135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:30]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal viðurkenna að ég er íhaldsmaður að því leyti að ég vil koma fram við fólk af kurteisi og tillitssemi, starfsfólk stofnana og annað slíkt. Það er auðvitað íhaldssemi og ég veit að hv. þm. Ellert B. Schram ber fullt skynbragð á það og þekkir það mætavel sem gamall íhaldsmaður. Það er ekki allt alvont við íhaldssemina, við gömul góð gildi, að koma fram við fólk af virðingu og þar fram eftir götunum. Það er líka íhaldssemi að í upphafi skyldi endinn skoða, að rasa ekki um ráð fram, og mörg góð spakmæli sem ég fer eftir, það eru mín lífsgildi. Það má nefna það íhaldssemi eða hvað sem er.

Aðalatriðið er að maður fer ekki fram með slíkar breytingar nema að yfirveguðu ráði og athugar fyrst hvort þær gera gagn eða ógagn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leikur sér ekki með fólk og tekur áhættu með það. Hún ruggar ekki grundvelli tilveru þess að óþörfu. Þegar hv. þingmaður segir að hitt og þetta sé skynsamlegt þá fellst ég á allar breytingar sem eru skynsamlegar en ég er að kalla eftir rökum fyrir þessari skynsemi. Ég ætlast til að hv. þm. Ellert B. Schram segi ekki bara að þetta sé skynsamlegt heldur færi fram rök fyrir þeirri skynsemd af yfirvegun.

Ég tel það ókurteisi gagnvart umsagnaraðilum að svara ekki umsögnum þeirra, rökstyðja ekki af hverju allsherjarnefnd er ósammála þeim, t.d. (Forseti hringir.) Skógræktarfélagi Íslands.