135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vona og tel reyndar að sú umræða sem hér hefur farið fram hljóti að teljast heyra undir liðinn um fundarstjórn forseta en verið er að ræða um samskipti forseta, Ríkisendurskoðunar og framkvæmdarvalds eða samskipti Alþingis og framkvæmdarvalds í gegnum milliliði, eftir atvikum, eins og forseta þingsins eða Ríkisendurskoðun.

Ég held að það séu ekki sterk rök í máli af þessu tagi að beiðni um viðbótarupplýsingar í málum komi fram þegar líður á umfjöllun nefnda um þau, ekki þegar þannig háttar til að með hverjum deginum sem líður koma fram nýir hlutir í sambandi við málið sem allir rökstyðja að þörf sé fyrir tæmandi rannsókn á því og að allar upplýsingar verði að koma upp á borðið. Það gerist iðulega að mönnum er ekki ljóst í byrjun hversu alvarlegir hlutir kunna að vera á ferðinni og hver ástæða er til að krefjast gagna um mál.

Ég vil leggja á það mikla áherslu, herra forseti, að Alþingi og þingmenn og þingnefndir geta að sjálfsögðu krafið ráðuneyti og framkvæmdarvaldið um gögn milliliðalaust og framkvæmdarvaldið á þá að afhenda þau gögn. Ég spyr: Síðan hvenær varð það þannig að Ríkisendurskoðun sé milligönguaðili eða einhver póstur þar á milli? Er það ekki þannig að Alþingi hefur það hlutverk, eitt af sínum veigamestu, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald? Því ber, samkvæmt lögum og ákvæði í stjórnarskrá, að bera yfirábyrgð á endurskoðun fjárreiðna ríkisins, opinberra stofnana og opinberra fyrirtækja. Sú ábyrgð liggur á herðum Alþingis og síðan er því búinn farvegur og fundinn staður, m.a. í lögum um Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi en ekki framkvæmdarvaldið, sem starfar óháð í skjóli Alþingis en ekki framkvæmdarvaldsins.

Ég held, virðulegur forseti, að ærin ástæða sé til þess að forsætisnefnd, sem á vissan hátt fúnkerar jafnframt sem stjórn Ríkisendurskoðunar, fari í framhaldi af þessari umræðu og því sem hér er komið upp yfir eftirfarandi atriði: Með hvaða hætti hafa þessir hlutir verið að þróast á undanförnum missirum? Hvernig eru boðleiðir að verða í þessum efnum ef það er orðið svo að menn telja sjálfsagt að skjóta sér á bak við Ríkisendurskoðun þegar þeir draga lappirnar eða tregðast við að láta Alþingi fá gögn? Það er greinilega orðin tilhneiging til þess hjá ráðuneytunum að nota Ríkisendurskoðun eins og einhvern skjöld fyrir sig í þeim efnum að sinna þeirri sjálfsgöðu skyldu sinni að láta Alþingi, og ekki síst nefnd eins og fjárlaganefnd, refjalaust fá öll gögn sem varða opinber fjárhagsmálefni.