135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

frumvarp um skráningu og mat fasteigna.

[14:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Forseti hyggst nú ganga til dagskrár þessa fundar, 36. fundar. Í 3. lið þeirrar dagskrár liggur fyrir stjórnarfrumvarp, Skráning og mat fasteigna, frá fjármálaráðherra. Ég vil gera alvarlega athugasemd við að það frumvarp sé sett á dagskrá og óska eftir því að það verði tekið af dagskrá og unnið betur vegna þess að málið er að mínu mati vanreifað.

Frumvarpið kemur ágætlega ofan í umræðuna um samskipti ríkis og sveitarfélaga hvað varðar tekjur og fjárhag, vegna þess að í því er eina ferðina enn gert ráð fyrir viðbótarútgjöldum sveitarfélaganna í landinu. Þess er hins vegar hvergi getið í greinargerð með frumvarpinu og enn einu sinni fylgir kostnaðarmat frá fjármálaráðuneytinu á stjórnarfrumvarp þar sem kostnaðarauka sveitarfélaganna er í engu getið. Það háttalag fer í bága við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um það hvernig standa eigi að þessum málum. Enn eina ferðina kemur ríkisstjórnin með stjórnarfrumvarp og lætur þess í engu getið hver kostnaðarauki sveitarfélaganna er af umræddu frumvarpi enda þótt ríkisstjórnin hafi gengist undir það með undirskrift á samkomulagi af því tagi.

Þess er heldur hvergi getið í greinargerð með frumvarpinu að fulltrúi sveitarfélaganna í nefndinni sem vísað er til, bæjarstjórinn á Akureyri, Sigrún Björk Jakobsdóttir, gerði fyrirvara vegna kostnaðarþáttar málsins. Í greinargerð með frumvarpinu segir einungis að það sé samið og byggt á niðurstöðum starfshóps sem fjármálaráðherra skipaði í október 2006. Þær niðurstöður er hvergi að finna. Skýrslan er ekki birt sem fylgiskjal með frumvarpinu. Skýrsluna er hvergi að finna t.d. á heimasíðu fjármálaráðuneytisins. Ekki er því hægt að átta sig á hvort verið er að fara eftir þeim tillögum sem þarna voru settar fram, fyrirvara fulltrúasambands sveitarfélaga er hvergi getið.

Að mínum dómi er vísvitandi verið að halda upplýsingum frá Alþingi sem skipta máli fyrir meðferð þessa máls. Ég geri þá kröfu, virðulegur forseti, að frumvarpið verði tekið af dagskrá og fjármálaráðherra fari með það heim til sín og vinni það betur.