135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef þá sterku tilfinningu að verið sé að reyna að drepa á dreif grafalavarlegu máli sem vissulega snýr að fundarstjórn forseta og vinnulagi í þinginu.

Á morgun er fyrirhugð umræða um þróunarfélagið og samninga sem það hefur gert um sölu á ríkiseignum. Hæstv. forsætisráðherra mun þá flytja þinginu skýrslu. Ég geri ráð fyrir því að hann muni hafa aðgang að öllum gögnunum sem verið hafa til umræðu. Krafa okkar er sú að við njótum sama réttar, að við fáum einnig aðgang að þessum gögnum.

Ég harma hnjóðsyrði hæstv. fjármálaráðherra í garð þeirra sem leyfa sér að gagnrýna ríkisstjórnina og þá einnig hans ráðuneyti og stjórnsýsluna almennt. Við skulum ekki missa sjónar á meginmálinu sem er til umræðu. Gerður var samningur um sölu á ríkiseignum upp á mjög háar fjárupphæðir. Alþingismenn hafa óskað eftir að fá aðgang að þessum samningum, að samningarnir verði lagðir fyrir þingnefndir, efnahags- og skattanefnd þingsins, og verði lagðir fyrir fjárlaganefnd þingsins. Þetta er mergurinn málsins og um það er okkur neitað. Ég vara við því að við látum ráðherra, fulltrúa ríkisstjórnarinnar eða stjórnarmeirihlutann drepa þessu máli á dreif. Það er mergurinn málsins.