135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið, ég var að verða úrkula vonar um að komast að í dag. Tilefni þeirrar fyrirspurnar sem ég hef lagt fyrir hæstv. forsætisráðherra má rekja til síðasta kjörtímabils þegar við fórum, nokkur hópur þingmanna, ítrekað fram á að fá skýrslu um fátækt barna á Íslandi. Eftir að núverandi hæstv. forsætisráðherra tók við embætti skilaði hann í þingið ágætri skýrslu um það efni sem lögð var fram fyrir að verða ári, hygg ég, og sýndi okkur fram á að í okkar efnaða og að mörgu leyti sterka samfélagi væru á fimmta þúsund börn undir fátæktarmörkum OECD.

Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að sú niðurstaða skýrslunnar fyrir árið 2004 hafi komið fólki í öllum flokkum óþægilega á óvart og vakti umræðu um það hvort við hugum ekki nægilega vel að stöðu efnalítilla barnafjölskyldna, hvort við getum gert betur í því efni. Ég held að við hljótum öll að hafa metnað til þess þegar lífskjör barnafjölskyldna og einkum þeirra efnalitlu eru annars vegar að þá sé mikilvægt að við séum líka númer eitt. Ég lofaði þá að ganga eftir því að við fylgdumst áfram með þessu og fengjum tölur fyrir árin eftir 2004, 2005 og 2006, vegna þess að til þess að ræða málið og grípa til aðgerða er grundvallaratriði að þetta sé mælt en þetta hafði ekki verið mælt árlega áður en skýrslan var gerð.

Ég hef því beint fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um það hvernig þessar tölur líti út fyrir árin 2005 og 2006, hve hátt hlutfall barna búi undir skilgreindum fátæktarmörkum OECD og hversu mörg þau eru til að sjá hvort þessi staða hafi eitthvað batnað hér. Síðan er spurt um samanburð við önnur Norðurlönd sérstaklega, því að það kom í ljós að innan OECD stóðum við býsna vel. Við vorum í fyrsta flokki þar ásamt öðrum Norðurlöndum. Það kom hins vegar í ljós að við vorum umtalsverðir eftirbátar annarra Norðurlanda í því að ná fátækum barnafjölskyldum upp fyrir fátæktarmörkin. Þeir virtust ná miklu betri árangri í því með skatta- og bótakerfum og því er um það spurt. Loks inni ég hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort fyrirhugaðar séu aðgerðir á kjörtímabilinu sem muni bæta fyrirsjáanlega hag þessara fjölskyldna eða hvort hann telji koma til álita að grípa til sérstakra aðgerða í því skyni, t.d. ef og þegar svigrúm gefst til frekari skattalækkana á kjörtímabilinu.