135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:48]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér er í dag og óska til hamingju, ekki bara íbúum á Austurlandi með sl. föstudag heldur einnig allri þjóðinni.

Á föstudaginn, þegar hæstv. ráðherrar iðnaðar og fjármála ræstu sjöttu vél Kárahnjúka, var stór stund. Það var komið að lokum þessa mikla verkefnis sem bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa Fjarðaáls við Reyðarfjörð er. Mér þykir því skjóta nokkuð skökku við að enn skuli menn koma hér í ræðustól og tala svartnættið úr honum. Menn sjá það sem sjá vilja hvers konar gífurleg breyting hefur orðið á Austurlandi. 400 ný störf verða við álver Alcoa, 380 er búið að ráða í eins og kom fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra. 400–500 afleidd störf verða til með útvistunum verkefna hjá álveri Alcoa. Hvernig halda menn miðað við þá stöðu sem landsbyggðin, og Austurland, var í áður að hlutirnir væru ef þetta hefði ekki komið til?

Fjarðabyggð, sem hýsir álver Alcoa, missti 2.350 þorskígildistonn í þorskveiðiniðurskurðinum. Ég hugsa að það væri fátt um fína drætti á Austurlandi ef menn hefðu þá ekki þetta, þessa framkvæmd sem þarna kemur á móti til að styðja við byggðina. Að sjálfsögðu hafa menn séð, og sjá, áhrif á jaðarbyggðir og það er einu sinni svo að það er þá verkefni sem við leysum úr. Nú höfum við til þess fleiri stoðir.

Það er einnig fagnaðarefni — við framsóknarmenn höfum ýmsar skoðanir á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar — að kannski sjáum við þarna alvörumótvægisaðgerð Þess vegna höfum við horft til fleiri svæða sem undir högg eiga að sækja, þar á meðal á norðausturhorninu. Við höfum haft af því áhyggjur að það væri komið út af borðinu — ég ætla að nota tækifærið hér í leiðinni og fagna því sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta, á föstudaginn, að nú séu líkur uppi að (Forseti hringir.) norðan lands séu möguleikar á að nýta orkuna sem þar er til góðra verka til að Norðlendingar nái vopnum sínum einnig, eins og Austfirðingar.