135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:35]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hvet hv. þm. Jón Magnússon til að kynna sér betur þau sjónarmið sem liggja að baki því að talið var rétt að í frumvarpinu væru uppfyllt áform sem menn höfðu uppi við breytingar á kjördæmaskipun árið 1999, sem tengjast því að þingmenn í kjördæmum sem væru stór að flatarmáli ættu hugsanlega við tæknilega örðugleika að stríða við að yfirvinna það stóra flatarmál. Hér er gert ráð fyrir einum þriðja stöðugildis í að aðstoða þingmenn í þeirri stöðu og finnst mér ekki of mikið í lagt. Þingmenn landsbyggðarkjördæma vinna vissulega að lagasetningu fyrir alla landsmenn, allt landið eins og hv. þingmaður nefndi, en þeir þurfa engu að síður að yfirvinna vissar tæknilegar hindranir til þess að geta gegnt skyldum í kjördæmi sínu. Það á jafnt við þingmenn höfuðborgarsvæðisins og þingmenn landsbyggðarinnar að ákveðnum skyldum þarf að sinna í kjördæminu.

Hv. þingmaður hlýtur að sjá að erfiðara er fyrir þingmann í víðfeðmu kjördæmi — t.d. í kjördæmi sem nær frá Siglufirði út á Langanes, suður á Djúpavog, eða í kjördæmi sem nær frá Akranesi á Patreksfjörð, Bolungarvík, Trékyllisvík, Skagaströnd, Fljótin — að komast á milli staða og skipuleggja störf sín í kjördæminu. Því er talin ástæða til að aðstoða þingmenn úr slíkum kjördæmum umfram þá þingmenn sem eru á höfuðborgarsvæðinu.