135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjarskipti.

305. mál
[22:32]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum.

Samkvæmt fjarskiptalögum skulu allir notendur eiga rétt á alþjónustu fjarskipta óháð staðsetningu og er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að fela fjarskiptafyrirtæki, einu eða fleirum, að bjóða slíka þjónustu. Telji fjarskiptafyrirtæki sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þeirrar alþjónustukvaðar sem á það er lagt er því heimilt að sækja um fjárframlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu en í þann sjóð greiða öll fyrirtæki sem reka fjarskiptanet eða þjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu sína.

Með því frumvarpi sem hér er lagt fram er lögð til breyting á 3. mgr. 22. gr. laganna. Með breytingunni er hlutfalli þessa jöfnunarsjóðsálags sem fjarskiptafyrirtækin greiða í jöfnunarsjóð breytt úr 0,12% í 0,65% af bókfærðri veltu. Þessi breyting er í samræmi við tillögur Póst- og fjarskiptastofnunar en stofnuninni ber samkvæmt lögum að gera tillögu um breytingu á jöfnunargjaldi í samræmi við áætlaða fjárþörf sjóðsins. Að þessu sinni er verið að bregðast við auknum útgjöldum úr sjóðnum samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar í fjarskipta- og póstmálum en í honum var kveðið á um greiðslu ríflega 163 millj. kr. til Símans hf. vegna alþjónustukvaðar fyrirtækisins.

Núverandi hlutfall álagningargjalds tekur hins vegar mið af fyrri fjárframlögum úr sjóðnum vegna Neyðarlínunnar hf. sem hafa verið 25–30 millj. kr. árlega. Áætlað er að hækkuð álagningarprósenta muni skila um 208 millj. kr. á ársgrundvelli en sjóðurinn er nú neikvæður um 4 millj. kr. Þá er ekki gert ráð fyrir frekari útgjöldum vegna krafna um greiðslur úr sjóðnum vegna alþjónustu fyrr en árið 2006–2007. Hækkun gjaldsins mun leggjast á veltu ársins 2008 og koma til greiðslu á árinu 2009. Af ofangreindu má sjá að breytingar á jöfnunarsjóðsgjaldi eru nauðsynlegar til að tryggja jafnvægi í starfsemi sjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.