135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:51]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nefndarálitið með þessu viðamikla máli er að mínu mati afar rýrt í roðinu. Ég hefði viljað sjá betur útlistaðar þær umræður sem fóru fram í nefndinni við meðferð málsins og sakna sérstaklega þeirra umsagna sem aðrar nefndir sendu hv. allsherjarnefnd. Það hefði verið mjög nauðsynlegt að fá þær umsagnir inn í umfjöllun um þetta mál og þær hefðu að sjálfsögðu átt heima í nefndaráliti meiri hlutans á sama hátt og viðlíka umsagnir eiga heima í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar þegar nefndir eru að fjalla um ákveðna þætti fjárlagafrumvarpsins. Ég spyr því: Hvers vegna fylgja þessar umsagnir ekki? Er möguleiki á að fá þær inn í þingskjöl með einhverju móti?

Í öðru lagi langar mig til að nefna þá umsögn fjárlagaskrifstofu, sem getur að líta í frumvarpinu sjálfu. Þar er talað um að þessi tilflutningur kunni að snerta fjárveitingar um 200 viðfangsefna á fjárlögum. Eitthvað er minnst á að einhverjar tillögur komi í fjárlagafrumvarpinu við 2. umr. og við þekkjum þær tillögur núna. Það er einnig sagt í umsögninni frá fjárlagaskrifstofu að að mestu leyti ætli ríkisstjórnin að reyna að halda þessum breytingum innan ramma viðkomandi ráðuneyta og stofnana í fjárlögum. Mér þykir þetta frekar óraunhæft og mundi vilja vita hvort nefndin hafi óskað eftir kostnaðarmati á frumvarpinu, hvort fyrir liggur hver kostnaðurinn verður og hvort betur hafi verið rýnt í það mál en raunin var þegar málið var lagt fram.

Í þriðja og síðasta lagi langar mig til að spyrja um stjórnsýslumat en umboðsmaður Alþingis hefur hvatt til þess að flóknum, viðamiklum frumvörpum sem breyta stjórnsýslunni fylgi stjórnsýslumat. (Forseti hringir.) Var slíkt mat framkvæmt?