135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:09]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil lýsa gleði minni yfir því að hv. þm. Bjarni Harðarson komi hingað og lýsi því yfir að hann sé hvítskúraður sem engill. Það verður hins vegar ekki sagt um flokk hv. þingmanns í málinu. Hv. þingmaður er bóksali og hefur sennilega selt mörg hundruð bækur eftir núverandi formann Framsóknarflokksins. (BjH: Tvær.) Ef hann hefði fyrir því að lesa eitt eintak af þeim kæmist hann að því að þar er því lýst nákvæmlega hvernig þingflokki Framsóknarflokksins, og þinginu eftir atvikum, var stýrt, undir forustu Framsóknarflokksins, gegn vilja eigin þingmanna. Ég gæti nefnt þrjú mál sem koma þar fram og það er formaður Framsóknarflokksins sem lýsir því.

Framsóknarflokkurinn á alveg jafnmikla aðild að því og Sjálfstæðisflokkurinn sem stjórnarandstaðan lýsir nú sem sérstöku hneyksli á Keflavíkurflugvelli. Ef þar er eitthvað óhreint, eins og menn halda fram, á Framsóknarflokkurinn alveg jafnmikla sök á því. Allt málið var undirbúið með jafnríkum hætti af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Mér finnst að rétt eigi að vera rétt. Ég get vel skilið að hv. þingmenn vinstri grænna og frjálslyndra komi hingað með svipuna á lofti en mér er nóg boðið þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma og ætla sér að tyfta ráðherra fyrir það sem þeir hófu sjálfir. Var það ekki forveri hæstv. utanríkisráðherra sem gerði drög að þessum samningum? (Gripið fram í.)

Já, þetta er um fundarstjórn forseta því að auðvitað átti forseti þingsins að koma eins og sleggja í hausinn á þessum hv. þingmanni. (Gripið fram í.)

Svo langar mig aðeins til að segja við hv. þm. Jón Bjarnason, sem nú er að vísu horfinn úr salnum: Menn verða að vera sanngjarnir. Menn verða að hafa ekki aðeins frelsi til sóknar heldur líka frelsi til varnar. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra hafi sjálfsagðan rétt til að koma hingað, leggja staðreyndir á borðið og bera hönd fyrir höfuð sér þegar hann er borinn þeim sökum að halda upplýsingum frá fjárlaganefnd og þingmönnum. Hæstv. fjármálaráðherra er borinn þungum sökum um að virða ekki þingsköp og jafnvel ekki sjálfa stjórnarskrána um upplýsingarétt þingmanna. Hvað er þá að því að hæstv. fjármálaráðherra komi og skýri út í þremur liðum hvernig þingmenn í fjárlaganefnd eiga aðgang að því? Það er ekkert að því. Hugsanlegt er að af því tilefni hefði forseti þingsins líka átt að koma og banka, svolítið a.m.k., í kollinn á hv. þm. Jóni Bjarnasyni því að mér fannst ekki sanngjarnt af honum að koma og bera fram ásakanir á hæstv. fjármálaráðherra og vilja síðan meina honum réttarins til þess að verja sig.