135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Að svo miklu leyti sem við höfum upplýsingar um þróunina á Austurlandi í kjölfar ákvörðunar um stóriðjuframkvæmdir þar virðist þróunin vera í samræmi við þær spár sem gerðar voru á sínum tíma, áður en framkvæmdir hófust. Austurland er að taka stakkaskiptum í byggðaþróun og atvinnulegu tilliti, sérstaklega miðhluti Austurlands, en vitað var að auðvitað væru þarna jaðarsvæði þar sem áhrifin af álverinu yrðu takmörkuð við tiltekin atvinnusvæði.

Á síðustu þremur árum hefur fasteignaverð á Austurlandi öllu hækkað um 102%. (Gripið fram í.) 102% á Austurlandi öllu sem er miklu meira en jafnvel á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignaverð hækkaði um 68% á sama tíma. Þessi breyting þýðir að Austurland er ekki lengur í flokki með Vestfjörðum og Norðurlandi vestra um afleita þróun fasteignaverðs sem endurspeglar slæma stöðu atvinnumála í þessum landsfjórðungum. Austurland er núna komið í flokk með höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi og öðrum skyldum svæðum. Verðhækkun á fasteignum frá 1990 er svipuð á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Hækkunin á síðustu þremur árum á íbúðarhúsnæði á Austurlandi umfram það sem hækkunin varð á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra — sem hún hefði orðið á Austurlandi ef ekkert hefði verið gert — nemur nærri 20 milljörðum kr., um 6 millj. kr. fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu á þessu svæði, á Austurlandi öllu. Það er ávinningur í hendi hverrar fjölskyldu af þessum framkvæmdum, virðulegi forseti.