135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[20:49]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég harma það mjög að forseti hafi ekki orðið við þeirri ósk minni að taka þetta mál ekki á dagskrá heldur óska eftir því að fjármálaráðherra drægi það til baka og ynni það betur miðað við þær forsendur sem ég gat um. Ég tel það mjög þýðingarmikið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að þau ákvæði sem ríki og sveitarfélög hafa orðið ásátt um í samkomulagi um samskipti sín á milli séu virt.

Ég rifja það aðeins upp í þessu samhengi að í umræðu um málefni sveitarfélaganna hér fyrr í dag bar á góma fjármálareglur sveitarfélaga þar sem rætt var um mikilvægi þess að sveitarfélögin settu sér fjármálareglur. Nú er það afskaplega óskilgreint hugtak í raun og veru og hvaða skuldbindingar fælust hugsanlega í slíkum reglum. En eitt veit ég og það er að í Danmörku eru ákvæði um slíkar fjármálareglur, þau eru fest í lög. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að setja neinar fjármálareglur um sveitarfélögin öðruvísi en með lögum. Í dönsku lögunum er ekki bara kveðið á um skyldur sveitarfélaganna í þessu samhengi heldur líka um skyldur ríkisins. Kostnaðarmat eins og það sem ég er hér að ræða um er lögfest þannig að í danska þinginu er ekki hægt að leggja fram frumvörp sem hafa í för með sér kostnað fyrir sveitarfélögin öðruvísi en að á bak við þau liggi þá kostnaðarmat. Í þeim dæmum sem við þekkjum annars staðar frá þar sem fjármálareglur hafa verið settar lúta þær ekki bara að skyldum sveitarfélaga, heldur einnig og ekki síður að skyldum ríkisins og hvernig það á að koma fram í þessum samskiptum.

Þess vegna er það skoðun mín að ef menn ætla að vinna áfram einhvers konar fjármálareglur verði það að gerast í frumvarpsformi og koma til umfjöllunar á Alþingi, um þetta verði að setja lög og þau geti ekki bara tekið til sveitarfélaganna heldur verði þá að kveða þar fast á um hvaða skyldur ríkið ber og að ríkið geti ekki lagt nýjar skuldbindingar á sveitarfélögin öðruvísi en að þeim fylgi öruggir tekjustofnar. Þetta vildi ég bara segja í upphafi um þetta mál.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér í dag — þegar ég varð þess áskynja að þetta frumvarp væri hér á dagskrá — var eins og hér kemur fram í greinargerð skipaður starfshópur af fjármálaráðuneytinu 26. október 2006 samkvæmt tilnefningu ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Efni frumvarpsins er byggt á niðurstöðum þessa starfshóps. Ég hef ekki getað nálgast niðurstöður starfshópsins, skýrsla starfshópsins virðist ekki liggja á lausu. Ég veit að í dag leitaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því við fjármálaráðuneytið hvort hægt væri að fá þau gögn. Þau fundust ekki og voru ekki aðgengileg hjá fjármálaráðuneytinu og ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort sá starfshópur sem þarna var skipaður hafi verið sammála um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Ég hlýt líka að spyrja vegna þess að ég veit að það var fyrirvari af hálfu fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum starfshópi: Hvers vegna er þessa fyrirvara ekki getið í greinargerð með frumvarpinu? Hann er efnislegt innlegg í þetta mál. Það skiptir máli þegar frumvörp eru lögð hér fram á Alþingi að þá sé engum upplýsingum af þessum toga haldið frá þinginu. Þingið á að fá upplýsingar um hvað þessi starfshópur lagði til, ég tala nú ekki um hafi starfshópurinn ekki verið einhuga og/eða ef skilað hefur verið séráliti eða fyrirvörum.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, var fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum starfshópi og hún skilaði fyrirvara sem ég ætla að fá að lesa hér, með leyfi forseta:

„Að mínu mati orkar mjög tvímælis að ganga á þessum tímapunkti frá endanlegum tillögum um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem lagt er til í skýrslunni. Ástæðan er sú að í frumvarpi til mannvirkjalaga, sem senn verður lagt fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að skráning í þágu byggingarfulltrúa og Byggingarstofnunar færist í enn meira mæli til Landskrár fasteigna en nú er. Þetta nýja verkefni kann að hafa umtalsverð áhrif á þau sparnaðaráform í rekstri FMR sem gert er ráð fyrir í skýrslunni.

Byggingarstofnun fær enn fremur sérstakan tekjustofn, byggingaröryggisgjald, sem er ætlað að fjármagna starfsemi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að byggja upp gagnagrunn um mannvirki fyrir Byggingarstofnun sem vistaður verði hjá FMR í Landskrá fasteigna og hlýtur Byggingarstofnun að taka þátt í stofnkostnaði og rekstri þess verkefnis. Byggingarfulltrúar sveitarfélaganna leggja til grunnupplýsingar í þann gagnagrunn en gert er ráð fyrir að sveitarfélög hafi aðgang að upplýsingum úr mannvirkjagrunni Landskrár fasteigna án greiðslu.

Miðað við núverandi aðstæður eru rök fyrir hækkun framlags sveitarfélaganna til reksturs FMR, úr 200 í 250 millj. kr. á ári, fremur veik og gerir Samband íslenskra sveitarfélaga fyrirvara við þá tillögu. Þar má sérstaklega nefna að þótt eignarskattur sé vissulega ekki lengur lagður á er fasteignamatið notað sem grundvöllur útreiknings á vaxtabótum til einstaklinga. Einnig liggur ekkert fyrir um hvenær á yfirstandandi kjörtímabili ríkisstjórnarinnar stimpilgjald verður aflagt en tekjur ríkissjóðs af þeim skatti hafa vaxið gríðarlega undanfarin ár.“

Þetta er fyrirvari sem fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga gerir við þetta nefndarálit. Eins og ég segi höfum við ekki hér í höndum þetta nefndarálit þannig að það er býsna snúið að ætla að fara að tjá sig mikið um það við þessa umræðu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég hefði talið eðlilegt að birta þá skýrsluna sem fylgiskjal með þessu frumvarpi.

Ég ítreka einnig spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra um hvort starfshópurinn hafi orðið sammála um þær niðurstöður sem hér liggja fyrir. Samkvæmt því sem kemur fram í þessum fyrirvara má ætla að kostnaðarauki sveitarfélaga geti orðið a.m.k. 50 millj. kr. á ári vegna þessara breytinga. Eins og við vitum hefur sá gjaldstofn sem hér er um að ræða tilhneigingu til þess að hækka og þar af leiðandi getur þessi kostnaðarauki orðið á komandi árum enn þá meiri en ég er hér að tala um vegna þess að framlagið er bundið við heildarfasteignamat í hverju sveitarfélagi. Ég hlýt því að velta þessu sérstaklega fyrir mér.

Ég ítreka að ekki var gerð sjálfstæð kostnaðarumsögn vegna þessa frumvarps sem á að sjálfsögðu að gera samkvæmt því samkomulagi sem ríki og sveitarfélög hafa gert sín í milli. Mér finnst það mjög miður, og eins og ég sagði áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta er þetta að gerast æ ofan í æ. Þetta er ekki til fyrirmyndar í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, alls ekki. Það má kannski minna á að í umræðunni um stöðu sveitarfélaganna í dag vakti einn hv. þingmaður stjórnarliðsins, 10. þm. Reykv. n. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, máls á því að þessi samskipti væru ekki í lagi og velti því fyrir sér hvort það væri tímabært að setja einhvers konar sáttasemjara til að hafa umsjón með samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ekki veit ég hvort hún átti þar kannski við ríkissáttasemjara, að hlutverk hans yrði víkkað út, eða hvort það ætti að skipa sérstakan gerðardóm eða hvað, en bara það að þingmaður úr stjórnarliðinu skuli velta þessu fyrir sér segir auðvitað meira en mörg orð um það að þessi samskipti eru ekki í lagi.

Samkvæmt því sem ég fæ best séð samkvæmt þessu er um að ræða kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin burt séð frá því sem segir hér í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins þar sem því er haldið fram að það sé hæpið að um raunverulega útgjaldaaukningu verði að ræða hjá sveitarfélögunum. Þar er vísað til þess að um sé að ræða breytingar á skráningu og mati fasteigna sem muni hafa í för með sér einhverja hagræðingu fyrir sveitarfélögin. Ég kannast ekki við að það hafi sérstaklega verið til umræðu þegar umræðan stóð um Landskrá fasteigna, að það ætti að hafa einhver áhrif á sveitarfélögin, nema síður væri.

Fyrst og fremst geri ég hér við 1. umr. athugasemdir við það hvernig frumvarpið er borið fram og hvernig það er matreitt inn í þingið. Ég get að sjálfsögðu ekki farið í neina mikla efnislega umræðu um frumvarpið sjálft vegna þess að mér finnst vanta allt sem við á að éta í þetta frumvarp, þ.e. þær tillögur sem starfshópurinn vann. Ég hefði talið mikilvægt að þær hefðu legið hér fyrir þannig að við gætum farið í efnislega umræðu en úr því sem komið er verður hún auðvitað að bíða umræðu í nefnd og 2. umr. um frumvarpið.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, virðulegur forseti, mér finnst mjög þýðingarmikið að fyrir liggi kostnaðarmat sem byggir á því samkomulagi sem ríki og sveitarfélög hafa gert um að kostnaðarmat skuli unnið fyrir frumvörp sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Ég hlýt að árétta, enda þótt forseti hafi ákveðið að frumvarpið væri þinglegt og rétt fram borið og viljað taka það til 1. umr., þessar áhyggjur mínar af málinu og spyrja hvort ekki sé hægt að tryggja það í öllu falli — það er eiginlega lágmarkskurteisi — að í þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar verði kallað eftir viðhorfum Sambands íslenskra sveitarfélaga, kallað eftir kostnaðarmati, hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélögin og hvernig þá eigi að mæta því ef það reynist vera viðbótarkostnaður.

(Forseti (MS): Vegna orða sem hv. þingmaður beindi til forseta mun forseti koma því á framfæri við viðkomandi nefnd sem mun fjalla um þetta mál að óskað hafi verið eftir viðkomandi upplýsingum.)