135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:55]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að þrátt fyrir að mismunandi aðferðum sé beitt við uppfærslu á þeim tölum sem um er að ræða þá muni barnabæturnar rýrna. Barnabæturnar eru hækkaðar miðað við þá vísitöluhækkun sem er í frumvarpinu sem miðar við breytingar á meðalverðlagi á milli ára. Það sem er að gerast þá núna er að breytingin er frá meðaltalsverðlagi ársins 2007 til meðaltalsverðlags ársins 2008 eins og því er spáð. Hins vegar miðast hækkun persónuafsláttar við vísitöluhækkun síðustu 12 mánaða frá áramótum að telja. Þarna er einfaldlega verið að beita mismunandi aðferðum og þetta endurspeglar reyndar mismunandi aðferðir sem notaðar eru þegar verið er að mæla verðbólguna. Það má segja að þessi 12 mánaða aðferð sem er notuð við persónuafsláttinn endurspegli þá aðferð sem Seðlabankinn gjarnan notar þegar hann er að mæla verðbólguna þegar hann horfir 12 mánuði aftur í tímann, í baksýnisspegilinn eins og oft er sagt. Hins vegar þegar verið er að nota breytingar á meðaltalsverðlagi á milli ára þá er það meira í takt við þær verðlagsbreytingar sem jafnan eru notaðar þegar verið er að fjalla um fjárlagafrumvarpið og vinnu við það.

Ástæðan fyrir því að svona er fyrirkomið varðandi persónuafsláttinn er sú að þetta var niðurstaða í samkomulagi sem gert var við Alþýðusambandið á sínum tíma þegar þessari skipan var komið á. Sjómannaafslátturinn tengist mjög persónuafslættinum og þar sem hann hefur ekki alltaf reglulega hækkað þá þótti rétt að nota sömu aðferð við hann, svo ég útskýri þetta, frú forseti, eins og ég best get.