135. löggjafarþing — 35. fundur,  4. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að ýmsu er að hyggja þegar þessi mál eru annars vegar, málfrelsi og þá ekki síður jafnræði á milli sjónarmiða vegna þess að í þinginu takast á ólíkir straumar og mismunandi sjónarmið.

Ég vek athygli á því að í mestu hitamálum undangenginna ára hefur tiltekinn stjórnmálaflokkur, sem heitir Vinstri hreyfingin – grænt framboð, staðið vaktina öðrum flokkum fremur. Ég nefni t.d. Kárahnjúka. Ef málfrelsið hefði verið bundið við stærð þingflokka er ég ansi hræddur um að umræðan hefði orðið á annan veg en hún raunverulega varð. Þetta er einn þáttur sem þarf að hyggja að en ég geri mér grein fyrir að flokki hæstv. forseta þingsins, Sjálfstæðisflokknum, hefur alla tíða verið umhugað um að skerða málfrelsi smærri flokka hér á þingi, (Gripið fram í: Þetta er nú ekki rétt.) þannig að það er ekkert nýtt sem hér er uppi. (Gripið fram í.)

Ég ítreka að við umræðuna hefur af hálfu flestra sem til máls hafa tekið komið fram vilji til sátta en ég verð að lýsa hryggð minni yfir lokaorðum hæstv. forseta þingsins. Hann virðist vilja leggja sig í líma að deila og drottna með því að gefa einhverjar afareinkunnir þeim manni sem sennilega þekkir best til þingskapa þeirra sem sitja nú á þingi, sem er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vísa slíkum einkunnagjöfum algerlega á bug og út í hafsauga.

Að lokum vil ég ítreka vilja okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til þess að stuðla að farsælli lausn í þessu máli þar sem sjónarmið allra verði virt. Við höfum lýst því yfir að við erum (Forseti hringir.) reiðubúin að slá af ýtrustu kröfum okkar. Það verða aðrir að gera að sama skapi.