135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:01]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur nokkrar athugasemdir við frumvarpið og framlagningu þess. Þá er auðvitað fyrst til að nefna að frumvarpið er frumvarp fjármálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar en ekki starfshópsins eða nefndarinnar sem að því vann. Eins og kom fram í framsögunni er frumvarpið ekki nákvæmlega eins og starfshópurinn skilaði af sér og ber að nefna að í þeirri greinargerð sem starfshópurinn skilaði af sér var sérálit og fyrirvari frá fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Mér þykir miður ef hv. þingmaður hefur ekki getað nálgast skýrsluna í ráðuneytinu í dag en henni verður að sjálfsögðu komið til nefndarinnar óski hún eftir því. Ástæðan er kannski sú að sá starfsmaður í ráðuneytinu sem hefur farið með þessi mál er í fríi og þess vegna hafa aðrir ekki getað fundið skýrsluna. (Gripið fram í.)

Varðandi hins vegar það að ekki sé kostnaðarmat er greinargerð frumvarpsins bara eitt kostnaðarmat. Greinargerðin og frumvarpið fjalla um hvernig eigi að skipta kostnaði og skilmerkilega er gerð grein fyrir því hvernig sá kostnaður muni skiptast í framtíðinni, þar á meðal á sveitarfélögin, og komist að þeirri niðurstöðu að þar sé ekki um kostnaðarauka að ræða. Hv. þingmaður fjallaði meira að segja um þennan hluta greinargerðarinnar hvað eftir annað í ræðunni. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hann er að fara því að þessu er vel til skila haldið.

Síðan varðandi meint tengsl við óframkomið frumvarp til mannvirkjalaga er það bara þannig að þau lög sem um þetta gilda renna út um áramótin þannig að við þurfum að grípa til einhverra ráða. Og mannvirkjafrumvarpið er ekki komið fram, hvað þá að það sé (Forseti hringir.) orðið að lögum, hvað þá að við vitum hvenær þau lög munu taka gildi.