135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

upplýsingagjöf til bandarískra stjórnvalda.

82. mál
[18:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Flestir þekkja að eftir 11. september 2001, eftir árásir hryðjuverkamanna á skotmörk í Bandaríkjunum, hertu Bandaríkjamenn mjög þær öryggisreglur sem giltu gagnvart ferðamönnum sem þangað vildu koma. Undir yfirskini baráttu gegn hryðjuverkum krefja bandarísk yfirvöld m.a. flugfarþega frá Íslandi um fingraför beggja handa og ljósmyndatöku við komu til landsins en einnig upplýsinga frá flugfélögum um ein 34 tiltekin atriði sem eiga að liggja fyrir áður en farið er í loftið ætli menn til Bandaríkjanna.

Þess má geta varðandi upplýsingar frá flugfélögum að Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að samningur þar um milli Evrópusambandsins og Bandaríkjastjórnar stangist á við lög um persónuupplýsingar en þessum upplýsingum mun safnað hér á landi á vegum Icelandair og þær látnar í té án þess að nokkur slíkur samningur liggi fyrir enda er viðbúið að annars fengi fyrirtækið ekki lendingarleyfi í Bandaríkjunum. Nú veit ég ekki hversu mörgum íslenskum ríkisborgurum eða farþegum með íslenskum flugvélum hefur verið meinuð landganga í Bandaríkjunum vegna þeirra atriða sem ég hef nefnt, en takmarkanirnar eru fleiri.

Fyrirspurn mín, sem ég leyfi mér að leggja fyrir hæstv. dómsmálaráðherra, lýtur að einstaklingum sem hefur verið snúið frá landgöngu í Bandaríkjunum á undanförnum missirum og árum vegna ástæðna sem ekki er hægt að rekja til þessarar meintu baráttu gegn hryðjuverkum eða þeirra upplýsinga sem ég hef nefnt og aflað er frá flugfélögum — einstaklingum sem hefur verið snúið frá Bandaríkjunum vegna áratuga gamalla refsidóma eða smávægilegra dóma sem hvergi hafa birst á vef eða opinberlega.

Spurning mín lýtur m.a. að því hvernig bandarísk yfirvöld hafa komist yfir upplýsingar eins og þær að virtur kaupsýslumaður hér í bæ hafi fengið fyrir 20 árum dóm fyrir bókhaldsbrot. Fullnustu þeirrar refsingar var reyndar frestað og svo langt er síðan að þetta er löngu áður en hæstaréttardómar fóru að birtast á vef eða opinberlega með öðrum hætti.

Einnig lýtur fyrirspurn mín að því hvernig sömu yfirvöld komust yfir upplýsingar um að tiltekinn verkfræðingur hér í borg hafi fyrir um 15 árum á unglingsaldri fengið vægan dóm í undirrétti fyrir vörslu á kannabisefni eða um ungan mann sem fyrir fjórum árum fékk sektardóm fyrir óspektir á almannafæri. En öllum þessum þremur einstaklingum og fleirum til hefur verið vísað frá landgöngu í Bandaríkjunum með tilvísun í þessa dóma. Það er ljóst að leita þarf annarra skýringa um þessa upplýsingagjöf heldur en í flugfélögin og það virðist því miður svo sem sendiráð Bandaríkjamanna hafi aðgang að sakaskrá eða þá heimildarmenn hjá dómstólum eða lögreglu og því hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi spurningu fyrir hæstv. ráðherra:

Hafa bandarísk stjórnvöld á síðustu 15 árum leitað liðsinnis íslenskra yfirvalda um öflun upplýsinga vegna refsidóma sem fallið hafa í málum íslenskra ríkisborgara? Ef svo er, hafa íslensk yfirvöld gefið slíkar upplýsingar og um hve marga íslenska ríkisborgara?