135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[20:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frumvarp sem snýr að frestun á ýmsum stórframkvæmdum sem áður voru ráðgerðar. Það er í fyrsta lagi framkvæmdir við Landspítalann, ég vek athygli á því að út í þá framkvæmd hefur verið spurt margoft í haust og við því fengist vægast sagt mjög loðin svör um ráðagerðir stjórnvalda í þeim efnum. Nú er að koma á daginn hvílík handarbakavinnubrögð hafa verið stunduð hvað þetta verkefni varðar enda var verkefnisstjórinn rekinn, eins og við munum, sennilega á pólitískum forsendum. Hann hugnaðist ekki þeim sem ræður núna ríkjum í heilbrigðisráðuneytinu sem kann að skýra að einhverju leyti hvers vegna þessar framkvæmdir hafa farið út af sporinu.

Hér er einnig gert ráð fyrir því að fresta framkvæmdum vegna Sundabrautar og sömuleiðis á að fresta framkvæmdum að virði um 300 millj. kr. við nýbyggingu Stofnunar íslenskra fræða, Árnastofnunar. Það er kannski sú framkvæmd sem ég harma mest en þó vil ég taka fram að ég hef jafnan verið í hópi þeirra sem hafa hvatt til varúðar þegar kemur að fjárfrekum og mannfrekum framkvæmdum, sérstaklega á suðvesturhorninu. Það er í því samhengi sem ég hef horft til framkvæmdanna við tónlistarhús. Ekki svo að skilja að ég sé ekki ákafur fylgismaður þess að myndarlegt tónlistarhús rísi í Reykjavík, en ég hef sannast sagna haft áhyggjur af því að ráðist verði í mjög veigamiklar stórframkvæmdir, sérstaklega í þessum landshluta, á sama tíma. Ég tala nú ekki um núna þegar þenslan er sem allra mest. Þetta hefur verið mitt viðhorf. Þar fyrir utan hafði ég náttúrlega ýmislegt að athuga við samningana sem snúa að tónlistarhúsinu. Það er önnur saga. Ég ætla ekki að fara í neinar umræður um þessa frestun sem slíka á þessum framkvæmdum, við eigum eftir að ræða hana í nefndum þingsins og taka málefnalega afstöðu til hennar.

Á hinu langaði mig að vekja athygli og minna menn á hvílíkur endemis farsi svokölluð landssímafjárlög voru á sínum tíma. Þau voru sett á árinu 2005 en eins og menn rekur eflaust minni til hafði ríkisstjórnin selt Landssímann frá þjóðinni gegn meirihlutavilja ef marka má skoðanakannanir. Nánast allar skoðanakannanir sem voru gerðar voru á þá leið að yfirgnæfandi meiri hlutinn var þessari ráðstöfun andvígur og taldi hana ekki heppilega. Hvað var þá til ráða? Þá kom áróðursdeild ríkisstjórnarinnar með það þjóðráð að búa til sérstök sólskinsfjárlög sem tengdust sölu Símans. Það voru hin frægu landssímafjárlög. Hvað var nú að finna í þessum landssímafjárlögum? Þar var að finna fjölmarga liði sem allir tengdust sólinni á einn eða annan hátt, það var allt jákvætt. Þar var enginn niðurskurður heldur var þar einvörðungu að finna jákvæð verkefni sem voru til vinsælda fallin. Það voru samgöngubætur, það átti að reisa hús fyrir íslensk fræði, Árnastofnun, það átti að styrkja fatlaða og aldraða og þar fram eftir götunum. Ríkisstjórnin gekk svo langt að gefa fyrirheit um útgjöld úr ríkissjóði þrjú kjörtímabil fram í tímann, ef ég man rétt.

Ég man eftir því að margir hinna reyndari manna í fjárlagagerð úr röðum ríkisstjórnarinnar, stjórnarmeirihlutans á þingi, gengu úr þingsal þegar þetta var rætt. Að sjálfsögðu gerðu þeir sér grein fyrir því hvers konar sjónarspil þetta var. Landssímafjárlögin. Að sjálfsögðu eru útgjöld ríkisins reiknuð á sjálfstæðum grundvelli á ári hverju. Eða inni á hvaða bankareikningi var andvirði Símans geymt, nákvæmlega, til að taka út af til að uppfylla kvaðir sólskinsfrumvarpsins, landssímafjárlaganna? Það var að sjálfsögðu ekki gert. Við erum að tala um sjálfstæða ákvörðun sem tekin er á hverjum tíma en það var áróðursbragð ríkisstjórnarinnar að tengja sölu Landssímans einhverju því sem þjóðin teldi horfa til framfara og vera þjóðþrifamál. Þetta eru dæmi um það. Síðan erum við búin að upplifa það á hverju einasta ári að hringlað er fram og til baka með þessar ráðstafanir. Þetta er bara síðasti kaflinn, nýjasti kaflinn öllu heldur því að þetta verður ekki síðasti kaflinn, í þessum farsa sem upphófst hér á árinu 2005.

Hæstv. forseti. Ég vildi vekja á þessu athygli og minna menn á þetta. Hvað varðar sjálft frumvarpið, nýjustu frestanirnar á sólskinslögunum frá 2005, er það nokkuð sem við eigum eftir að taka umræðu um í nefndum þingsins og síðar við 2. og 3. umr. Fyrir mitt leyti harma ég hve illa hefur verið staðið að framkvæmdunum við Landspítalann. Við hefðum viljað að þær væru í markvissari farvegi en þær eru, óvissa sem starfsemin býr við er að sjálfsögðu óþolandi þó að sá grunur læðist að manni að fyrir einkavæðingarríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem hótar einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, vaki að svelta opinberar heilbrigðisstofnanir enda hleypur núna framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um ganga Landspítalans og krefst þess að skorið verði niður um 2–3%. Það er sýnt að sú stofnun ein verður svelt um 0,5–1 milljarð á næsta fjárlagaári ef ekki kemur inn viðbótarfjármagn við 3. umr. fjárlaga.

En á sama tíma er hér allt á bullandi ferð í undirbúningi að nýjum spítala í gömlu heilsuverndarstöðinni. Hvað skyldi hún eiga að heita, annað en náttúrlega Heilsuverndarstöð Reykjavíkur ehf.? Í Garðabæ er líka að rísa nýr spítali er okkur sagt. Þar taka einkaaðilar ákvarðanir um framkvæmdir sem síðan verða kostaðar úr ríkissjóði. Ákvarðanirnar eru teknar utan veggja Alþingis, fjarri fjárveitingavaldinu sem síðan kemur til með að borga brúsann því að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin segja einum rómi: Að sjálfsögðu ætlum við að reka heilbrigðiskerfið úr sameiginlegum sjóðum. Það er viðkvæðið.

En ákvarðanirnar um framkvæmdir eru ekki lýðræðislega teknar. Að sjálfsögðu segir hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir: Það á að fjármagna heilbrigðisþjónustuna úr sameiginlegum sjóðum. Já, ég tek undir það. En eiga þá ekki ákvarðanir um fjárútlát einnig heima í þessum sal þannig að það sé eitthvert samræmi þarna á milli og samhengi? Það er það sem ég óska eftir og ég vek athygli á því að grunsemdir vakna um vafasaman ásetning Sjálfstæðisflokksins með fulltingi hins góða, nýja dansfélaga, Samfylkingarinnar, sem hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sagði að kynni að dansa vel. Nú væru runnir upp góðir tímar, hann hefði fundið sér pólitískan lífsförunaut sem léti vel að stjórn og væri áfjáður í að ganga einkavæðingarbrautina með Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Þetta sagði hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins á fundi með flokksmönnum sínum í Valhöll fyrr í haust. Hv. þm. Sjálfstæðisflokksins Ragnheiður Ríkharðsdóttir hristir ákaft höfuðið. Ég er bara að vitna í formann hennar flokks. (RR: Ég er alveg undrandi á hv. ræðumanni.) Hv. þingmaður er mjög undrandi á hv. ræðumanni þegar ég er að reyna að vekja athygli á því að það er verið að fresta framkvæmdum við opinbera heilbrigðisstofnun upp á 700 millj. kr. á sama tíma og ráðagerðir eru um að reisa einkasjúkrahús og verið að búa í haginn fyrir þau, annað í Reykjavík, hitt í Garðabæ, sem verða fjármögnuð úr opinberum sjóðum. Ég er að tala hér um lýðræðishalla. Ég er að segja að þarna er um að ræða ákvarðanir teknar úti í bæ af einkaaðilum á sama tíma og við skerum niður við almannaþjónustuna, við hin opinberu sjúkrahús.

Ef hv. þingmanni finnst ekki ástæða til að ræða þetta veit ég ekki hvert hlutverk hv. þingmaður ætlar sér í þinginu. Er það kannski bara að samþykkja óútfyllta tékka? Ég vek athygli á því að það er verið að reisa kröfur á hendur ríkissjóðs, á hendur skattborgaranna og ég stend upp fyrir hönd skattborgarans á Íslandi og fyrir hönd þeirra sem vilja varðveita lýðræðislega ákvarðanatöku. Það er ekkert fáfengilegt að efna til umræðu um slíkt. Ég mótmæli því. En ég ítreka að þetta eru ráðstafanir sem hér er talað fyrir sem við eigum eftir að fjalla um í nefndum þingsins og síðar við 2. og 3. umr. málsins.