135. löggjafarþing — 35. fundur,  4. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur að mörgu leyti verið ágæt og margt athyglisvert hefur komið fram. Ég kveð mér hljóðs í andsvari við hæstv. forseta til að fullvissa hann um að hinni fornu stjórnunaraðferð Rómverja, að deila og drottna, verður ekki beitt á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Við stöndum algjörlega einhuga í málflutningi okkar um þetta þingskapafrumvarp og höfum gert alla tíð. Við höfum farið mjög rækilega yfir þessi mál í okkar hópi og eigum eftir að gera enn. Sannast sagna, þó að við höfum lagt okkur í líma, og ég hef gert það, að sjá líka hinar jákvæðu hliðar á frumvarpinu, þá, eftir því sem ég skoða málin betur, leynast þar greinar sem eru afar varhugaverðar og hafa í reynd ekki komið til umfjöllunar hér í kvöld. Ég nefni 15. gr. laganna sem takmarkar rétt þingmanna, takmarkar málfrelsi og tengir málfrelsið stærð þingflokka.

Ég nefni þetta sem dæmi um málefni sem á eftir að taka til gagngerrar umræðu þegar þetta frumvarp er annars vegar. En ég vildi sannfæra hæstv. forseta um að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs talar einum rómi í þessu máli.