135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[14:08]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Allt of lengi hafa sveitarfélögin farið bónleið til Alþingis og bent á rangláta tekjuskiptingu, að á meðan ríkissjóður skili hagnaði séu sveitarfélögin sí og æ með hallarekstur ár eftir ár. Auðvitað á þetta ekki við um öll sveitarfélög og það dylst engum að þau eru mjög misvel stödd. Þannig eru mörg sveitarfélög þar sem þensla hefur ríkt, líkt og á höfuðborgarsvæðinu, ágætlega stödd en mörg önnur minni sveitarfélög standa verr. Mörg þeirra verða af hlutdeild í svokölluðum fjármagnstekjuskatti og má nefna Vestmannaeyjar, Húsavík og Snæfellsbæ sem örfá dæmi um sveitarfélög sem lenda í þessu. Ég hygg að skoða þurfi hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum og það hljóti að finnast leið, sé til þess vilji, að koma til móts við þessi sveitarfélög.

Annað sem ég vil líka nefna í þessari umræðu eru skuldir verst settu sveitarfélaganna. Frá því að ég hóf störf að sveitarstjórnarmálum og síðan landsmálum hefur umræðan um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga verið viðvarandi umræðuefni en lítið sem ekkert þokast. Ég verð að segja, hafandi verið beggja vegna borðsins, að sveitarfélögin hafa oftar en ekki verið í hlutverki þiggjandans og hversu oft hefur maður ekki heyrt að þetta sé bara tómt væl í sveitarstjórnarfólki, það þurfi bara að taka á í rekstrinum. Þetta er ekki svona einfalt.

Eins og í hjónabandi þegar eitthvað bjátar á þarf fólk oft aðstoð til að komast út úr gömlu fari. Ég held að við séum komin að þeim tímapunkti í samskiptum og samræðum þessara tveggja stjórnsýslustiga að menn þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt, leita nýrra leiða, fá utanaðkomandi aðila til setjast yfir málið með deiluaðilum og komast að farsælli niðurstöðu sem tryggi gott framtíðarsamband ríkis og sveitarfélaga.

Frú forseti. Það er engum til gagns að umræðan haldi áfram í þessum gamla farvegi þar sem ríkið er drottnarinn og sveitarfélögin hin kúguðu. Því vil ég að lokum varpa fram þeirri hugmynd að fáum utanaðkomandi aðila til leiða viðræður þessara tveggja aðila þar sem gagnrýnna spurninga er spurt, nýrra sjónarmiða er leitað og reynt að komast að niðurstöðu sem geri sambúð þessara tveggja stjórnsýslustiga farsæla. Þannig komumst við vonandi út úr þessari mjög svo (Forseti hringir.) kröppu umræðu undanfarinna ára..