135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:59]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta allsherjarnefndar sem ég stend að ásamt hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég verð að segja í upphafi að aðdragandi málsins og undirbúningur allur er fyrir mér víti til varnaðar, óheilladæmi um óvandaða frumvarpssmíð svo vægt sé til orða tekið.

Í athugasemdum með frumvarpinu er greint frá því að við myndun núverandi ríkisstjórnar hafi verið ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum, eins og segir, að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn og að lögum um Stjórnarráð Íslands hafi verið breytt í því skyni á síðasta þingi. Þessar skýringar eru ekki réttar. Það blasir við öllum sem kynna sér málið. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu má fyrst og síðast rekja til skiptingar ráðuneyta og ráðherrastóla milli samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar síðastliðið vor. Ákvörðunin var tekin og lögum um Stjórnarráðið breytt án þess að skilgreind og rökstudd markmið lægju fyrir, án þess að þarfagreining lægi fyrir, án þess að kostnaðargreining lægi fyrir og án heildstæðrar stefnumótunar og skýrrar framtíðarsýnar.

Frú forseti. Þetta lagasetningarklúður kallar á langar ræður og skýringar. Fróðlegt verður að fylgjast með því í dag hvernig hv. þingmenn, aðrir en ég, munu haga málflutningi sínum og hvort þeir muni standast fimmtán mínútna regluna sem þeir geta kannski æft sig á í dag.

Það er nefnilega svo að vönduð lagasetning hefur ekkert með ræðutíma að gera, heldur undirbúning, vandaðan undirbúning áður frumvarpið er lagt fyrir þingið. Það þarf forvinnu, undirbúning og síðan vandaða vinnu í þingnefndum öllum. Það vantar allt hér. Það vantar algjörlega í þetta mál. Ég get horft í augun á hverjum sem er og sagt að það er mín skoðun að þetta frumvarp sé hrákasmíð, óvönduð smíð. Ekki er gerð minnsta tilraun til að bera saman núgildandi skipan mála og málaflokka miðað við breytta skipan og meta með rökstuddum og faglegum hætti áhrif breytinganna. Það örlar hvergi á slíkum rökstuðningi í greinargerð með frumvarpinu og ekki heldur í áliti meiri hluta allsherjarnefndar. Hvergi er að finna rökstuðning fyrir þessum breytingum. Aðeins er fullyrt að koma muni til aukinnar samhæfingar, aukinnar skilvirkni og að kerfið verði auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi o.s.frv. Þetta eru allt saman órökstuddar fullyrðingar. Maður finnur þessum orðum hvergi stað í frumvarpinu og hvergi í áliti meiri hlutans.

Við sem stöndum að þessu minnihlutaáliti fullyrðum að breytingarnar muni almennt séð hafa þveröfug áhrif í veigamiklum atriðum og skapa mikla óvissu. Það hafa þær þegar gert. Starfsmenn eru í óvissu nú í jólamánuðinum, á aðventunni, um sig og fjölskyldur sínar vegna þess að það stendur til að flytja starfsmenn eins og fé á fæti. Ekki bara á milli stofnana, ekki bara undir nýjar stofnanir heldur líka milli landshluta án þess að þeir hafi nokkurn tíma til undirbúnings undir það. Samt bresta breytingarnar á 1. janúar.

Ég er ekki einn um þessa skoðun. Fyrir liggja fjölmargar umsagnir frá virtum stofnunum, Landgræðslu ríkisins, Dýralæknafélaginu, Bændasamtökunum, Orkustofnun, Skógfræðingafélaginu og fleirum þar sem tekið er undir nákvæmlega þessi sjónarmið. Ég gagnrýni einnig að fleiri breytingar eru í gangi á Stjórnarráðinu en komu til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Ákveðnir veigamiklir þættir eru slitnir frá umfjöllun allsherjarnefndar, efnisflokkar á sviði heilbrigðisráðuneytis og almannatrygginga og utanríkisráðuneytis. Mér er það óskiljanlegt af hverju þetta er ekki unnið heildstætt og af hverju öll frumvörp, sem þarf að leggja fram og varða þessar breytingar, koma ekki fram samhliða.

Svo tekur steininn úr, frú forseti, þegar fullyrt er í frumvarpinu að víðtækt samráð hafi verið haft við þær stofnanir og starfsmenn sem hlut eiga að máli. Víðtækt samráð. Staðfest er í umsögnum um frumvarpið og á fundum nefndarinnar með forsvarsmönnum þeirra stofnana sem hlut eiga að fullyrðingar um samráð eru beinlínis rangar. Gestir gengu svo langt að segja að þær væru óboðlegar. Í raun eru þær móðgandi gagnvart þessum stofnunum og starfsfólkinu. Staðreyndin er að frumvarpið var samið án samráðs við viðkomandi stofnanir, starfsmenn þeirra og aðra hagsmunaaðila. Sama gildir um stjórnarandstöðuna, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni, ekkert samráð var haft við hana. Það er algjört stílbrot og brot á þeim hefðum sem ríkt hafa á Alþingi í áratugi við allar breytingar sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu. (GÁ: Ekki við óbreytta þingmenn stjórnarflokkanna heldur.) (JBjarn: Það hefur nú sjaldan verið gert.) — Það er hárrétt hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Ég hygg að svo sé, að þeir hafi verið leiddir eins og fé í rétt og ekki einu sinni fengið grastuggu.

Reyndar var málsmeðferðin með þeim hætti að hún er einkar ámælisverð, þ.e. hvernig ríkisstjórnin keyrði í gegn breytingar á sumarþinginu með meirihlutavaldi, hreinni valdbeitingu tveggja þriðju meiri hluta síns. Þeir hlustuðu ekki á eitt einasta orð, hvorki köpuryrði né faglega gagnrýni sem kom fram mjög víða og það frá þingmönnum sem verulega reynslu hafa af þessum málum, fyrrverandi ráðherrum og öðrum. Ekki var tekið hið minnsta mark á því.

Hið verra er að hæstv. forsætisráðherra gengur bak orða sinna í málinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingar um að þverpólitísk samstaða yrði forsenda slíkra breytinga, þverpólitísk samstaða. Aðferðin við þessa lagasetningu og frumvarpssmíð gengur líka þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi. Ekki nóg með það heldur eru þessar breytingar þvert á stefnu Samfylkingarinnar, þvert á yfirlýsta stefnu Samfylkingarinnar um málefnalega samræðu, samráð og lýðræði. Það er því miður, herra forseti, alvarleg fljótaskrift á frumvarpinu og vinnubrögðin óvönduð.

Ég verð að segja eins og er, að það er algjörlega fráleitt að ætla, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar hélt fram, að frumvarpið ætti að koma út á sléttu fjárhagslega. Það er ekki í samræmi við raddir gesta á fundunum. Þegar er kominn í ljós kostnaður vegna húsnæðisins niðri á Skúlagötu 2 og í pípunum er kostnaður sem má reikna út af nákvæmni ef ríkisstjórnin hefði fyrir því að skoða málin. Fullyrðingin um að breytingarnar hafi ekki í för með sér kostnað nema hugsanlega einhver óvænt útgjöld, sem bresta á eins og jarðskjálfti eða eitthvað svoleiðis, er bæði órökstudd og ófagleg. Hún er ekki þingheimi bjóðandi. Ég kem betur að því síðar.

Það er mat minni hlutans að kostnaðurinn, fyrir utan húsnæðiskostnaðinn sem þegar er sannreyndur upp á tæpar 300 millj. kr., muni hlaupa á hundruðum milljóna og fari að líkindum yfir einn milljarð þegar upp verður staðið. Þá umræðu vil ég taka við hv. formann allsherjarnefndar, Birgi Ármannsson, við fjáraukalagagerð á næsta ári. Þá hygg ég að staðreyndirnar liggi á borðin. (BÁ: Sýndu á spilin núna.) Það er fyrirséð núna og nákvæmlega útreiknanlegt, eins og þegar Matís var oháeffað á síðasta ári. Það átti ekki að kosta neitt, ekki krónu. Hvað var fyrsta verk okkar hér á haustþingi? Það var að setja 150 millj. kr. í Matís. Munum það. Ég held að það verði eitt núll í viðbót á fjáraukalögunum gagnvart þessum breytingunum á næsta ári.

Ég gagnrýni líka málsmeðferð allsherjarnefndar. Þar hefur málið verið keyrt hratt fram án þeirrar yfirvegunar og yfirlegu sem jafnviðamikið mál krefst og þarfnast. Ég tek fram að boðað var með tiltölulega stuttum fyrirvara að málið yrði tekið úr nefndinni 28. nóvember síðastliðinn. Á þeim fundi lagði meiri hlutinn fram drög að nefndaráliti sínu og kynnti í leiðinni 15 breytingartillögur sem minni hlutanum gafst ekkert ráðrúm til að fara yfir, kalla til gesti eða annað slíkt. Það er hins vegar rétt hjá hv. frummælanda meiri hlutans að flestar breytingarnar eru ekki stórvægilegar en engu að síður þarf að skoða þær og ræða.

Síðan var gengið frá endanlegu áliti meiri hlutans og breytingartillögum og meirihlutaálitið lagt fram hér á Alþingi fyrir umræðu um fjárlög. En minni hlutanum var skorinn sá stakkur að sjónarmið hans komust ekki að. Ekki gafst ráðrúm til að skila áliti minni hlutans fyrir fjárlögin, sem var ekki vanþörf á vegna þessa kostnaðarauka sem ég er að tala um. Í áliti meiri hlutans voru viðvaranir minni hlutans um hundruð milljóna kostnað, sem þegar var staðfestur, fyrir utan húsnæðiskostnaðinn upp á tæpar 350 millj. kr. En þær komust ekki að. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð og alla málsmeðferð við samningu og afgreiðslu þessa frumvarps. Sú málsmeðferð er ekki til að auka virðingu Alþingis. Maður spyr sig: Hefði frumvarpið hugsanlega orðið betra ef ræðutíminn yrði styttur? Væri þá frumvarpið betra, herra forseti? Það er aldeilis ótrúlegt að sjá að þingheimi sé boðið upp á að bæta löggjafarstarfið með því að vaða bara í ræðutímann.

Óvandað löggjafarstarf leiðir óhjákvæmilega til óvandaðrar og óskilvirkrar lagasetningar. Vinnubrögðin eru í andstæðu við stefnu ríkisstjórnarinnar (GÁ: Hvað veist þú um það?) — meinta stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er best að halda því til haga. Jú, ég veit allt um það, hv. þm. Guðni Ágústsson. Ég veit að hv. þingmaður stóð að því sem landbúnaðarráðherra í fyrri ríkisstjórn að setja slíkar reglur. Ég veit ekki betur, hv. þm. Guðni Ágústsson, en að á ríkisstjórnarfundi 17. október 2006 hafi verið samin yfirlýsing um einfaldara Ísland, einfaldara og betra regluverk í þágu atvinnulífs og almennings. Ætlunin var að vinna stjórnarfrumvörp með þveröfugum hætti við það sem við urðum vitni að í þessu máli. Það átti að hafa tiltekin lykilatriði í huga. Setja átti upp gátlista til að menn gætu gengið leiðina rétt og haft átti ákveðin lykilatriði í huga, eins og ég sagði, um samráð, um mat á afleiðingum löggjafar, um hugsanlega skilvirkni, um hugsanlegt óhagræði, að reyna að forðast þær gryfjur o.s.frv.

Af hverju fer ríkisstjórnin ekki eftir eigin stefnu í þessu máli? Af samþykkt ríkisstjórnarinnar leiddi síðan handbók sem er nýlega komin út, um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa, útgefin núna í nóvember 2007. Útgefandi er forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis. Það er með ólíkindum að bera þetta frumvarp saman við þá handbók. Það er með ólíkindum. Það er með ólíkindum að skoða smíðaferilinn á frumvarpinu, forsöguna, málsmeðferðina, afgreiðslu hér á Alþingi og tillitsleysið gagnvart starfsfólki miðað við þær reglur sem hér eru settar upp.

Í formála handbókarinnar segir m.a., með leyfi herra forseta:

„Þótt Alþingi eigi lykilorðið um lagasetningu þá er það reyndar að stór hluti samþykktra laga eiga rætur í stjórnarfrumvörpum. Það hvílir því mikil ábyrgð á ráðuneytunum að búa frumvörp sem best úr garði og skapa forsendur fyrir því að löggjöfin verði sem vönduðust.“

Í handbókinni eru jafnframt gátlistar og síðan koma leiðbeiningar í inngangi. Þar er tekið fram að markmiðið eigi að vera það að mál sem koma frá ríkisstjórninni verði sem best undirbúin og kynnt, sem ætti að auðvelda Alþingi afgreiðslu þeirra og stuðla að vandaðri lagasetningu. Síðast segir í innganginum að kröfur um vandaðri vinnubrögð muni þýða að það taki eitthvað lengri tíma að vinna að undirbúningi en áður hefur tíðkast. En ekkert af þessu er gert.

Grundvallaratriði í nýrri lagasetningu, grundvallaratriðið sem hér hefur verið sniðgengið, er að spyrja fyrst, áður en lagt er af stað í þessa vegferð: Er nauðsynlegt að breyta? Er hugsanlega betur heima setið? Er verið að skemma gott starf? Að mati góðs frumvarpssemjanda skal fara í óformlegt samráð um þetta við hagsmunaaðila. Síðan er ítarlegt samráð haft við að semja frumvarpið, samráð við alla hagsmunaaðila. Það er pólitískt samráð, samráð milli ráðuneyta og það er samráð við almenning. Allar þessar reglur um vinnubrögð eru þverbrotnar. Frumvarpið brýtur gegn öllum þeim meginsjónarmiðum og viðmiðunum sem þarna eru lagðar til um vandaða frumvarpssmíð. Það er til vansa.

Það er líka til vansa í þessu máli sem einhver stjórnmálamaður hafði á orði fyrir allmörgum árum, þau eru nú orðin allnokkur, og talaði ævinlega um stjórnlyndi, stjórnlyndi ríkisstjórna, stjórnlyndi ráðherra. Það er fróðlegt að rifja það upp í þessu samhengi að þessi stjórnmálamaður er hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. Það er fróðlegt að rifja upp ummæli hennar í þessu samhengi, úr svonefndum Borgarnesræðum sem urðu allumdeildar á sínum tíma. Í fyrri ræðunni talaði hún um að stundum væri eins og eitthvað lægi í loftinu. Eins og við skynjum að það sé að verða víðtæk sátt um einhverja hluti og ný sýn, ný framtíðarsýn eins og vorleysingar eftir miklar frosthörkur. Vatnið brýst úr þeim farvegi þar sem það hefur áður runnið. Orðunum var ávallt beint til ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég hef tvisvar orðið þess sterklega áskynja í pólitík að eitthvað lægi í loftinu. Fyrst þegar við stofnuðum Kvennaframboðið og Kvennalistann 1982–1983. Þá skynjuðu flokkarnir ekki sinn vitjunartíma og höfðu ekki áttað sig á þeirri þungu undiröldu sem var meðal kvenna. Þegar hún skall svo á gátu þeir ekki lengur virkjað hana og hún fann sér farveg í nýrri pólitískri hreyfingu. Veturinn 1993–1994 lá líka eitthvað í loftinu. Það var almenn krafa um breytt gildismat við stjórn borgarinnar, öðruvísi stjórnarhætti, annað viðmót og betri þjónustu þar sem þarfir fólks væru í fyrirrúmi en ekki minnisvarðaárátta stjórnmálamanna.“

Síðar, í Borgarnesræðunni fyrri, segir hún, með leyfi forseta:

„En hvað er það sem liggur í loftinu? Er það valdþreytan í ríkisstjórninni? Hefur fólk fengið sig fullsatt á sjálfmiðuðu stjórnlyndi Davíðs Oddssonar og félaga? Mislíkar fólki hvernig gæðum og embættum ríkisins er úthlutað til flokksfélaga og gæðinga? Finnst því nóg komið af afskiptum Stjórnarráðsins af fyrirtækjum og fjármálastofnunum landsmanna?

Öllum þessum spurningum má hiklaust svara játandi en þó er ekki nema hálf sagan sögð.“

Hæstv. utanríkisráðherra rekur síðan framhaldið á því að R-listinn tók yfir Reykjavíkurborg og segir, orðrétt með leyfi herra forseta:

„En svo skall á frostaveturinn mikli með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árið 1991 og þessi krafa um endurnýjun í stjórnmálum varð hálft í hvoru úti.“

Ég verð að segja það að ég varð ekki var við hina minnstu þíðu við stjórnarskiptin í vor. Það er sami fimbulkuldinn í afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart stofnunum sínum og ekki síður gagnvart starfsfólki þeirra. Það er sama tillitsleysið og sama samráðsleysið. Það er sama stjórnlyndið í einu og öllu. Enginn er spurður álits heldur koma þessar breytingar allar ofan frá úr höfði tveggja einstaklinga við ríkisstjórnarmyndun á Þingvöllum, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði líka um lýðræði og segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Tækifæri til að þróa þessar stofnanir samfélagsins í takt við kröfur tímans, tækifæri til að þróa lýðræðið í samfélaginu og auka hlutdeild og ábyrgð almennings á þeim ákvörðunum sem máli skipta. Tækifæri til að breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál.“ — Ég ítreka: „Tækifæri til að breyta átakastjórnmálum í samráðsstjórnmál.“

Hvað erum við að upplifa í þessu frumvarpi? Hvað höfum við upplifað á sumarþingi, í öllum málum? Hvað upplifum við í þingskapamálum? Það er verið að troða frumvörpum niður um kokið á stjórnarandstöðunni án nokkurs samráðs og langar lýðræðishefðir eru brotnar, langar þingræðis- og lýðræðishefðir, bæði gagnvart þingskapafrumvarpinu og þessu frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Þar er illt í efni. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar er í hreinni mótsögn við skoðanir hæstv. utanríkisráðherra sem hún birti í Borgarnesræðum sínum. Þetta er hrein öfugmælavísa eða eins og þessi:

Fiskurinn hefur fögur hljóð,

finnst hann oft á heiðum.

Ærnar renna eina slóð

eftir sjónum breiðum.

(JBjarn: Stefna Samfylkingarinnar.) Það er líklega rétt, hv. þm. Jón Bjarnason, þakka þér fyrir þessa ábendingu.

Það er hægt að lesa lengi úr þessum Borgarnesræðum nákvæmlega sömu umfjöllun, um að hafa samráð og um að slíta ekki sundur friðinn á þingi. Þá hygg ég að þingstörfin mundu ganga miklum mun betur en raunin er í dag. Það að slíta sundur friðinn í þingskapamálinu mun eflaust reynast okkur þungt fyrir fæti þótt einhverjir kunni að hafa af því skemmtan til að byrja með. En það er illt að reka þingheim … (BÁ: Illt er að reka óbilgjarnan.) illt að reka óbilgjarnan, já — þingheim án samráðs. (Gripið fram í.)

Hæstv. utanríkisráðherra segir síðar í þessari ræðu, með leyfi herra forseta:

„Við ætlum að vera flokkur sem nýtur trausts og hefur trúverðugleika — ekki vegna þess að við höfum svör á reiðum höndum við öllu sem upp kemur heldur vegna hins að við munum vanda okkur við leita að svörum. Heldur ekki vegna þess að við höfum lausn á hvers manns vanda heldur vegna hins að við viðurkennum að flókin viðfangsefni kalla á yfirlegu og góða dómgreind og oftar en ekki fjölþætta úrlausn þar sem hópar og einstaklingar leggja saman. Við eigum að boða stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu.“

Þessi fögru fyrirheit eru innantóm. Það er margsannað að þau eru innantóm en segir ekki máltækið líka: Oft bylur hæst í tunnum sem minnst hafa innihaldið. (GÁ: Í tómri tunnu.) — Ég verð að skilja eitthvað eftir í ræðunni.

Ég kem þá að athugasemdum við frumvarpið sjálft en frumvarp ríkisstjórnarinnar um tilfærslu verkefnanna er í 11 þáttum. Við í allsherjarnefnd fengum fjölda umsagna. Það er greinilegt af þeim að frumvarpið er samið í flýti og fljótræði, ekkert samráð haft við hagsmunaaðila, starfsmenn og undirstofnanir og engin grein gerð fyrir kostnaðarauka. Af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði um umsagnir frá öðrum nefndum, sem mér skilst að muni verða bætt úr, þá vek ég vek sérstaka athygli þingheimsins á því að hér eru álit bæði meiri hluta og minni hluta þessara nefnda, sem hafa tillögur. Þá vek ég sérstaka athygli á meirihlutaálitunum því að þau skipta meira máli. Þetta eru stjórnarþingmenn sem skrifa undir þau. En í mörgum þeirra er lagt til að allsherjarnefnd lagi til frumvarpið og geri breytingar. Allsherjarnefnd hefur í engu sinnt þeim tilmælum stjórnarþingmanna úr öðrum nefndum. (BÁ: 15 Breytingartillögur.)

Í umsögn meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefur nefndin miklar áhyggjur af því að Bændur græða landið, verkefnið, sé sundurslitið frá Landgræðslunni. Landgræðslan flutt til umhverfisráðuneytis en Bændur græða landið verður eftir. Menn hafa af þessu þungar áhyggjur. Þær koma fram hjá meiri hluta sjávarútvegsnefndar og mörgum fleirum. Ekki hin minnstu viðbrögð við því.

Í niðurlagi þessa álits kemur fram að meiri hluti nefndarinnar beini því til allsherjarnefndar að taka til athugunar þau atriði sem koma fram í umsögnum og kanna hvernig unnt sé að einfalda stjórnsýsluna. Undir þetta skrifa hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Kjartan Ólafsson, Helgi Hjörvar, Jón Gunnarsson og Karl V. Matthíasson. Það var ekkert tilliti tekið til þessa.

Meiri hluti umhverfisnefndar er líka með athugasemdir og áhyggjur sem ég reikna með að aðrir þingmenn fjalli um. Umhverfisnefnd hefur áhyggjur af vatnamælingum, áhyggjur af tilfærslu starfsmanna og óskar eftir samráði. Hún hefur áhyggjur af umsögn sveitarfélaga og áhyggjur af því að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sé sett í uppnám gagnvart hinni nýju Matvælastofnun (Gripið fram í: Það mun engu breyta.) og hefur áhyggjur vegna málefna dýralækna. Undir þessar áhyggjur skrifa hv. þm. Helgi Hjörvar, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Illugi Gunnarsson og Ármann Kr. Ólafsson. Ekki var þessu sinnt.

Meiri hluti samgöngunefndar, hv. þingmenn Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ólöf Nordal, Herdís Þórðardóttir, Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen og Ármann Kr. Ólafsson, lýsir áhyggjum af starfsfólki. Lýsir áhyggjum af því hvað verði um starfsfólkið, að finna þurfi húsnæði og klára starfsmannamálin. Hvað hefur allsherjarnefnd gert í því? Ekki neitt. Þetta á bara að fljóta áfram og starfsmennirnir eiga að hafa sömu þungu og réttmætu áhyggjurnar yfir jólin og fram á næsta ár.

Meiri hluti félags- og tryggingamálanefndar hefur áhyggjur af biðlaunum, að réttur kunni að skapast til biðlauna. Það er nefnt í flestum umsögnum að biðlaunaréttur muni stofnast og fyrirséður sé kostnaður sem hægt sé að reikna út af allmikilli nákvæmni. Það er bragð að því þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Jón Gunnarsson, Kristinn H. Gunnarsson og Pétur H. Blöndal hafa áhyggjur af því. Og hefur þetta verið leiðrétt? Hefur eitthvað verið gert til að létta af áhyggjum starfsmanna þessara stofnana? Nei.

Ég tek hér saman 1., 2. og 3. þátt frumvarpsins. Í 1. þætti eru lagðar til breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis, í 2. þætti vegna flutnings ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og í 3. þætti vegna flutnings alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Við í minni hlutanum höfum bent á að eftir breytingarnar munu veigamiklir félagslegir þættir og aðrar skyldur sem sveitarfélög hafa skipast í tvö ráðuneyti. Ekki er ástæða til að ætla að það auki skilvirkni almennt séð. (BÁ: Eiga menntamál þá að fara undir sveitarstjórnarráðuneyti?) Mjög mörg málefni, hv. þm. Birgir Ármannsson, sem varða sveitarfélögin beint heyra best undir eitt ráðuneyti hvort sem það verður þá iðnaðarráðuneyti eða samgönguráðuneyti. En það þarf að flokka saman skyld mál. Ég hef ekki minnst á menntamál í því sambandi en það má alveg hugleiða það.

Það er eins og annað í frumvarpinu, ekkert hefur verið hugað að því. Það hefði þurft að huga að því, eins og margoft kom fram í umsögnum, að breyta nafni samgönguráðuneytisins á þann veg að það hefði skírskotun til sveitarstjórna. Margir bentu á það, vildu kalla ráðuneytið byggða- og samgönguráðuneyti eða samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Ekkert var hlustað á það.

Flutningur ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis var mjög gagnrýndur. Það kom skýrt fram að atvinnugreinin er nú vistuð í öllum ráðuneytum nema iðnaðarráðuneyti og þangað á hluti hennar að fara. Atvinnugreinin verður því vistuð í öllum ráðuneytum. Auðvitað hefði þurft að finna einhverjar heildarsýn og heildarúttekt á ferðamálapakkanum. Samband sveitarfélaga gerði athugasemd við málefni ferðaþjónustunnar, að þau heyrðu undir mörg ráðuneyti. Samband sveitarfélaga, ég tek mark á þeim, segir að breytingarnar séu ekki til þess fallnar að einfalda stefnumótun í ferðamálum. Ekki til þess að einfalda. Af hverju erum við þá að þessu? (Gripið fram í.) Sambandið segir líka: Flókin stjórnsýsla ferðamála og mikill fjöldi leyfisveitenda og umsagnaraðila hefur reynst ferðaþjónustuaðilum til trafala. Þekkja menn það ekki þegar þeir setja á stofn atvinnurekstur í ferðaþjónustu? Ég þekki óbeint til þess. Leyfisveitendurnir eru ótrúlega margir og á ótrúlega mörgum stöðum og í ótrúlega mörgum ráðuneytum. Nú hefur eitt bæst við eða á að bætast við.

Ferðamálasamtökin gagnrýndu það líka mjög harðlega að vista ferðamálin út um allt frekar en að reyna að þjappa þeim saman. Eðli máls samkvæmt verður ferðaþjónustunni ekki komið undir einn hatt vegna þess að hún varðar önnur mál, samgöngumál og slíkt. En full ástæða var til að fara heildstætt yfir þennan pakka sem allir voru sammála um að gera og leggja síðan fram tillögur eftir um það bil tvö ár, eftir góða meðgöngu, góða yfirlegu og skynsemi og náið samráð við þá sem í greininni starfa.

Ef ég skil rétt og man rétt á að flytja alferðir til viðskiptaráðuneytisins. Sú breyting var einróma gagnrýnd. Hún var nánast einróma gagnrýnd. Samt á hún að verða að veruleika og þeir sem gagnrýndu þá breytingu höfðu ekki miklar kröfur í því sambandi. Þeir settu fram frómar óskir um að fresta breytingunni í eitt til tvö ár til að ná utan um alla þætti þessarar fjölbreyttu og þverfaglegu atvinnugreinar. Ég vil halda því til haga að Ferðamálasamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar voru jákvæð í garð tillagnanna en það var samdóma álit allra sem komu fyrir nefndina og í úttektum, að þörf væri heildarrúttektar á skipan ferðamála til að auka skilvirkni í greininni. Er það ekki tilgangur þessa frumvarps að auka skilvirkni? Svo kemur fjöldi umsagnaraðila og segir að verið sé að setja þetta á tvist og bast og gera allt kerfið óskilvirkt. Ég leyfi mér að vísa í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga af þessu tilefni, sem ég hef rakið, og einnig í ítarlega umfjöllun Ferðamálasamtaka Íslands.

Í 4. þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana og landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Það eru fleiri ákvæði um viðurkenningu á námsframboði, prófgráðum og fleira, um búfræðslulög og þar fram eftir götunum. Ýmsir aðilar hafa reifað réttmætar áhyggjur af því að með þessum tilflutningi kunni tengsl landbúnaðarskólanna við aðrar stofnanir atvinnulífsins að raskast. Það kom líka fram á fundi nefndarinnar að einn fremsti landbúnaðarháskóli heims í Svíþjóð heyrir undir landbúnaðarráðuneytið þar. Ég reifa þá skoðun, og hygg að sé ekki allt of langsótt, að ef til vill veiti menntastofnunum í landinu ekki af einhverri faglegri samkeppni fremur en að hópa þeim öllum inn í eitt og sama ráðuneytið. Ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki að hafa landbúnaðarráðuneytið í landbúnaðarskólunum og hafa menntamálaráðuneytið í hinum og sjá hvernig til tekst.

Aðalatriðið í þessu máli er það að landbúnaðarskólarnir hafa heyrt undir atvinnuvegaráðuneyti frá upphafi og það hefur reynst vel. Það hefur reynst skólunum í landbúnaði vel. Hefur komið fram rökstudd gagnrýni á það kerfi? Hefur verið upplýst um þörf sem kallar á þessa breytingu? Nei. Ekkert hefur komið fram sem réttlætir það að breyta kerfinu breytinganna vegna. Sem hluti af heildarstoðkerfi landbúnaðarins hafa þessir skólar náð að vaxa og dafna og þróa með sér náið samstarf við atvinnulífið. Og ég ítreka að ekki er kominn fram rökstuðningur sem réttlætir tilfærsluna, að skólarnir standi betur undir menntamálaráðuneytinu. Ég leyfi mér í því sambandi að vísa til umsagnar sveitarfélagsins Skagafjarðar sem fylgir. Ég ætla ekki að fara yfir hana hér, ég þykist vita að aðrir þingmenn Vinstri grænna muni fjalla um þetta mál.

Þá kem ég að þeim þætti sem hefur sætt harkalegustu gagnrýninni, svo harkalegri að ég hef orðið undrandi yfir því að allsherjarnefnd skuli ekki hafa viljað fara í þá vinnu að laga þá ágalla sem bersýnilega blasa við öllum sérfræðingum innan þessara greina. Það blasir við og er samdóma álit allra innan skógræktar, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að verið sé að stíga óheillaskref. Því gaf allsherjarnefnd sér ekki tíma til að skoða það og leggja fram gáfulegri tillögur en hér eru á ferðinni? Flytja á skógrækt og landgræðslu frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis en ræktun nytjaskóga á áfram að vera í landbúnaðarráðuneyti. Menn spyrja: Hvar á að gera greinarmun í þessari skógrækt? Eru nytjaskógarnir eitthvað öðruvísi en þjóðskógarnir? Eru þjóðskógarnir eitthvað öðruvísi en þeir skógar sem menn rækta sér til yndis og ánægju við sumarbústaðinn og þurfa svo að grisja?

Langflestir ef ekki allir umsagnaraðilar innan skógræktargeirans lögðust gegn þessari breytingu, hæstv. sjávar- og landbúnaðarráðherra. Þrátt fyrir það er hausnum barið við steininn og knýja á þetta í gegn. Maður spyr: Hvar eru rökin? Hvar er þarfagreiningin? Af hverju er verið að þessu? Umsagnaraðilar lögðust harkalega gegn þessari breytingu og gagnrýna hana harkalega. Þeir vísuðu til rökstuðnings eða réttara sagt fullyrðinga í frumvarpinu um einfalda stjórnsýslu að skipa skyldum málefnum undir eina stjórn þannig að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem í hlut eiga verði öflugri og skilvirkari. Þeir koma hvergi auga á það. Þeir segja að engan veginn sé hægt að sjá merki einföldunar og hagræðingar í því að kljúfa þennan málaflokk milli tveggja ráðherra, milli landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, eins og lagt er til. Það má fremur, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hv. formaður allsherjarnefndar, tala um skemmdarverk í þessu samhengi en einföldun og skilvirkni. Ég trúi og treysti orðum þeirra sem starfa og hafa starfað mjög lengi í skógrækt og landgræðslumálum á Íslandi. Og ég ítreka þá gagnrýni sem ég setti fram áðan um verkefnið Bændur græða landið. Af hverju á að slíta það frá Landgræðslunni?

Ég veit ekki hvort þingmenn eða aðrir vita hvernig það stórmerkilega verkefni kom til. Ég þykist vita að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þekki til. En þetta er eitthvert merkilegasta landgræðslu- og ræktunarstarf og umhverfisstarf sem unnið hefur verið á landinu. Hugmyndina að því að ná bændum til samstarfs fékk Landgræðslan, undir forustu Andrésar Arnalds sem þar starfar. Og hverjir eru bestu vörslumenn landsins? Bændur. Og hverjir hafa sýnt mesta skilvirkni í landgræðslu? Bændur. Af hverju á að rífa þá frá Landgræðslunni sem þeir hafa starfað náið með alveg frá upphafi? Hugmyndin er komin frá Landgræðslunni og unnin í nánu samráði við bændur. Nú er þetta slitið í sundur og boðleiðir eru gerðar lengri. Ég skil satt best að segja ekki af hverju allsherjarnefnd tók sig ekki til, ég segi nánast með einu pennastriki, og lét þetta málefni fara með Landgræðslunni. Engin rök eru fyrir því, ekki heldur í áliti meiri hlutans.

Þar er á það bent að stjórnsýslan verði erfiðari, boðleiðirnar verði lengri. Það komu líka fram ábendingar um þetta. Það var ekki eins og stjórnarandstaðan stæði ein og væri að nöldra yfir þessu. Ábendingar bárust frá þeim sem starfa í faginu, í greininni, og ábendingar bárust frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Allt saman hunsað.

Umsagnaraðilar segja að varhugavert sé að kljúfa málefni skógræktarinnar í sundur. Umsagnaraðilar hafa af því þungar áhyggjur að málaflokkurinn muni líða fyrir þessa breytingu, skógræktarstarf verði sundurslitið og hætt sé við því að málaflokkurinn lendi utan garðs í stjórnkerfinu. Allir umsagnaraðilar leggja til að málaflokkurinn verði undir einu ráðuneyti. Þeir gera að vísu ekki greinarmun á því hvaða ráðuneyti en hallast fremur að landbúnaðarráðuneytinu sem ég og geri. Þetta er í dag fyrst og fremst atvinnugrein sem á heima undir atvinnuvegaráðuneyti. Og jafnvel skógrækt þjóðskóga verður atvinnugrein vegna þess að það er alveg sama hvaða skógur það er, það þarf að grisja þá og nytja. Þar fyrir utan er þessi þáttur mjög vaxandi í tekjuöflun bænda og sveitanna.

Ég vil líka benda á í þessu samhengi að svo kann að fara að umhverfisráðuneytið verði báðum megin við borðið, annars vegar við borð umhverfisverndar og svo hinum megin við borð atvinnuvegarins. Það er ekki gott. Umhverfisráðuneytið á að vera hreint ráðuneyti, hafa eftirlit með og gæta umhverfisverndar. En það fær annað og meira hlutverk, þ.e. að sinna atvinnurekstrinum skógrækt. Það er óhjákvæmilegt í þessu samhengi, svo ég nefni eitt dæmi, að umhverfisráðuneytið þurfi að úrskurða um hagsmunaágreining milli umhverfisverndar annars vegar og skógræktar og atvinnuvegarins hins vegar. Er gott að hafa það innan sama ráðuneytis? Eftirlitið og tillitið með umhverfinu og svo atvinnureksturinn? Ég segi nei við því. Það blasir við. Það á ekki að rétta umhverfisráðuneytinu þann kaleik að þurfa líka að vera atvinnuvegaráðuneyti.

Umsagnir koma ekki inn á þetta síðasta sjónarmið sem ég var að nefna um hagsmunaágreininginn innan ráðuneytisins en fjöldi umsagna nefna það sem ég sagði á undan, um að skógræktin sé sundurslitin, að stjórnsýslan verði óskilvirkari og fleira. Það eru aðilar sem ég veit, sem ég tek mark á og ég veit líka að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur fullt mark á. Þar eru ábyrg samtök eins og til að mynda Bændasamtök Íslands sem leggjast gegn þessu. Þau hafa líka áhyggjur af því að rannsóknafé sé skilið eftir á einum stað og skólarnir á öðrum stað og boðleiðirnar lengist í öllu saman. Hv. þm. Jón Bjarnason mun væntanlega fara yfir þennan þátt málsins.

Skógfræðingafélag Íslands kemur með sömu gagnrýni og hún er ekki sett fram með stóryrðum. Hún er sett fram faglega, þessi gagnrýni, bæði af Bændasamtökunum og Skógfræðingafélaginu. Það er ekkert mark tekið á þessari faglegu gagnrýni. Henni er ekki einu sinni svarað. Auðvitað eiga Bændasamtökin og Skógfræðingafélagið rétt á því að fá svar. Af hverju ekki, í áliti meiri hlutans? Það blasir við. Til hvers eru þessar stofnanir að senda umsagnir ef þær eru ekki einu sinni svara verðar? Til hvers er leikurinn gerður? Er þetta bara í gamni, að biðja Bændasamtökin og Skógfræðingafélagið að skila áliti? Er það til að uppfylla eitthvert form, að það eigi umsagnanna vegna eingöngu að biðja um umsagnir en efnislega skipti þær engu máli? Auðvitað ekki.

Sama gildir um Norðurlandsskóga, Vesturlandsskóga, Suðurlandsskóga og landshlutaverkefnin öll. Um þau gildir hið sama. Sama er um frjálsu félagasamtökin líka. Skógræktarfélag Íslands lagðist á aðalfundi sínum gegn þessum breytingum. Þeir menn sem fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands skrifa undir það eru Magnús Gunnarsson og Brynjólfur Jónsson. Magnús Gunnarsson formaður og Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri. Það var sérkennilegt að fá þá á fund allsherjarnefndar. Báðir þessir menn eru afar málefnalegir menn eða komu þannig fyrir á fundinum. En það er sérkennilegt að heyra menn af þessari gerð, yfirvegaða, málefnalega, rökfasta menn, kveða svo fast að orði um þessar breytingar og telja þær ekki bara horfa verri vegar heldur væri fremur stundað skemmdarverkastarf en að auka skilvirkni.

Þegar svona menn tala eiga menn að leggja við eyrun og hlusta og svara. Segja til um í hverju þeir hafi rangt fyrir sér. Meiri hluti Alþingis og allsherjarnefndar segir að Bændasamtökin og öll skógræktargreinin, Skógræktarfélag Íslands og Skógrækt ríkisins, hafi rangt fyrir sér, fari bara með tómt bull. Það eru svörin sem felast í því að leggja fram frumvarpið óbreytt. Þið eruð að fara með fleipur, segir ríkisstjórnin við Bændasamtökin, skógræktarfélögin og við landshlutaverkefnin. Þið eruð að fara með fleipur.

Jón Loftsson skógræktarstjóri skilar ítarlegu áliti og rökstuddu og var töluvert niðri fyrir. Lái honum enginn, búinn að vinna áratugastarf að skógrækt með frábærum árangri og hans starfsfólk. Hann fær sömu kveðjur. Sömu kveðjur frá ríkisstjórninni fá Skjólskógar á Vestfjörðum og sömu kveðju fá Suðurlandsskógar og sömu kveðju fær Landgræðsla ríkisins. Landgræðsla ríkisins fær þá umsögn að þeir fari með fleipur varðandi Bændur græða landið , það sé bara ekki rétt sem þeir halda fram. Ég verð að segja að þegar maður fær slíka umsögn frá Landgræðslunni þá er það ekki kurteisi að svara henni ekki með rökstuddum hætti. Meiri hluti allsherjarnefndar er ósammála Landgræðslunni og Bændasamtökunum en verður að svara því með rökstuddum hætti af hverju meiri hlutinn er ósammála. Eru þessar stofnanir ekki svara verðar? Eiga þær að skilja það þannig? Mun þetta efla þá til að skila inn frekari umsögnum, ef ekkert mark er tekið á þeim?

Í umsögn Landgræðslunnar segir m.a. að við blasi, með þeim tillögum sem eru til í frumvarpinu, að málið flækist og fjarlægist það höfuðmarkmið frumvarpsins að einfalda stjórnsýsluna og skipa líkum málaflokkum undir sömu stjórn. Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið og reyndar vil ég rifja upp umsögn Skógræktarinnar um þetta fyrst. Þeir segja hreinlega í umsögn sinni að það sé hér í uppsiglingu eitt allsherjarstjórnsýsluklúður á málaflokknum skógrækt sem draga muni úr mætti skógræktarstarfs um ókomin ár. Greinilega er ekki pólitísk samstaða um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytisins og felst málamiðlun í því að kljúfa hann upp. Stjórnsýslulegt klúður. Hvert var markmiðið, skilvirkni, aðgengi almennings, hagræðing? En þá kemur Skógræktin og segir stjórnsýslulegt klúður og enginn leggur eyrun við. Engu er svarað.

Svona ummæli staðfesta mann í þeirri trú að þessar breytingar séu eingöngu gerðar vegna skiptingar ráðherrastóla, til að setja meira kjöt á bein örráðuneyta Samfylkingarinnar, viðskiptaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, aðeins að bæta kjöti á þau bein, örlitlu meiru til að naga. En menn átta sig ekki á því að um leið er verið að naga innan úr þessum stofnunum og gera þær óskilvirkar. Það má aldrei verða.

Þá kem ég að sjötta þætti. Það er flutningur Vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Það á að flytja Vatnamælingar til Veðurstofunnar og mynda úr þessum tveimur stofnunum nýja stofnun. Umsagnaraðilar fagna þessari tilfærslu en telja framkvæmdina gagnrýnisverða. Þar er aftur tillitsleysi við starfsfólk. Þeir benda á að ekki sé skýrt hvað felist í flutningunum og leggja áherslu á, eins og fjölmargir aðrir, að ganga þurfi frá málum sem varða réttindi starfsmanna í nánu samstarfi við starfsmenn, stéttarfélög þeirra og viðsemjendur.

Það blasa við vandamál við þessa tilfærslu sem ekki hefur verið horft til og lítt verið hugsað um. Það hefði átt að skoða áður en frumvarpið var lagt fram og hafa á hreinu þegar það kom fram. Þetta eru þættir sem varða starfsmenn stofnana sem hafa þungar og réttmætar áhyggjur. Það kom fram á fundum gesta eða fundum með forstöðumanni Veðurstofunnar og starfsmönnum Vatnamælinga, sérstaklega Veðurstofunnar, að það blasa við húsnæðisvandamál sem ekki hafa verið leyst. Það kom líka fram að Veðurstofan gæti ekki tekið við þeim fjölda sem þangað ætti að flytjast. Þar bæta menn eiginlega við að ekki sé á húsnæðisvanda stofnunarinnar bætandi. Það hefur ekki verið leyst. Það er alveg óhjákvæmilegt, og þar er meiri hluti allsherjarnefndar að berja hausnum við steininn, þegar komið er á nýrri stofnun að því fylgi kostnaður. Bara að búa til pappírsefni, bréfsefnið, símaskráning, tölvukerfi og margt fleira. (BÁ: Það er bara verið að flytja málaflokkinn.) Ný stofnun, ný stofnun stendur (BÁ: Ekki í þessu frumvarpi.) og það er ljóst að það verður líka af þessu biðlaunakostnaður og annað ónefnt sem ég kem betur að á eftir.

Það hefði, hv. formaður allsherjarnefndar, verið hægt að taka af öll tvímæli varðandi biðlaunakostnaðinn ef ríkisstjórnin hefði haft svo lítið við að spyrja starfsmenn. Viltu koma og vinna hjá hinni nýju stofnun? Viltu flytja á Selfoss? Hvað ætlar þú þér? Og gefa starfsfólkinu góðan fyrirvara, eins og maður gerir. Maður ætlast til þess að fólk komi fram af kurteisi við sig og maður á að sýna sömu kurteisi. Það gildir í samskiptum ríkisins við starfsmenn sína. Hún er ekki sýnd hér.

Ég kem þá að matvælamálunum. Þar á að flytja matvælasviðið undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar með verður hlutverk Landbúnaðarstofnunar aukið og hún mun taka við matvælaeftirliti sem nú er unnið á vegum Fiskistofu og Umhverfisstofnunar. Það er gert ráð fyrir samningum sjávarútvegsráðherra við þessar stofnanir og fleira. Ég vil halda því til haga að það er almenn ánægja með þeirri tilhögun á því eftirliti, sem er reyndar meira en eftirlit eins og fram kom í tillögu meiri hluta allsherjarnefndar, að breyta nafni á stofnuninni, sem ég er sammála þótt ég viti ekki hvort þetta sé besta nafnið. En ég er a.m.k. sammála því að það sé skárra en Eftirlitið. En það er almenn ánægja með þetta. Hins vegar hefur komið fram gagnrýni, fagleg og réttmæt gagnrýni og hörð á köflum um framkvæmdina. Ekkert samráð enn á ný við undirstofnanir og starfsfólk.

Ekkert samráð enn á ný við undirstofnanir og starfsfólk. Í umsögn starfsmanna Fiskistofu kemur fram að þeir hafi fyrir löngu lagt til að skipaður yrði starfshópur sem gerði tillögur um fyrirkomulag matvælaeftirlits og tillit tekið til skyldu samkvæmt gerðum ESB um matvælaöryggi. Þeir halda því fram, og ég hef enga ástæðu til að rengja það, að frumvarpið sé samið í flýti og án samráðs við Fiskistofu eins og alla aðra. Þessari skoðun um samráðsleysið og flýtinn deila þeir sem best til þekkja á þessu sviði.

Sveitarfélögin stunda umfangsmikið heilbrigðiseftirlit. Það er sérkennilegt að ekki hefur verið hugað að því við samningu frumvarpsins og breytingu í þessa stofnun hvernig heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og ríkis vinna saman. Þarna er mikil skörun í gangi og menn þurfa að koma sér upp verkaskiptingu fyrir fram til að koma í veg fyrir árekstra. Ekkert var hugað að því. Samhæfing heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og ríkisins hefur ekki verið skoðuð í þaula og það ber vott um sama flumbruganginn við samninguna.

Það versta í þessu dæmi, og það hef ég nefnt áður, er óvissa starfsmanna, órói ríkir meðal starfsmanna. Starfsmenn Fiskistofu eru órólegir yfir því að starfsemi Matvælastofnunar verður á Selfossi. Þeir segja að ekki sé víst að þeir sjái sér fært að flytja og alvarleg viðvörunarorð hafa komið fram um það að í þessum geira séu mjög sérhæfð störf og umtalsverður vafi leiki á því að hinir sérhæfðu, reyndu starfsmenn muni flytjast. Ástæða er til að óttast það.

Ef þetta væri nú gert í anda handbókar ríkisstjórnarinnar. Ef ég væri að vinna að slíku máli hefði ég byrjað á því að tala við starfsfólk og gefið því ráðrúm í eitt og hálft ár til að undirbúa flutning á Selfoss. Það er ágætt að búa á Selfossi en það er nú þannig að fjölskyldur eru með börn í skóla, fjölskyldur þurfa að kaupa sér íbúð, fjölskyldur þurfa að koma sér niður á nýjum stað. Ekkert slíkt ráðrúm er gefið. Menn óttast að sérfræðiþekking kunni að tapast, starfsfólk þurfi að rífa sig upp með rótum, heilu fjölskyldurnar að flytjast búferlum.

Minni hlutinn tekur hins vegar undir með Sambandi sveitarfélaga að því leyti að með breytingunni má vænta þess að störfum á landsbyggðinni fjölgi, sem er gott mál, ekki veitir af að styrkja landsbyggðina þó að hún sé nú mest að styrkjast í 50 km geira frá 101, mætti gjarnan taka til hendinni aðeins lengra í burtu. Minni hlutinn telur jafnframt að við slíkar breytingar verði að hafa víðtækt samstarf við starfsmenn með afar góðum fyrirvara en ekki að koma fram af því tillitsleysi sem einkennir þetta mál. Þetta er lifandi fólk, ekki fé á fæti.

Svo kem ég aftur í þessu sambandi að kostnaðargreiningu. Það er ámælisvert að kostnaðargreining hafi ekki farið fram á þessum stórfelldu breytingum á matvælaeftirliti. Gengið er út frá því að kostnaðurinn verði enginn, hann fari yfir á nýja stofnun. Talað er um að kostnaður verði ef upp koma „óvænt útgjöld“ eins og ég hef áður nefnt. Að mati minni hlutans er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins röng að þessu leyti, því miður. Við blasir, og þar tek ég Matíss-dæmið aftur, verulega aukinn kostnaður. Reikna má með að tilfærslan hlaupi á hundruðum milljóna. Verið er að búa til nýja stofnun, taka þarf til í húsnæði Landbúnaðarstofnunar, bæta þarf við tölvum, tólum og tækjum og öðru, auglýsa þarf upp nýtt lógó.

Það þarf að gera svo margt þegar ný stofnun er sett á fót og mikill kostnaður fylgir fyrir utan auglýsingar og annað, og er þá ótalinn fyrirséður biðlaunakostnaður sem einfalt hefði verið að reikna út með því að spyrja starfsmenn. Það fylgir því kostnaður að ráða nýja starfsmenn og þjálfa þá ef einhverjir í sérhæfðu störfunum vilja ekki flytjast. Ótalinn er aksturskostnaður sem mun bætast við ef starfsmenn Fiskistofu kjósa að búa í Reykjavík og vinna á Selfossi, og annar kostnaður er ótalinn. Í máli Þórðar Ásgeirssonar, forstjóra Fiskistofu, kom fram að stoðþjónusta Fiskistofu mun nýtast mun verr. Stoðþjónusta eru lögfræðingar, tæknifólk, alls kyns sérfræðingar sem styðja við sérfræðinga á matvælasviði, sem leitað er til þegar vandi kemur upp í stjórnsýslu og öðru slíku. Þessi stoðþjónusta Fiskistofu mun nýtast verr. Á móti kemur að Landbúnaðarstofnun þarf að koma á fót stoðþjónustu, ráða lögfræðinga, ráða sérfræðinga sem ekki eru á sviði þeirra vísinda sem stofnunin sinnir. Þetta blasir við.

Það sem mér finnst svo jafnslæmt ef ekki verra er að fyrirhuguð er breyting á matvælalöggjöfinni og innflutningi matvæla og það felur í sér stóraukin verkefni fyrir Matvælastofnun. Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum. (BÁ: Það er ekki efni frumvarpsins. Það kemur sem sérstakt mál.) Það er ekki efni frumvarpsins. En er það ekki áhyggjuefni allsherjarnefndar? (JBjarn: Hver er skoðun fjármálaráðuneytisins á því?) (Gripið fram í.) Fjármálaráðuneytið segir í umsögn til allsherjarnefndar að ekki komi til kostnaðar en hann er þarna. Bændasamtök Íslands, og þeir sem vilja að íslenskur landbúnaður þrífist, hafa bent á að afar brýnt sé að matvælaeftirlitið verði öflugt þegar innflutningur verður gefinn frjáls. Af hverju er það? (BÁ: Á þetta að drepa það?) Vegna þess að inn í landið munu koma vörur sem ekki standast gæðakröfur. Jafnvel muni koma til landsins vörur sem eru framleiddar utan Evrópska efnahagssvæðisins en er svo pakkað þar og fluttar til Íslands. Það þarf að innihaldsgreina þessar vörur, það þarf að upprunagreina þær o.s.frv.

Fyrst það kemur meiri hluta allsherjarnefndar ekki við vil ég geta þess að aðrir þingmenn hafa áhyggjur af framtíð íslensks landbúnaðar og miklar áhyggjur ef ekki verður vel að verki staðið. Ég veit að hv. fyrrv. landbúnaðarráðherra mun deila þessum sjónarmiðum mínum og rökstyðja þau enn betur en ég get gert. Með faglegri fyrir fram gerðri kostnaðargreiningu mátti auðveldlega vinna upp þennan kostnað.

Annað kemur fram hjá umsagnaraðilum varðandi þetta. Þeir telja miður að frumvarpið hafi verið samið, eins og það er orðað, í óðagoti skiptingar ráðherrastóla og án samráðs við undirstofnanir og starfsmenn þeirra sem hafa mesta þekkingu á málaflokknum. Ég segi enn og aftur að í því ljósi eru ummæli í frumvarpinu, um að fullt samráð hafi verið haft, óboðleg og að mörgu leyti móðgandi.

Ég ætla ekki að gera 8.–11. þáttinn að miklu umtalsefni hér. Ég verð þó að vekja athygli á umsögn Einkaleyfastofu sem setur fram ábendingar, sem ég er ekki viss um að tekið hafi verið tillit til, um vörumerki sem verða slitin frá. Hugsanlega má laga það fyrir 3. umr.

Ég vil árétta að mjög mikilvægt er við þær breytingar sem verið er að gera, einkum vegna sameiningar Veðurstofu Íslands og Vatnamælinga og vegna nýrrar Matvælastofnunar, að þegar í stað verði haft náið samráð við starfsmenn þeirra stofnana sem hlut eiga að máli og réttinda þeirra gætt í hvívetna. Eru það eindregin tilmæli stéttarfélaga þessara starfsmanna, við þeim hefur enn ekki verið brugðist. Ekki er farin af stað samræða við starfsmenn, við fólkið. Ég ítreka enn og aftur að þessum breytingum mun fylgja kostnaður sem ég hygg að fari yfir einn milljarð í fjáraukalögum á næsta ári. (Gripið fram í: Við bandorminn.) Við bandorminn í heild. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Birgir Ármannsson, við hittumst að ári og ræðum fjáraukalög og þá kemur fram á blaði hvor okkar hefur rétt fyrir sér í þessu máli. Það er auðveldara fyrir mig, vegna þess að talan hjá hv. þingmanni er núll, og ég hef þá rétt fyrir mér um leið og hún fer upp í 500 millj. kr. Ég bið hv. þingmenn að muna þetta með mér, við sem erum orðnir eldri hér í salnum munum þetta kannski ekki að ári.

Breytingarnar sem verið er að gera og úthlutun ráðherrastóla segir eiginlega allt sem segja þarf, það er ekki umhyggja fyrir Stjórnarráðinu sem ræður för heldur umhyggja fyrir því að stjórnarsamstarfinu sé siglt heilu í höfn með réttri skipan stóla og vægi embætta viðkomandi ráðherra. Það má hins vegar aldrei verða að leiðarljósi í breytingum á Stjórnarráðinu að setja kjöt á bein minnsta ráðuneytisins sem var í landinu, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, og skipta því í tvennt. Það er með ólíkindum.

Fjöldi stöðugilda í iðnaðarráðuneytinu var 13,1 en í viðskiptaráðuneytinu 15,2. Minnsta ráðuneytinu er skipt upp. Það er alveg ljóst að þetta er gert, ekki að frumkvæði ljóssins heldur skuggans sem nú ber yfir Alþingi og kemur frá þessari ráðherraútdeilingu og skiptingu, það er ekkert öðruvísi. Formenn stjórnarflokkanna, hæstvirtir, sömdu um þessi helmingaskipti án tillits til þeirra meintu markmiða sem síðan eru sett fram í frumvarpinu. Ákvarðanir hafa allar verið teknar að ofan eins og einn gestur sem kom á fund allsherjarnefndar orðaði það. Það er vond stjórnsýsla. Það eru vond vinnubrögð og vond vinnubrögð leiða af sér óvandaða löggjöf eins og umsagnir um frumvarpið staðfesta.

Minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi herra forseta:

„Þar sem færð hafa verið gild rök fyrir því að:

a. sú lagasetning sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá skilvirkni, hagræðingu og einföldun sem að er stefnt,

b. vönduð málsmeðferð búi ekki að baki samningu frumvarpsins, t.d. hefur ekkert samráð verið haft við undirstofnanir og hagsmunaaðila,

c. ekki liggur fyrir greining á annars vegar kostnaði við lagasetninguna og hins vegar þörfinni fyrir hana,

leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir álitið skrifa sá sem hér stendur og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.