135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[18:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sett niður nefnd manna til þess að fara yfir hugsanlegar breytingar á Stjórnarráðinu. Það kom ein tillaga frá fulltrúa Framsóknarflokksins í þeirri vinnu sem fól það í sér að fækka ráðuneytum að mig minnir niður í sex. Hvar heldur hv. þm. Guðni Ágústsson að landbúnaðarráðuneytið hefði lent í þeirri tillögugerð, sem var eina tillagan sem kom frá fulltrúum Framsóknarflokksins í þessari umræðu? Ímyndar hv. þingmaður sér kannski að landbúnaðarráðuneytið hefði staðið eitt og sér eftir í sex ráðuneyta ríkisstjórn? Auðvitað ekki. Það hefði leitt til þess að landbúnaðarráðuneytið hefði verið sameinað með öðrum ráðuneytum í nýju ráðuneyti alveg eins og verið er að gera núna.

Það er ekki verið að stinga landbúnaðarráðuneytinu inn í sjávarútvegsráðuneytið frekar en sjávarútvegsráðuneytinu inn í landbúnaðarráðuneytið. Það er verið að sameina þessi tvö ráðuneyti með jafngildum hætti. Það kemur fram í allri þeirri vinnu sem við erum að vinna að við endurskipulagningu þessa nýja ráðuneytis.

Um það sem ég sagði um vísindamennina þá vil ég vekja athygli á því, af því að hv. þingmaður hefur verið að vitna hér til umsagna sem hafa komið, að bæði fulltrúar landbúnaðarháskólanna og Bændasamtakanna eru jákvæðir gagnvart því að færa forræði þessara skóla undir menntamálaráðuneytið, enda sjáum við að menntamálin og skólamálin í landinu hafa verið að eflast og dafna upp á síðkastið. Halda menn að landbúnaðarháskólarnir muni hrynja niður í einhvern kyrking við það að fara inn í þetta ráðuneyti? Auðvitað ekki.

Við erum að undirbúa þessa samninga, það liggur fyrir að við ætlum að leggja til hliðar ákveðna fjármuni sem sjávarúrvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun halda utan um til þess m.a. að styrkja landbúnaðarhluta þeirra rannsókna sem fara fram í landbúnaðarháskólum. Ég kvíði því ekki að þessir skólar muni ekki verða þjónustustofnanir á þessu sviði fyrir landbúnaðinn eins og þeir hafa verið. Auðvitað munu þeir verða það, í því felst þeirra mikli styrkur.

Aðeins út af nafni stofnunarinnar, það má endalaust deila um það mál. Þetta varð niðurstaðan og ég ætla út af fyrir sig ekki að fara í langar umræður um það. Þetta er atriði sem ég held að muni (Forseti hringir.) þróast þegar menn fara að vinna með nafn þessarar stofnunar í framtíðinni.