135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var greinilegt á andsvari hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, að þetta mál er honum meira tilfinningamál en flestum hér í þingsölum og raunar athyglisvert að það skuli vera helsta pólitíska stefnumál Framsóknarflokksins nú á haustþingi að engu megi breyta í skiptingu verka innan Stjórnarráðsins.

Ég hafna því, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að verið sé að vega að landbúnaðinum sérstaklega. Ég held að þessi sjái ekki stað í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Það er verið að færa til verkefni en það er ekki verið að ganga á þau verkefni eða skerða þau með neinum hætti, það er verið að færa þau saman, þætti sem eiga frekar heima í umhverfisráðuneyti, aðrir þættir verða aftur eftir í nýju sameinuðu ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála. Ég hygg að útkoman verði sterkari stjórn, sterkari stjórnsýsla á þessu sviði þar sem landbúnaðarmálunum er vel komið í sambýli við sjávarútvegsráðuneytið og þar verða þau alls ekki hornreka.