135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:45]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil við upphaf þessarar umræðu og eftir framsögu formanns nefndarinnar lýsa því yfir að ég fordæmi vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins gagnvart Stjórnarráðinu og þeim tilfærslum sem hér eiga sér stað. Ég fordæmi það hvernig að því er unnið og þann undirlægjuhátt að tveir foringjar skuli á Þingvöllum geta náð samkomulagi um að ganga til víðtækra breytinga án samstarfs við flokka sína, án samstarfs við stjórnarandstöðuna, þetta er óheyrilegt og hefur aldrei gerst í þingsögunni fyrr. Menn hafa reynt að ná saman um slíkar breytingar, það rifjaði Bjarni Benediktsson upp fyrir um 50 árum og flutti tillögur þess efnis. Það sem hér er að gerast er óskynsamlegt, menn eru að færa heilu málaflokkana frá ráðuneytum sem þeir eiga að heyra undir. Skógrækt og landgræðsla t.d. tilheyra atvinnuvegaráðuneyti en ekki umhverfisráðuneyti.

Sjálfstæðisflokkurinn ber fulla ábyrgð á því hvernig hann er að fara með landbúnaðarráðuneytið og landbúnaðinn, hann er að stinga honum í skúffu í sjávarútvegsráðuneytinu. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, og hæstv. landbúnaðarráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, sem hefur kyngt þessu öllu. Þeir hafa látið Samfylkinguna ná sínu fram í þessum efnum og rödd landbúnaðarins verður veikari. Margt annað mætti nefna, eins og að fara með málefni sveitarfélaga frá félagsmálaráðuneyti yfir í samgönguráðuneyti, eins og þau séu vegamál eða flugmál, þannig að þetta er verk sem ekki mun standa lengi. Þetta er verk sem stjórnmálaflokkarnir munu sem fyrst taka til endurskoðunar, (Forseti hringir.) það er illa unnið, hæstv. forseti.