135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:31]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ísland hefur sett atvinnu og atvinnuþátttöku almennings í öndvegi, „atvinna fyrir alla“. Vinnan er móðir hamingjunnar. Ísland var í 1. sæti 2005 í lífsgæðamati Sameinuðu þjóðanna. Öll okkar skólaganga og menntun snýr að því að efla einstaklinginn til að takast á við ný og stór verkefni í lífinu. Við eigum að byggja Ísland allt. Höfuðborgin og landsbyggðin eru systur. Við eigum sömu rót og sömu tilfinningar. Minnumst þess að þegar hér var atvinnuleysi í lok 7. og 10. áratugar síðustu aldar var Reykjavík ekki nein endastöð. Íslendingar fluttu burt frá Íslandi.

Eftir mörg öflug ár í atvinnuuppbyggingu búum við Íslendingar í mögnuðu hátækni- og þekkingarsamfélagi. Við höfum afl og áræði, bæði í útrás og við að auka tækifæri og innlenda uppbyggingu. Ísland er langfremsta land veraldar í nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum með yfir 70% en Noregur er í 2. sæti með 36%. Fast að 100% af framleiddri orku á Íslandi telst græn. Einstakt. Samt gengur umræðan hér út á það að við séum náttúrusóðar.

Hér hefur verið mikið um ál á síðustu árum. Ál er hinn létti málmur sem er eftirsóttur í flugvélar, bíla og fleira. Gjaldeyrisstoðir Íslendinga eru nú orðnar fjórar, voru eingöngu byggðar á sjávarútvegi fyrir stuttu síðan. Nú er það sjávarútvegur, ferðaþjónusta, iðnaður og fjármálastarfsemi. Álver á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun hafa breytt atvinnulífi á Austurlandi. Þessi fyrirtæki munu, eins og Búrfellsvirkjun í dag, mala gull í lófa komandi kynslóða.

Ríkisstjórnin tók afdrifaríka og ranga ákvörðun í sumar um niðurskurð í þorskveiðum, gekk allt of langt að mínu mati. Nú blasir það við að tvöföldun á framleiðslu rafmagns og stóraukinn þáttur iðnaðar í útflutningi á næstu árum gerir það að verkum að lífskjör Íslendinga verða góð áfram. Sjávarafurðir munu seljast fyrir 119 milljarða árið 2008 en álframleiðsla fyrir 135 milljarða. Þetta eru tíðindi. Þetta segir þá sögu að ákvörðun um álver á Reyðarfirði og byggingu Kárahnjúkavirkjunar var rétt séð út frá hagsmunum Íslendinga.

Síðan eigum við enn fremur önnur og margvísleg tækifæri í nýsköpun atvinnulífs. Við eigum því að fara hægar og gá að okkur í fórn á landi og náttúruauðlindum. Þetta hefur Landsvirkjun nú staðfest með nýrri stefnumótun. Rafmagnið og jarðhitinn eru okkar olía, og með náttúruna ber að fara af fullri gát. Það stóð til að sækja orkuna í fallvötn Austurlands og leiða hana suður í ljótum og náttúruspillandi staurum og línum. Frá því var horfið sem betur fer. Þótt þessi mikla og umdeilda virkjun og álver á Austurlandi hafi á síðustu árum lagt grunn að öflugu Austurlandi er samt mikilvægt við lok framkvæmdanna að fylgja þeim eftir með fjölbreyttum umbótum fyrir austan í jarðgöngum, í samgöngubótum sem og öðrum atvinnutækifærum. Um leið og ég óska Austfirðingum og Íslendingum öllum til hamingju með þann uppgang sem nú blasir við á Austurlandi, bæði álverið á Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun sem er stærsta mannvirki Íslandssögunnar, vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra:

Eru uppi áform af hálfu ríkisstjórnarinnar um að fylgja uppbyggingu á Austurlandi eftir? Liggja einhver ný áform á borði hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnar? (Gripið fram í.)

Það ríkir bjartsýni á Miðausturlandi, en íbúar norður- og suðursvæða þurfa sannarlega á því að halda að stjórnvöld og Byggðastofnun taki á með heimamönnum. Byggðamál standa miklu betur en þau gerðu fyrir 10 árum. Það er sókn á mörgum landsvæðum um allt Ísland. Samt sem áður er staðan sú að við þurfum að taka á með afskekktum byggðasvæðum, bæði til að jafna og bæta lífskjör fólksins sem þar býr. Það munar um litlar upphæðir, það munar um átak í atvinnusköpun, það munar um það ef stjórnvöld taka á með sveitarstjórnunum heima fyrir og atvinnulífinu, þá munu byggðirnar rísa á mörgum stöðum til þeirrar sóknar sem Austurland hefur gert. Við skulum gera okkur grein fyrir því að fyrir 12 árum voru íbúðarhús einstaklinganna í mörgum þorpum á Austurlandi verðlaus. Fólkið var á förum. Nú eru margir að snúa heim til sinna byggða þar sem hjarta þeirra sló, vill slá og slær áfram. Hér hefur orðið mikil breyting, og sannarlega er ég stoltur af því að Framsóknarflokkurinn var mikill gerandi í þessum framkvæmdum. Hann var í ríkisstjórn og lagði grunn að þeim. Hann er í hlutverki (Forseti hringir.) annaðhvort móðurinnar eða föðurins í þeim stóru verkum sem nú hefur verið skilað til fólksins.