135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

[13:41]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér hafa nú þrír ráðherrar talað og flutt endalausar ræður. Ég heyri ekki að þau hafi tilkynnt okkur neitt nýtt þó að þau séu svona ábúðarfull yfir árangri sínum. Mér sýnist að enn sé Ísland á þeirri skoðun að við þurfum að taka þátt í og ná víðtæku samkomulagi um loftslagsmálin. Við búum við mikla sérstöðu, við stefnum að minnkun gróðurhúsalofttegunda, 50–75% til ársins 2050, og við Íslendingar búum við mikla sérstöðu þannig að við erum ábyrg þjóð í heiminum hvað þetta varðar.

Hér er endurnýjanleg orka, það kom fram hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna að við erum í fyrsta sæti með 72,6%, Noregur er númer 2 með 36,6% og Evrópa stefnir að 20%. Við erum framarlega, við erum kannski ekki framarlega þegar kemur að neyslu almennings, þar getum við verulega tekið á eins og hér kemur fram, líka hvað bensín og olíur varðar á skip og bíla. Að því er stefnt þannig að mér sýnist sem Samfylkingin hafi ágætlega borðað grautinn sinn í morgun við ríkisstjórnarborðið, framsóknargrautinn góða, og hún er skynsamari en ég hélt, Samfylkingin, ég lýsi því yfir og óska henni til hamingju með þessa niðurstöðu. Við eigum að vera þarna framarlega, við höfum mikla sérstöðu. Við getum gert hér margt sem mér sýnist að verði áfram á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar sem mörkuð var stefna, eins og í skógrækt, landgræðslu og fleiru til þess að draga úr gróðurhúsalofttegundum.

Ég óska bara hæstv. umhverfisráðherra góðrar ferðar á þessa miklu ráðstefnu með þetta nesti í pokanum.