaðan tekið upp allan tímann sem við hæfi er að láta umræðuna standa. Auðvitað hafa allir þingmenn einhver sjónarmið sem gild eru í umræðunni og sum mundu jafnvel stuðla að betri og vandaðri lagasetningu. Þekkt er að stjórnarandstaðan setji á málþóf í fullkomnum samkomulagsmálum. Það þekkjum við, sérstaklega frá fyrri tíð. Hvers vegna er það gert? Það er gert til að hindra að umdeild mál komist á dagskrá. Það er nú lýðræðið sem gildir í því.

Hæstv. forseti. Tíminn er takmörkuð auðlind. Þegar einn tekur of mikinn tíma er verið að ganga á tíma annarra til þess að koma skoðunum á framfæri og færa fyrir þeim rök, gleymum því ekki. Oft hefur það nefnilega verið þannig að okkur stjórnarþingmönnum hefur ekki veist tími til þess að koma fram með skoðanir okkar og færa fyrir þeim rök.

Við eigum að hafa nokkurt jafnvægi á þessu og jafnræði með þingmönnum, alla vega svo að þegar þingmönnum liggur eitthvað á hjarta í þingmálum hafi allir þingmenn tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er algjört lágmark og ég vona svo sannarlega að það takist með þeim hugmyndum sem eru í því ágæta frumvarpi sem við ræðum nú.

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega benda á 15. gr. sem ég er afar sátt við því að þar eru tillögur sem gera ráð fyrir að þegar samið er um takmarkaðan ræðutíma milli þingflokksformanna, komist meira jafnræði á hvernig ræðutíma er skipt milli þingflokka. Gert er ráð fyrir að samið sé um að helmingur ræðutíma skiptist jafnt á milli þingflokka en aftur á móti að hálfum umræðutímanum verði skipt í hlutfalli við þingstyrk þingflokkanna.

Ég fagna því ákvæði sérstaklega. Ekki þarf að taka fram að upp hefur komið sérkennileg staða þegar fjögurra manna þingflokkur hefur haft sama tíma og 25 manna þingflokkur í takmörkuðum umræðum. Það er afar sérkennileg staða. Eins hafði tveggja manna þingflokkur sama ræðutíma og allur þingflokkur okkar sjálfstæðismanna sem þá var 26 manna á kjörtímabilinu 1999–2003. Það gilti í eldhúsdagsumræðum, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra og í utandagskrárumræðum. Skyldi nú engan furða þó að nokkuð væri farið að reyna á þolinmæði sumra þingmanna. Ég held að menn hljóti að skilja það. Ég vil því sérstaklega fagna því, það er þó alla vega skref í rétta átt að hálfur umræðutíminn skiptist í hlutfalli við þingstyrk þingflokkanna.

Hæstv. forseti. Við vitum að umræður á Alþingi eiga nú mun greiðari leið til landsmanna allra eins og fram hefur komið og hefur þar orðið mikil breyting á skömmum tíma. Umræðum er m.a. sjónvarpað og þær sendar út á netinu. Hægt er að nálgast allar umræður í rituðum texta á netinu og því er auðvitað líka nauðsynlegt að Alþingi bregðist við breyttum tíma með því að laga umræðuformið að nýjum miðlum, ekki síst veraldarvefnum. Tillögur um breyttan ræðutíma miða að því að betur sé hægt að fá fram mismunandi sjónarmið þingflokka og þingmanna til mála. Þegar það berst út í þjóðfélagið með svo skjótum hætti fáum við viðbrögð almennings með mun skjótvirkari hætti en áður var.

Hæstv. forseti. Ég nefndi að mikil nauðsyn væri á því að koma betra skipulagi á þingstörfin. Stór hluti starfa þingmanna eru ýmiss konar fundir og viðtöl utan þings. Sífellt eru gerðar meiri og ríkari kröfur til þingmanna að mæta á ráðstefnur og fundi sem aðrir skipuleggja. Það er augljóslega nauðsyn á að þingmenn geti sinnt þeim skyldum og hafi svigrúm til að kynna sér mál og málefni sem brenna á fólki í samfélaginu. Oft hefur það reynst þingmönnum erfitt vegna þess að skyndilega þarf að breyta skipulagi á þingstörfum. Við sem hér erum könnumst öll við að vera búin að tilkynna okkur á ráðstefnu, fundi eða aðrar uppákomur en þurfa svo að breyta öllum okkar áformum með stuttum fyrirvara vegna þess að skipulagi á þingstörfum hefur verið breytt. Auðvitað skilur fólk almennt ekki, sem við skipuleggjum fundi með, að ekki sé hægt að hafa málum betur fyrirkomið hér.

Ég nefndi einn ókost tengdan því hversu erfitt er að skipuleggja þingstörfin en þeir eru auðvitað ótal fleiri. Með breyttum áherslum í seinni tíð á fjölskyldumál hefur verið nefnt hversu erfitt er fyrir fjölskyldur þingmanna, og ekki síst starfsmanna þingsins, að búa við að geta sjaldan treyst á skipulag vinnutíma á Alþingi og ég tek undir þau sjónarmið. Það er alveg fullgilt sjónarmið inn í umræðuna. Það eru þó ekki eingöngu þingmenn og starfsmenn sem eru þolendur þess ástands, það eru líka fjölskyldur þeirra.

Í vinnu við endurskoðun þingskapalaganna komu fram sjónarmið sem eiga sannarlega rétt á sér, að starfsaðstæður þingmanna væru ekki fullnægjandi. Það er því mikil nauðsyn á breytingu ef þingmenn eiga að geta sinnt skyldum sínum, m.a. hvað eftirlitsskyldu varðar, og sinna auknum kröfum um alþjóðlegt samstarf. Í greinargerð með frumvarpinu eru því upplýsingar um breytingar sem áætlað er að gera til að koma til móts við þau sjónarmið.

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, miðað við þær umræður sem farið hafa fram, að áformin um að styrkja þingið, eins og fram kemur í greinargerðinni, eru fullkomlega eðlileg. Mér hafa ekki þótt við hæfi þeir orðaleppar sem fylgt hafa að það skyldi vera gert í samhengi við þingskapafrumvarpið því að fullkomlega eðlilegt er að gera það með þessum hætti. Markmið frumvarpsins í heild er að styrkja og efla þingið og þess vegna er eðlilegt að áformin komi hér fram.

Þau eru í fyrsta lagi að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefnda. Í öðru lagi að formenn stjórnarandstöðuflokka fái aðstoðarmenn. Í þriðja lagi að auka alþjóðasamstarf þingmanna þannig að þingmenn geti fylgst með og fengið aukin tækifæri til að fylgjast með hinni vinsælu Evrópuumræðu á þeim vettvangi þar sem hún fer fram. Þeir gætu jafnvel hitt systurflokka í Evrópuþinginu og tekið þar þátt í umræðum um mál sem auðvitað hafa með einum eða öðrum hætti áhrif á okkur. Í fjórða lagi að bæta aðstoð við þingflokka og í fimmta lagi að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur og Suðurkjördæma fái aukna aðstoð, þ.e. aðstoðarmenn í kjördæmum.

Sagan á bak við það ákvæði er sú að í tengslum við kjördæmabreytinguna 1999 var rætt um að þingmenn Norðaustur- og Suðurkjördæma fengju sérstaka aðstoðarmenn og er það gert með hliðsjón af því hversu stór kjördæmin eru að flatarmáli og erfið yfirferðar af þeim sökum. Mjög áhugavert er fyrir þingmenn Reykvíkinga að skoða aðstöðuna sem þingmenn landsbyggðarkjördæmanna búa við. Ég trúi því að þegar þeir skoða málin vel, hafi þeir fullan skilning á því. Ég veit að það mun væntanlega koma fram í ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar á eftir.

Þegar ákvæðið kom fram árið 1999 var niðurstaðan sú að stjórnmálaflokkarnir sjálfir fengju fé til ráðstöfunar í því skyni að styðja við þingmenn landsbyggðarkjördæmanna en reynslan hefur orðið sú að fjármunirnir hafa hjá flestum flokkum farið í almennan rekstur flokkanna en ekki verið nýttur í þeim tilgangi að aðstoða þingmennina.

Landsbyggðarþingmenn þurfa að yfirvinna miklar landfræðilegar hindranir til að geta verið í eðlilegum samskiptum við kjósendur sína, við sveitarstjórnarmenn, og þau samskipti fara mjög vaxandi, enda hefur sveitarstjórnarstigið eflst og styrkst með árunum. Þingmenn þurfa einnig að hitta fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka og hagsmunaaðila í kjördæmum sínum en vegna landfræðilegra aðstæðna getur reynst mjög erfitt að skipuleggja slíkt starf.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum þakka hæstv. forseta Sturlu Böðvarssyni fyrir staðfestuna við að leiða vinnuna við frumvarpssmíðina. Ljóst er að við sjálfstæðismenn hefðum viljað hafa ýmislegt í frumvarpinu með öðrum hætti, m.a. ræðutímann. Um þennan texta náðist þó samstaða og því stöndum við auðvitað heils hugar að frumvarpinu.

Það er von þingflokks sjálfstæðismanna að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi, ég legg áherslu á að það gerist á þessu þingi og trúi því að það verði. Það er einnig trú okkar að þær breytingar sem frumvarpið boðar muni verða til góðs fyrir löggjafarstarfið í landinu.