135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

skráning og mat fasteigna.

289. mál
[21:16]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa talað nægilega skýrt. Áður vann her manns við að skrá þinglýsingabækur hjá sýslumannsembættunum. Mér skilst að sú vinna hafi minnkað allverulega með tilkomu Landskrár fasteigna. Áður voru sveitarfélögin í miklum vandræðum með að leggja á fasteignagjöld. Mér skilst að sú vinna sé miklu léttari og auðveldari en áður var.

Mér finnst að setja ætti dæmið upp og reikna út hvað þeir hafa hagnast mikið á þessu og greiða inn í þessa stofnun sem því nemur þannig að fasteignaeigendur haldi ekki áfram að greiða gjald og leigu af eign sem þeir hafa sjálfir staðið undir alfarið. Það stóð alltaf til að af yrði mikil hagræðing. Hún hefur orðið. Ég var ekki að fara í felur með það að ég tel að sveitarfélögin megi gjarnan fara dýpra í vasann hjá sér, jafnvel dómsmálaráðuneytið mætti borga hluta af þessu. En ég geri sérstaklega kröfu til þess að stofnunin dragi saman í rekstri því að það er ekki einleikið, þegar hún er búin að fá fjárfestingarframlög í sjö ár í staðinn fyrir fjögur, af síhækkandi gjaldstofni, að hún geti ekki dregið saman nema um 10% þegar stofnkostnaðinum er lokið.

Þetta er eins og menn væru að byggja hús og svo héldu menn áfram að greiða kostnað, sem nemur því að byggja húsið, alla tíð eftir að húsið er risið. Það er búið að byggja þessa skrá, Landsskrá fasteigna, og þá er óeðlilegt að íbúðareigendur haldi áfram að greiða fyrir það.