135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einfaldar spurningar og einföld svör. Það eru ær og kýr ríkisstjórnarinnar í þessu að fara fram með þjösnaskap. Það sem við gerum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ef við ætlum að fara fram með breytingar á einhverju er að skoða málið af yfirvegun, við köllum eftir sjónarmiðum þeirra sem best til þekkja í hverri grein. Þegar við erum búin að því hugum við að lagabreytingum.

Að því er varðar spurningar sem kalla á já eða nei: Viltu Iðnskólann undir iðnaðarráðuneytið? Viltu hina og þessa skóla undir hin og þessi ráðuneytin? Þannig hagar til að landbúnaðarskólarnir hafa verið undir landbúnaðarráðuneytinu (Gripið fram í.) og ekki hafa komið fram rök um að það sé betra að þeir séu undir menntamálaráðuneytinu. Slík rök hafa ekki komið fram. (GÁ: Atvinnuvegaskólar.) (SKK: Menntastofnanir.)