135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

upplýsingagjöf til bandarískra stjórnvalda.

82. mál
[18:17]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Á síðustu 15 árum hefur ein beiðni borist dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá bandarískum yfirvöldum um upplýsingar um sakavottorð íslensks ríkisborgara en hann hafði verið handtekinn í Bandaríkjunum. Beiðnin barst árið 1993 og voru upplýsingar veittar af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Frá því að embætti ríkislögreglustjóra kom til sögunnar 1997 hefur ein fyrirspurn borist frá skrifstofu Interpol í Washington en það var árið 1998 og var spurt um sakaferil íslensks ríkisborgara sem var til rannsóknar fyrir vörslu barnakláms. Upplýsingarnar voru veittar á grundvelli samstarfssamnings Interpol um alþjóðlega lögreglusamvinnu sakamálalögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara er ekki vitað um beiðni frá bandarískum stjórnvöldum frá því að rafræn málaskrá kom til sögunnar hjá embættinu árið 1999. Samkvæmt ákvæði í reglugerð um sakaskrá ríkisins getur ríkissaksóknari gefið út sakavottorð til erlendra yfirvalda vegna rannsóknar og meðferðar opinbers máls eða vegna öflunar ríkisfangs eða ökuréttinda.

Þess ber að geta að nú er auðvelt fyrir hvern sem er að afla sér upplýsinga um þá sem hljóta refsidóma á Íslandi. Upplýsingarnar liggja fyrir í héraðsdómum og hæstaréttardómum sem birtir eru á netinu.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um þau atriði sem spurt er um af hálfu Bandaríkjamanna þegar fólk ferðast þangað flugleiðis þá er það svo að reglur Evrópusambandsins gilda einnig gagnvart íslenskum ríkisborgurum og um það hefur verið rætt m.a. af mér við forráðamenn Evrópusambandsins að við höfum samleið í þessu. Það er nauðsynlegt að við stillum saman strengi varðandi þennan þátt enda snertir þetta m.a. Schengen-samstarfið. Ég held að ekki sé efni til þess að gera ferðir Icelandair eða kröfur grunsamlegar með þeim hætti sem mér heyrðist hv. þingmaður vera að gera.

Þegar menn fljúga til Bandaríkjanna er fyllt út ákveðið skjal sem menn skrifa sjálfir og veita upplýsingar. Þar eru ýmsar spurningar sem menn svara og ef fram kemur í þeim svörum eitthvað sem bandarísk yfirvöld telja athugunarvert þegar menn skila þessum skjölum við komu sína til Bandaríkjanna getur það líka haft áhrif á hvort mönnum er hleypt inn í landið eða ekki.