135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:36]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Pólitískur ættbogi hv. þingmanns er að sönnu frjósamur og vissulega er það rétt að það var flokkur hv. þingmanns sem átti töluverðan þátt í því að ráðist var í hinar miklu framkvæmdir á Austfjörðum. Hins vegar var króginn varla eingetinn. Ég man ekki betur en að þrír, eftir atvikum fjórir, flokkar hafi stutt þessa framkvæmd á sínum tíma.

Ég tel að tími sé kominn til þess að þeim deilum linni sem hafa staðið um þessa miklu framkvæmd. Á sínum tíma voru þær mjög harðar og mjög erfiðar, en þær leiddu eigi að síður til gagnrýninnar umræðu um umhverfis- og náttúruvernd, leiddu til þess að þjóðin tók þau mál miklu nær hjarta sínu en áður. Það er a.m.k. jákvætt sem út úr þeirri umræðu kom.

Sömuleiðis, herra forseti, vil ég líka segja það vegna þess að hv. þingmaður orðaði það svo að Íslendingar lægju undir því ámæli að vera náttúrusóðar að ég er a.m.k. allt annarrar skoðunar. Sömuleiðis vil ég að það komi fram að það er mín skoðun að einmitt átökin um Kárahnjúka hafi orðið til þess að hugmyndin um Vatnajökulsþjóðgarð varð að veruleika. Því vil ég halda hér til haga. Það var einmitt sá maður sem hv. þingmaður eyðir töluverðum parti af sinni góðu bók í að skrifa um sem átti meiri þátt í því, Halldór Ásgrímsson, en hann hefur fengið hrós fyrir. Það vil ég að komi fram núna þegar segja má að við séum kannski að gera upp þessa framkvæmd.

Hvað sem mönnum finnst um Kárahnjúkavirkjun er hún tæknilegt stórvirki, bæði ofan jarðar og neðan, risavaxið verkefni. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, hún hefur skipt sköpum fyrir þróun Austfjarða. Það má segja að allar þær væntingar sem menn gerðu sér um áhrifin á miðsvæðinu hafi gengið eftir, þó að því undanteknu að menn töldu að þessi áhrif hefðu meiri áhrif á Seyðisfjörð til uppbyggingar en verið hefur. Í lok þessara framkvæmda, þegar rétt er að skyggnast yfir þetta svið, blasir við að þegar framkvæmdum er að sleppa er líklegt að þetta leiði til þess að íbúum á Austurlandi fjölgi um 1.800–2.000 manns. Þarna hafa átt sér stað gríðarlegar framkvæmdir, íbúðabyggingar, 700 íbúðir hafa verið byggðar. Mjóeyrarhöfn er að verða einhver umsvifamesta höfn landsins. Tekjur og umsvif sveitarfélaganna, Fjarðabyggðar sem þessu tengist og Egilsstaða, hefur vaxið snöggtum og nú þegar framkvæmdum sleppir mun það auðvitað hafa áhrif á stöðuna þarna. Þessir stórauknu fasteignaskattar og tekjur þessara sveitarfélaga vega þar upp á móti.

Sömuleiðis er alveg ljóst að álverið hefur gert þjónustusamninga við fyrirtæki á Austfjörðum sem skipta miklu máli, upp á marga milljarða. Þetta hefur margfeldisáhrif og þess vegna er ekki hægt annað en að slá því föstu að þessi framkvæmd hefur náð þeim tilgangi varðandi byggðir sem ætlað var. Af þeim 400 manns sem á að ráða í álverið er búið að ráða 380. Þar af eru 220 af Austurlandi, 160 eru annars staðar að af landinu eða þá útlendingar sem fest hafa rætur og eru íslenskumælandi. Það er líka alveg hægt að slá því föstu að þær hrakspár sem sumir höfðu, þar á meðal sá sem nú er iðnaðarráðherra, um að ekki mundi reynast kleift að ráða nema útlenda farandverkamenn í þetta reyndust ekki á rökum byggðar.

Mér finnst líka rétt, þegar við erum kannski að gera þetta mál upp, að horfa aftur til þess að þessar framkvæmdir voru gerðar að mestu leyti af útlendu fólki, oft og tíðum við erfiðar aðstæður. Oft spunnust deilur um meðferðina á því fólki hér sem vann hjá Impregilo. Við skulum líka hafa hugfast að þetta fólk færði fórnir, það komst ekki allt heilt heim, sumir komust ekki lífs heim til sín. Því skulum við ekki gleyma.

Á þessum pening er síðan önnur hlið. Sogkraftur framkvæmdanna hafði líka áhrif á strandbyggðirnar beggja vegna við Fjarðabyggð, bæði norðan og sunnan megin. Hv. þingmaður spyr hvort ríkisstjórnin hafi velt fyrir sér afdrifum og möguleikum þessara byggðarlaga. Hv. þingmaður hefði kannski átt að hugsa til þessa þegar hann var í ríkisstjórn. (Gripið fram í: Gerði …) Þessi ríkisstjórn, eins og ég hef þegar svarað fyrirspurn til hv. þm. Framsóknarflokksins, Birkis Jóns Jónssonar, hefur þessi mál í athugun, henni hafa borist ákveðnar óskir sem ég hef lýst áður á þingi með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggist verða við.