135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að starf þúsund skógræktarbænda er atvinnugrein. Þess vegna heyrir skógrækt undir atvinnuvegaráðuneyti, þess vegna eru þessi rök eins og ég nefndi áðan.

Ég spurði hins vegar hv. þingmann mjög einfaldra spurningar sem kröfðust ekki nema já- eða nei-svara, eins og það hvort hann væri að tala í nafni flokks síns þegar hann andmælti því að þær breytingar yrðu gerðar að Skógræktin og Landgræðslan sem stofnanir yrðu fluttar undir umhverfisráðuneytið. Hv. þingmaður talaði nefnilega sjálfur þannig, hann sagði: Ég hallast að því. Hann endurtók það hér: Ég hallast að því. Er hv. þingmaður að tala í nafni flokks síns? Er flokkur hans t.d. þeirrar skoðunar að ekki eigi að færa landgræðslu og skógrækt undir umhverfisráðuneytið? (GÁ: Eðlilega ekki.) Hann getur reynt að svara með því að snúa út úr og segja að það sé verið skipta þessu. Er hann þá þeirrar skoðunar, er flokkur hans þeirrar skoðunar að ekki eigi að breyta neinu í þessum efnum?

Það sama á við um spurningu mína um skólana, hún kallaði á mjög einfalt svar. Ég fékk það ekki. Hv. þingmaður eyddi tveimur mínútum í að reyna (Forseti hringir.) að komast hjá því að svara mjög einföldum spurningum.