135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[16:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með að ég hef botnað í umræðunum sem vinstri grænir hafa haft hér í frammi. Ég tel, eins og ég sagði í ræðu minni, að við eigum að bera fulla virðingu fyrir viðhorfum þeirra náttúruverndarsinna sem hafa látið að sér kveða í þessari umræðu. Þeir höfðu um margt rétt fyrir sér og þeir breyttu umræðunni. Landsvirkjun til hróss vil ég segja að þeir minntust þessa þegar hornsteinninn að Fljótsdalsstöð var lagður með því að í blýhólknum sem forseti Íslands ásamt sex eða sjö skólabörnum lagði þar árið 2006 er að finna skjal sem hefur inni að halda viðhorf mótmælenda ásamt gagnrýnu ljóði eftir Njörð P. Njarðvík. Ég tel, herra forseti, að Kárahnjúkaframkvæmdin og álverið hafi skipt sköpum varðandi íbúaþróun á miðsvæði Austurlands, þar hafi þau haft nákvæmlega sömu afleiðingar og við höfum séð uppi á Skaga og í Borgarnesi sem stafa af álverinu á Grundartanga. Ég held að enginn dragi í efa þessar jákvæðu afleiðingar, en þær þarf alltaf að vega á móti þeim áhrifum sem svona framkvæmdir hafa á náttúruna.

Ég fagna því að hv. þm. Guðni Ágústsson tekur undir þá stefnubreytingu sem sást hjá Landsvirkjun varðandi orkusölu í framtíðinni. Ég tel það ákaflega slæmt mál að hingað skuli sækja fyrirtæki sem vilja byggja upp hátækniiðnað og geta ekki fengið orku af því að það er búið að lofa þeirri orku sem til er meira og minna í álver. Ég segi það alveg skýrt að ef á annað borð á að byggja álver vil ég miklu frekar sjá það á Húsavík en hér sunnan lands. Við höfum ekki þörf á því hér sunnan lands. Það sem skiptir máli er að við notum orku okkar til skynsamlegrar uppbyggingar á hátækniiðnaði í framtíðinni (Forseti hringir.) og það er líka gott fyrir landsbyggðina.