135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:44]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér er talað um tvö mál í senn og ég veit varla um hvort ég á frekar að tala. Vissulega hef ég miklar áhyggjur af samgöngum til Vestmannaeyja og tel þær algerlega óviðunandi en ég kýs þó að víkja frekar orðum að því máli sem tekið hefur morguninn allan hjá mér, þ.e. umræðu um sölu eigna á Keflavíkurflugvelli. Vissulega má segja að margt hafi vel tekist hjá því félagi sem að þeirri starfsemi stendur, Kadeco, og í raun og veru margt gengið miklu betur en menn þorðu að vona. Sá grundvöllur sem hins vegar er lagður undir málið af hæstv. fjármálaráðherra og af ríkisstjórninni er allur mjög afleitur. Fjárlaganefnd stóð frammi fyrir því í morgun að úrskurða með óbeinum hætti að fjármálaráðherra hefði ekki farið að lögum í málinu. Þetta er algert fádæmi. Málið var afgreitt á þeim forsendum út úr fjárlaganefnd í morgun að samningur sá sem fjármálaráðherra gerði við Kadeco um allríflega söluþóknun, söluþóknun sem á sér reyndar fá fordæmi þar sem samið var með sérstæðum hætti milli ríkisins og einkahlutafélagsins Kadeco sem er reyndar í eigu ríkisins — um að þetta einkahlutafélag fengi 100% söluþóknun, herra forseti. Það er mjög sérstætt.

Þegar svo fjárlaganefnd þarf að fjalla um hlutina með þeim hætti eins og þessi samningur sé ekki til eða þessi samningur hæstv. fjármálaráðherra sé markleysa þykir mér stjórnsýslan á Íslandi vera farin að líkjast einhverju sem ég hélt að við þyrftum ekki að sjá á 21. öldinni. Hringlandinn er slíkur (Forseti hringir.) og mér er mjög til efs að þetta ráðslag standist nokkur lög.