135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:02]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spurði nú ekki um Matvælastofnun, ég spurði hvort hún gæti ekki heitið matvæla- og dýraheilbrigðisstofnun til að hún tjái það sem hún er að vinna að og sé lýsandi fyrir þau stóru og mikilvægu verkefni sem hún á að sinna. Dýraheilbrigði snýr líka að öryggi fólksins og hinni miklu sérstöðu Íslendinga.

Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki miklar áhyggjur. Ég er klár á einu, ef það hefði gerst á Þingvöllum að hæstv. forsætisráðherra hefði samið um það við hæstv. utanríkisráðherra að Hafrannsóknastofnun sjávarútvegsins væri flutt þá hefði hann spyrnt niður fæti. En hann hefur engar áhyggjur af því þótt allir vísindamenn landbúnaðarins, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem er innan Landbúnaðarháskóla Íslands, þótt allt þetta fólk fari. Hann hefur ekki skýrt mér frá því hvernig þeir samningar eru. Ég spyr: Á hvaða stigi eru þeir samningar sem verið er að gera? Eru þeir að gera einhverja samninga út af Hesti, Möðruvöllum og Stóra-Ármóti?

Ég spurði ekki heldur um gæðastýringuna. Ég veit að hún verður hjá landbúnaðarráðuneytinu. (Gripið fram í.) Ég var að spyrja um ákveðna þætti gæðastýringarinnar sem snúa að eftirliti þar sem Landgræðslan kemur inn í þann samning. Verður það verkefni Landgræðslunnar áfram?

Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra bláeygur. Hann hefur kyngt því sem Samfylkingin náði fram, að stinga landbúnaðarráðuneytinu með óvirðulegum hætti inn í sjávarútvegsráðuneytið. Ég er klár á því, hæstv. forseti, að þegar ný ríkisstjórn kemur að völdum verður það hennar fyrsta verk að fara yfir Stjórnarráðið og endurskipuleggja það í anda Bjarna Benediktssonar, lagaprófessors og fyrrverandi forsætisráðherra.