135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[14:21]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, að gera verulegar athugasemdir við fundarstjórn forseta, að hann skuli heimila efnislegar umræður um mál sem allir vita að verður á dagskrá á morgun. Bæði var það að forsætisráðherra hafði óskað eftir því að fá að flytja munnlega skýrslu um Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli, sú ósk kom fram á fundi forseta með þingflokksformönnum á mánudaginn var. Öllum þingflokkum hefur því verið það ljóst síðan á mánudaginn að fara ætti fram umræða og um það var samið hvernig hún færi fram á morgun.

Varðandi ásakanir um starf þingnefnda hefur mér blöskrað fullkomlega. Menn hafa verið að ásaka þá sem sitja í þingnefndum, þá væntanlega fyrir hönd meiri hlutans, fyrir slæleg vinnubrögð, fyrir að hafa haldið eftir gögnum og hvað eina. Þetta er ekki við hæfi, hæstv. forseti. Það er nú einu sinni svo að Ríkisendurskoðun heyrir undir Alþingi og það er fullkomlega eðlilegt að Ríkisendurskoðun sé sá aðili sem þingmenn treysti á til upplýsingagjafar. Mér hafa fundist þær ásakanir sem komið hafa fram á Ríkisendurskoðun býsna ómaklegar hvað þetta varðar. Eftir því sem ég þekki til starfa Ríkisendurskoðunar hafa hlutirnir alls ekki verið með þeim hætti sem hér hefur verið lýst heldur miklu frekar að Ríkisendurskoðun hefur talið það vera hlutverk sitt að standa algjörlega með þinginu og veita þær upplýsingar sem þingmenn hafa óskað eftir.

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki góður bragur á þessari umræðu. Ég óska eftir því að henni fari að ljúka eins og hún hefur farið fram hér í dag.