135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[20:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.

Um næstu áramót fellur niður ákvæði til bráðabirgða í lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, þar sem gert er ráð fyrir því að innheimt sé sérstakt umsýslugjald sem nemur 0,01% af brunabótamati hverrar húseignar til að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að halda og þróa Landskrá fasteigna. Í frumvarpinu sem að hluta er byggt á niðurstöðum starfshóps sem fjármálaráðuneytið skipaði samkvæmt tilnefningu ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila á síðasta ári eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á tekjustofnum Fasteignamats ríkisins.

Frumvarpið byggist á eftirfarandi meginforsendum:

Í fyrsta lagi sé því verkefni nú lokið að koma á fót sérstakri skrá, Landskrá fasteigna. Í öðru lagi er gengið út frá að draga megi talsvert úr heildarkostnaði vegna reksturs Fasteignamats ríkisins þar sem fyrrnefndu verkefni er nú lokið. Í þriðja lagi er reynt að skipta kostnaði vegna reksturs Landskrárinnar niður á þá aðila sem hagsmuni hafa af notkun og vinnslu upplýsinga úr Landskrá fasteigna.

Í samræmi við framangreindar meginforsendur eru lagðar til eftirfarandi breytingar á tekjustofnum Fasteignamats ríkisins með frumvarpi þessu:

Í fyrsta lagi er lagt til að sveitarfélög greiði stofnuninni árlegt gjald fyrir afnot af fasteignamati og nemi gjaldið 0,007% af heildarfasteignamati í sveitarfélaginu ár hvert í stað 0,0056% eins og verið hefur. Þrátt fyrir að gjöld sveitarfélaga á landinu aukist um liðlega 50 millj. kr. á ári, þ.e. í um 260 millj. kr., er ekki talið að um útgjaldaaukningu verði að ræða fyrir sveitarfélögin sé horft til þess sparnaðar sveitarfélaga að geta hætt rekstri sérstakra álagningarskráa fasteignaskatta og fasteignagjalda og nýtt Landskrá fasteigna þess í stað.

Í öðru lagi er lagt til með frumvarpi þessu að vátryggingafélögin í landinu innheimti af húseigendum sérstakt brunabótamatsgjald af brunabótamati húseigna sem renni til Fasteignamats ríkisins. Brunatryggingarskylda fasteigna byggist einkum á að gæta hagsmuna húseigandans og jafnan hefur verið við það miðað að húseigandinn bæri ábyrgð á því að eign hans væri virt til brunabótamats og hann greiddi fyrir slíkt mat. Brunabótamatið er ekki einungis grundvöllur brunatryggingar fasteigna, heldur einnig grundvöllur viðlagatryggingariðgjalds og gjalds til ofanflóðasjóðs sem hvort tveggja er húseigendum til hagsbóta. Með hliðsjón af skiptingu kostnaðar af rekstri Fasteignamats ríkisins sem lögð er til grundvallar í frumvarpi þessu er lagt til að gjald þetta verði 0,0037% af brunabótamati húseigna. Á móti fellur þá alfarið niður 0,01% umsýslugjald af sama gjaldstofni sem húseigendur hafa einir þurft að bera á undanförnum árum. Þetta þýðir í raun að gjald húseigenda lækkar þar með um 63% frá því sem nú er.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpi þessu að gjald fyrir uppflettingu í Landskrá fasteigna og gjald fyrir ýmsa þjónustu Fasteignamatsins samkvæmt gjaldskrá renni til stofnunarinnar á grundvelli þess sjónarmiðs að þeir sem hagsmuni hafa af notkun upplýsinga og gagna á skrám stofnunarinnar greiði fyrir rekstur hennar.

Herra forseti. Þetta eru meginatriði frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.