135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

störf stjórnarskrárnefndar.

187. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Fram kom í fjölmiðlum að formlega séð er svokölluð stjórnarskrárnefnd á lífi undir forustu Jóns Kristjánssonar sem var þingmaður og ráðherra um langt skeið. Nefndin hefur ekki starfað upp á síðkastið og formaðurinn segir í fjölmiðlum að hann bíði eftir að mörkuð verði stefna um næstu skref. Allir flokkar eiga fulltrúa í þessari nefnd og fram kemur í fréttaviðtalinu við formanninn að breytingarnar á forsetaembættinu hafi verið eitt af markmiðum stjórnarskrárnefndar en ágreiningur milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi komið veg fyrir að neinu væri breytt. Flokkarnir voru stál í stál vegna neitunarvaldsins, segir formaðurinn.

Ljóst er að fleiri mál voru þung inni í nefndinni fyrir utan forsetakafla hennar. Menn höfðu áhuga á að skoða dómstólakaflann að einhverju leyti. Auðlindaákvæðinu var sérstaklega vísað til nefndarinnar. Ekki náðist samstaða þar og áhugi var á að skoða yfirþjóðlegt vald og var það líka sett til nefndarinnar að skoða varðandi breytingar á þingsetu ráðherra, þ.e. að skilja á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds þannig að ráðherrar væru ekki þingmenn á sama tíma en það fyrirkomulag stangast að vissu leyti á við gildandi stjórnarskrá eins og hún hljómar.

Nú er liðið hálft ár frá kosningum og ný ríkisstjórn hefur ekki gefið nein merki um það sem taka á við í nefndarstarfinu. Því tel ég mikilvægt að forsætisráðherra upplýsi hvert stefnir. Starfið er mikilvægt og ég tel ekki að við getum látið reka á reiðanum hvað það varðar. Halda verður vinnunni áfram með einhverjum hætti. Ég vil draga inn í umræðuna að hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur tjáð sig nokkuð bratt í haust varðandi starfið og hefur sagt að hún vilji breytingar á stjórnarskránni, breytingar sem auðveldi þátttöku í yfirþjóðlegu samstarfi svo sem innan Evrópusambandsins, og muni beita sér fyrir þeim. Hæstv. ráðherra segir að best sé að gera það fyrir lok kjörtímabilsins þannig að hægt sé að kjósa um þær í næstu alþingiskosningum.

Ég deili þeim hugleiðingum hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel að gera þurfi breytingar á stjórnarskránni, ekki bara út af Evrópumálunum heldur út af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hugsanlega fleiri alþjóðasamningum sem munu krefjast framsals á yfirþjóðlegu valdi að einhverju leyti. Þannig er nútíminn í hinum hnattræna heimi þannig að ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvernig er staða mála?