135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fyrirspurn á dagskrá.

[18:09]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Forseti gat þess að möguleiki væri á því að kalla á ráðherra í salinn og ég vil taka þeirri áskorun því ég tel það mjög brýnt hagsmunamál að fá — nú sé ég að ráðherra er kominn og ég fagna því. Ég skal ekki tefja þennan fund lengur en ég kalla eftir viðbrögðum ráðherra við kröfu MS-sjúklinga um að lyfið sem ég kann eiginlega ekki að bera fram nafnið á, (Gripið fram í.) Tysabri, komi á markað. Hér eru mikilvægir hagsmuni í húfi fyrir þetta fólk og margir hafa beðið mjög lengi eftir því að lyfið komi á markað hér á landi. Nú hillir undir það. Í rauninni er ekkert því til fyrirstöðu lengur og ég kalla eftir viðbrögðum ráðherra, hvort hann muni beita sér fyrir því að Tysabri komi hér á markað og það helst fyrir áramót því fyrir þá sem eru langt leiddir af þessum sjúkdómi skiptir hver mánuður miklu máli.