135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi líka að stofnunin ætti að draga meira saman í rekstri. Hún á að spara miklu meira en 70 millj., 10%. Þegar hún hættir að stofna skrána, þegar stofnkostnaðinum lýkur, trúi ég ekki öðru en að reksturinn ætti að dragast mikið saman. Auk þess tel ég að aðilar sem nýta skrána, eins og t.d. sýslumenn og aðrir sem voru áður með mannskap í að skrá fasteignabækur, eigi að borga sinn skerf. Nú þarf ekki lengur handvirkar skrár, nú er þetta allt sjálfvirkt.

Ríkið ætti þá að borga einhvern hluta af sparnaðinum. Sveitarfélögin hafa líka óskaplega mikinn sparnað af þessu. Ef við reiknuðum dæmið, hvað þau hafa sparað mikið á þessari fjárfestingu fasteignareigenda, íbúðareigenda, munu þau komast að því að þau hafa grætt óskaplega mikið á þessu, sveitarfélögin, í því að leggja á gjöld. Margir hafa sparað á þessu og ég vil að þeir aðilar taki við rekstrinum þegar fasteignareigendur eru búnir að stofna þessa fínu skrá.