135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli – samgöngur til Eyja.

[14:00]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi nefna, vegna umræðunnar um Vestmannaeyjar, að nú er svo komið að Eimskip mun sigla á morgun og Samskip á föstudag þannig að vöruflutningar eru tryggðir alla vega þessa tvo daga. Það segir vitaskuld meira en mörg orð um í hvaða ólestri samgöngumál eru og dregur einnig fram, og ég vil taka undir með hv. þm. Árna Johnsen, að afar mikilvægt er að strax verði reynt að finna nýtt skip til að brúa bilið sem notað verður þar til betri samgöngur komast á. Ég held að það sé nauðsynlegt og við getum ekki skilið eftir fjögur þúsund manna samfélag með svona samgöngur, það er algjörlega fráleitt.

Ég vil einnig nefna, vegna umræðunnar sem farið hefur fram um fjárlögin og fjárlagagerðina, að það er fjárlaganefndar að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og fjárlagagerðinni, hvernig hún er framkvæmd. Þar sem hv. formaður fjárlaganefndar er ekki viðstaddur umræðuna finnst mér mikilvægt að fram komi að Ríkisendurskoðun mun koma á fund fjárlaganefndar og gera grein fyrir þeim samgöngum sem rætt hefur verið um. Ríkisendurskoðandi telur að ekki sé hægt að leggja samningana fram vegna viðskiptahagsmuna þriðja aðila, um það get ég ekki fullyrt. Á hinn bóginn er ljóst að mikilvægt er að Alþingi fái aðgang að samningunum, að það geti kynnt sér þá og sinnt því eftirlitshlutverki sem það hefur og á að hafa. Ég trúi ekki öðru og ég veit ekki betur en að tryggt verði að alþingismenn fái þann aðgang. Hvort sem fundurinn í fjárlaganefnd verður í dag, í kvöld eða í fyrramálið er aðalatriðið að hann verði haldinn áður en umræðan fer fram á morgun svo að alþingismenn geti komið til umræðunnar upplýstir og veitt það aðhald sem þeim ber. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu mun meiri hlutinn stuðla að því að svo geti orðið.